30.04.1981
Neðri deild: 85. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 3845 í B-deild Alþingistíðinda. (3917)

306. mál, verðlagsaðhald

Frsm. 3. minni hl. (Matthías Á. Mathiesen):

Herra forseti. Það er engum efa bundið að málsmeðferð og öll vinnubrögð ríkisstj. varðandi frv. það, sem hér er til umr., eru með alveg einstökum hætti. Það er með svo einstökum hætti að málinu staðið, að það er ekki þjóðþingi lýðræðisþjóðar sæmandi í raun og veru að láta afgreiðslu málsins fara fram með þeim hætti sem hér er stefnt að og óskað hefur verið eftir af hæstv. ríkisstj. Engu að síður hafa talsmenn Sjálfstfl. lýst yfir að þeir muni ekki leggja stein í götu frv., heldur hafa þeir lagt á það áherslu að Alþingi og alþm. fái það tækifæri sem eðlilegt er til að fjalla um þetta mál og gera þær athuganir sem ástæða þykir og þörf er á.

Í stað þess að leggja fyrir Alþingi tillögur til úrlausnar vandamálanna, sem lengi hafa verið boðaðar og beðið hefur verið eftir, leggur ríkisstj. nú enn einu sinni fram frv. sem staðfestir algert úrræðaleysi hennar í viðureigninni við verðbólguna. Það er nánast sama hvenær talsmenn ríkisstj. hafa komið hér upp í ræðustólinn og þau hin stóru mál hafa verið til umr. Aldrei hefur verið að heyra neina stefnu, enda hún ekki fyrir hendi. Við getum byrjað þegar ríkisstj. var mynduð og frestað hafði verið stefnuræðu forsrh., sem þingsköp gerðu ráð fyrir. Þá treystist hæstv. forsrh. ekki til þess að halda sína stefnuræðu. Ríkisstj. fór á flot stefnulaus. Hún hafði að vísu látið semja lítinn bækling sem átti að heita stefna ríkisstj., en er og var nánast ekkert annað en viljayfirlýsingar og stefnumið, en ekki að finna neina þá stefnu sem eðlilegt hefði verið hjá ríkisstj. sem var að taka við völdum.

Þegar fyrsta fjárlagafrv. hæstv. ríkisstj. var tekið til meðferðar var ekki vottur af neinni stefnu og það var gefin skýring, að svo stutt hefði verið síðan ríkisstj. tók við að ekki hefði unnist tími til að móta hana og koma henni fram í fjárlögum. Að vísu voru óskatölur settar inn í fjárlagafrv. Það kom fram hjá hæstv. fjmrh., þegar annað fjárlagafrv. ríkisstj. var kynnt á s. l. hausti, að tölurnar, sem þar voru, væru kannske í frv. einfaldlega vegna þess að þar þyrftu að vera einhverjar tölur og þessar gátu þá alveg eins verið og einhverjar aðrar. Lánsfjárlög, sem eiga að fylgja fjárlögum ríkisstj. samkv. efnahagslögunum frá 1979, voru ekki lögð fram né lánsfjáráætlun og enn gefin á því skýring, að ekki hefði unnist tími til að koma fram þeim sjónarmið'um sem þyrftu að vera í lánsfjáráætlun eftir að ríkisstj. hefði mótað stefnu sína í þeim málum. Lánsfjárlögin voru lögð fram án þess að nokkra stefnumótun væri þar að finna. Og þannig hélt þetta áfram það sem eftir var af fyrsta þingi núv. hæstv. ríkisstj. Því lauk án þess að ríkisstj. legði fram neina stefnu eða gerði Alþingi eða þjóðinni grein fyrir hvað það væri sem hún hygðist háfa að grundvallaratriðum í stefnu sinni.

