29.04.1981
Neðri deild: 84. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 3830 í B-deild Alþingistíðinda. (3905)

221. mál, útflutningsgjald af sjávarafurðum

Halldór Blöndal:

Herra forseti. Ég vil vekja athygli á því, að við 2. umr. málsins komst hæstv. sjútvrh. svo að orði:

Ríkisstj. taldi sér ekki fært að fella gengið eins og nauðsynlegt hefði verið til þess að veita frystingunni lágmarksafkomugrundvöll. Því var horfið að því að færa þarna á milli, vissulega jafnframt í þeirri von, sem menn hafa talið, að vísu verið umdeilt, en margir hafa talið að hljóti að vera fram undan nokkur hækkun á frystum afurðum.“

Svo mörg voru þau orð. Það, sem er eftirtektarvert í þessu sambandi, er að frá því skuli vera skýrt af hæstv. ráðh. eins og sjálfsögðu að lágmarksafkomugrundvöll skorti fyrir hraðfrystiiðnaðinn. Því er að vísu haldið fram, að á þessu kunni að verða nokkur breyting í framtíðinni, en engin vissa er um það og ekkert fast að byggja á. Þessi afstaða ríkisstj. kemur raunar ekki á óvart og ekki aðeins varðandi það mál sem hér um ræðir, heldur einnig varðandi iðnaðinn í heild, svo að ég taki sem dæmi samkeppnisiðnaðinn, útflutningsiðnaðinn og ýmislegt annað, því að ríkisstj. er kærulaus og hugsar ekki fyrir því, að eðlileg rekstrarskilyrði séu hjá atvinnuvegunum. Til langframa hlýtur þetta að verka þannig að lífskjör þjóðarinnar fari versnandi. Sú hefur líka verið reynslan af þessari ríkisstj., að kaupmátturinn hefur rýrnað og spá Þjóðhagsstofnunar nú er sú, að kaupmátturinn haldi áfram að rýrna. Þjóðartekjur á mann rýrna. Eftir að þessi ríkisstj. fer frá að lokum er ekki vafi á að eigið fé í atvinnurekstrinum verður minna. Þeir, sem við taka, verða því að byrja á því að byggja aftur upp það sem þessi ríkisstj. hefur brotið niður. Það verður hlutverk þeirra ungu manna sem þá taka við, þeirra nýju krafta sem þá munu láta til sín taka, þeirrar djarfhuga æsku sem vill fá að njóta framtaks síns og dugnaðar. (ÓÞÞ: Þeir gömlu verða allir dauðir — eða hvað?)