10.11.1980
Efri deild: 10. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 565 í B-deild Alþingistíðinda. (390)

33. mál, málefni Flugleiða hf.

Sjútvrh. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Ég verð að segja að ég harma tilraun hv. þm. Kjartans Jóhannssonar til þess að gera meðferð þessa viðkvæma máls tortryggilega. Ég ætla ekki að fara hér út í ítarlegar umr. um þá þróun sem hefur orðið. M.a. lýsti hv. þm. því yfir, að það hefði engin ástæða verið til þess hjá mér að hafa áhyggjur af nýlegum upplýsingum sem komu fram fyrir 2–3 vikum um þróun mála hjá fyrirtækinu.

Nú vill svo til að ég hef afhent honum og öðrum nm. allar þær upplýsingar. Ég er að vísu ekki doktor í rekstrarfræðum, og kannske er það þess vegna sem ég hef áhyggjur af því þegar áætlanir fara milljónum dollara úrskeiðis, eða sem sagt tapið verður milljónum dollara meira en ráð er fyrir gert. Þetta kom t.d. fram í skjali, sem dags. er 8. okt., þar sem borið er saman við rekstrarafkomu. Þar segir: „Rekstrarafkoma janúar-júlí er óhagstæðari en endurskoðuð rekstraráætlun um tæpar 4 millj. dollara.“ Ég verð að viðurkenna að ég hafði áhyggjur af þessum tölum, en kannske er hv. þm. vanari því að áætlanir standist ekki meira en þarna kemur fram. Því miður hefur þróunin verið þannig. En það eru bjartir punktar í þessu einnig, t.d. þeir að rekstrarafkoma fyrirtækisins í ágúst og sept. sýndi 4 millj. dollara hagnað og það mun nokkurn veginn fylgja áætlun. Því vil ég enn leggja áherslu á það, að því miður hafa málin hjá Flugleiðum þróast miklu verr en stjórnendur þeirra gerðu sjálfir ráð fyrir. Ég er alls ekki með nokkru móti að gefa til kynna að fyrri áætlanir þeirra hafi ekki verið á bestu upplýsingum byggðar. Ég efast ekki um það. En hitt er ljóst, að á þeim hafa orðið verulegar breytingar og sumar þær upplýsingar um breytingar ekki komið fram fyrr en ákaflega seint, eins og t.d. það sem ég nefndi áðan.

Það lá ekki heldur fyrir fyrr en á bankaráðsfundi 1. nóv., að greiðsluþörf fyrirtækisins í nóv. væri næstum því 10 millj. dollarar. Það hefur þá a.m.k. farið fram hjá fleirum en mér, m.a. viðskiptabanka fyrirtækisins. Úr þessu þarf að bæta, þessu samgönguleysi, og ég lít svo á, að með þeim skilyrðum, sem nefndin er með, verði það gert.

Ég verð einnig að leiðrétta það sem ég vil kalla útúrsnúning hjá hv. þm., að til standi að toga og teygja þessi skilyrði. Ég tók meira að segja fram að ef einhverju þyrfti að breyta, þá mundi ég fyrir mitt leyti leggja áherslu á að samband yrði haft við fjh.- og viðskn. Svo strangt lít ég á þessi skilyrði. Ég lít á þau svo bindandi að sjálfsagt sé að hafa samband við fjh.- og viðskn. ef nauðsynlegt reynist að breyta þeim. Hv. þm. Eyjólfur Konráð Jónsson nefndi áðan nýju hlutafélagalögin, sem ein út af fyrir sig valda verulegum breytingum í stjórn hlutafélaga. Mér hefur t.d. verið bent á það af lögfróðum manni, að kannske þurfi að ræða þessi skilyrði við félagið á grundvelli nýju laganna, og sá lögfróði maður varpaði fram þeirri hugmynd, að vera kynni að kanna þyrfti málin eitthvað betur. Slík atvik geta að sjálfsögðu komið upp og ekki eðlilegt að unnt sé að ljúka svo viðamiklum þáttum eins og þessum skilyrðum til hins ítrasta á skömmum tíma.

Ég endurtek: Það er hreinn útúrsnúningur að það standi til að toga og teygja þessi skilyrði, það verður farið eftir þeim til hins ítrasta. Ef svo kemur í ljós að bestu manna mati, að einhverju þurfi að breyta, þá verður samráð haft við fjh.- og viðskn. Alþingis.