Alþingi beið þar til það kom saman á s. l. hausti. Hæstv. forsrh. uppfyllti þá þingskapaákvæðin og hélt ræðu, en henni var lýst mjög vel með því að segja að hér var um að ræða stefnulausa stefnuræðu. Fjárlagafrv. var þá flutt og þar var ekki heldur að finna neina þá stefnu sem talað hafði verið um. Það var einmitt þá sem hæstv. fjmrh. orðaði það svo, að 42% forsendan, sem var til grundvallar fjárlagafrv., gæti verið einhver önnur, en þarna hefði þurft einhverja tölu og hún þess vegna verið sett inn. Það var ekki heldur þá tími til að leggja fram eða vinna að lánsfjárlögum og lánsfjáráætlun, eins og lög gerðu ráð fyrir, og talað um að það yrði síðar og þá gert ráð fyrir að það yrði væntanlega áður en afgreiðsla fjárl. færi fram. Svo varð ekki. Fyrir 3. umr. fjárlaga var lögð fram bráðabirgðaskýrsla og lýst yfir að skýrsla ríkisstj. kæmi með stefnumiðum ríkisstj. þegar Alþingi kæmi saman eftir áramót, en þá var verið að vinna, eftir því sem sagt var, úr tillögum efnahagsnefndar ríkisstj. Þm. gerðu þá ráð fyrir því, að áður en Alþingi færi heim í jólaleyfi kæmu fram tillögur um lausn þeirra vandamála sem þá blöstu við og voru öllum ljós.

Þing fór heim. Engar tillögur komu frá ríkisstj., engin samstaða. Það er á gamlárskvöld sem gefin voru út brbl.brbl. sem enga brýna nauðsyn bar til að gefa út, aðeins gert til þess að setja á svið sjónarspil og til þess að umræður um þau mál, sem um átti að fjalla, þyrftu ekki að fara fram fyrr en komið væri fram á útmánuði. Brbl. voru afgreidd frá Alþingi. Í þeim var engin stefna ríkisstj. Þar var ekkert um hvað gera skyldi. Það eina, sem þar var að finna, var breyting á kaupgjaldsvísitölu. Aðilarnir, sem höfðu gagnrýnt breytingar af sama tagi fyrr, voru nú búnir að taka upp þá iðju sem þeir höfðu gagnrýnt áður.

Eftir fyrstu fjóra mánuði þessa árs er þjóðin jafnnær og áður um stefnu ríkisstj., enda ekkert samkomulag þar um nú frekar en fyrri daginn. En á síðustu dögum fyrir 1. maí, þar sem þá rann út gildistími brbl., er sett saman frv. sem Alþingi er ætlað að samþykkja nánast án umfjöllunar. Hér er haldið uppteknum vinnubrögðum frá s. l. ári sem, eins og ég gat um áðan, endurspegluðust þá í útgáfu brbl. á gamlárskvöld, aðeins 10 dögum eftir að Alþingi fór í jólafrí. Nú eru Alþingi ætlaðir aðeins þrír sólarhringar til umfjöllunar frv. ríkisstj. Það er ekki hægt að skipuleggja svo störfin hér á Alþingi að þm. fái tækifæri til þeirrar athugunar og umfjöllunar sem slík lagasetning krefst. Umr. geta ekki átt sér stað á þingi, svo hratt skulu málin keyrð. Jafnvel þrátt fyrir miklar aths. fulltrúa stofnana, sem kvaddir voru á fund fjh.- og viðskn. þann eina dag sem nefndinni var ætlaður til starfa, og þrátt fyrir aths. sérfróðra manna, sem leitað var til, gefst n. ekki tækifæri til efnislegrar umræðu um málið, skoðanaskipta á milli þm. sem í n. eiga sæti. Þm. höfðu varla tækifæri til að ræða við samflokksmenn sína, gera þeim grein fyrir því sem fram hafði komið á þessum eina fundi sem stóð nærri 10 klukkutíma, gera þeim grein fyrir þeim sjónarmiðum sem þar höfðu verið flutt af tilkvöddum aðilum. Ríkisstj. hafði ákveðið að málið skyldi afgreitt samkv. pöntun, enda telur hún sér kannske langhagstæðast að fram fari sem minnstar umr. um þetta mál hér á Alþingi og þær taki sem skemmstan tíma.

Það kom fram í máli hv. 3. þm. Vestf., frsm. 2. minni hl., að nokkru leyti hvernig þessum vinnubrögðum var háttað. Sú umr., sem fram fer hér í dag, ber þess líka keim. Hann gat þess réttilega í ræðu sinni hverjar venjur væru og hvað eðlilegt væri um greinargerðir frá störfum nefnda Alþingis til alþm. þannig að þeir gætu tekið afstöðu til mála eftir þeim upplýsingum og eftir þeim aths. sem þar hefðu komið fram. Hann gat þess réttilega einnig, að venjan hefði verið að í nefndarálitum væru birtar skoðanir þessara aðila ef þær væru með þeim hætti að ástæða þætti til sérstaklega — ég tala nú ekki um að birt væru sem fskj. með nál. þau skjöl sem lögð væru fram á fundunum og væru m. a. forsendur afstöðu þm. þegar þeir gerðu þd. grein fyrir skoðunum sínum og leggðu til hvort heldur er að frv. yrði samþ. eða ekki að þeir legðu fram brtt. sínar við frv. Og hann sagði réttilega, að ef þannig hefði átt að vera í þetta skipti hefðu þm. orðið að starfa hér í alla nótt.

Nál. 1. minni hl., þ. e. stuðningsmanna ríkisstj., ber ekki með sér hverjar umr. fóru fram á fundum n., en það hefur þó gjarnan verið svo, að í því nál., sem formaður n. skrifar undir, hefur verið getið sérstakra sjónarmiða, sem ástæða hefur þótt til að taka fram, og jafnframt komið fram og lögð fram fskj. þau sem birt hafa verið á fundinum.

Nál. 3. minni hl. fjh.- og viðskn. hefur nýlega verið hér útbýtt, skömmu áður en ég hóf ræðu mína. Ástæðan er einfaldlega sú, að við, sem að því nál. stöndum, vildum ekki gera annað en það, sem hefur verið hér venja og þm. deildarinnar eiga kröfu á, að láta sjónarmið koma fram og röksemdafærslu fyrir þeim og þá um leið birta þau skjöl sem lögð voru fram í n. Við gerum þetta í nál. því sem við gengum frá á þskj. 695 og var þess vegna síðbúnara en þau önnur nál. sem talað hefur verið fyrir. Þó gerði hv. 3. þm. Vestf., frsm. 2. minni hl., töluverða grein fyrir því sem fram fór í n. — þeim upplýsingum sem þar komu fram.

Ég minnist þess sem formaður í fjh.- og viðskn. þessarar hv. deildar um nokkurra ára skeið, að þeir, sem ég lærði af, eldri þm. sátu í n., létu ekki bjóða sér þau vinnubrögð sem hér virðast vera upp tekin af þeim sem fara með stjórn landsins, og við eigum ekki að láta bjóða okkur þau vinnubrögð. Með því móti er ríkisstj. að lítilsvirða Alþingi og alþm. Með því móti er ríkisstj. að gera Alþingi að einhverri afgreiðslustofnun — stofnun sem ekki á að hennar dómi að hafa skoðanir á þeim málum sem þar eru og eiga að vera til umfjöllunar. Við skulum vona að við séum ekki þrátt fyrir þetta að taka upp þjóðskipulag eins og þar sem löggjafarsamkoman, að nafninu til kölluð, er afgreiðslustofnun valdhafanna og ekkert annað.

Það var vikið hér að sjónarmiðum fyrrv. þm. og ég minnist hans sérstaklega sem meðnm. míns í fjh.- og viðskn.: Upplýsingar, sem óskað var eftir, skyldu koma, menn skyldu hafa tíma til að skrifa nál. sín og gera grein fyrir sjónarmiðum sínum og því sem fram kom á fundunum. Svo skyldu menn fara í umr. inn í deild og eftir því hvernig á stóð var hægt að takmarka sig í ræðu, eftir því hversu hratt málin þurftu að dómi þm. að ganga fram. En til þess að hægt sé að verða við slíkum óskum, sem oft kemur fyrir að ríkisstj. þarf að bera upp við stjórnarandstöðu, verður ríkisstj. sjálf að haga sínum málum þannig að hún geti ætlast til þess, hún geti gert kröfu til þess, að að óskum hennar sé farið. Það sjá allir að ekki er rétt aðferð að leggja fram frv. á mánudegi um þessi málefni til að afgreiða hér á Alþingi sem lög þremur sólarhringum síðar. Margir alþm. hafa á svo skömmum tíma ekki fengið tækifæri til að fjalla um málefnið. Þetta eru ekki starfsaðferðir sem við eigum að viðhafa og eru ekki heldur starfsaðferðir sem verða til þess og geta orðið til þess að minni hl. á Alþingi sýni ríkisstj. umburðarlyndi þegar á þarf að halda.

Hvernig er hægt að ætlast til þess að Nd. hv. Alþingis geti fjallað um slíkt mál á skemmri tíma en á þremur starfsdögum í allra minnsta lagi, þegar nefndarstörf í gær hófust svo þar að auki kl. 8 og lauk í gærkvöld rétt um sjöleytið án þess, eins og ég sagði áðan, að nokkur skoðanaskipti hefðu farið fram á milli nm.? Nm. höfðu setið á fundum allan daginn. Þeir höfðu skipst á skoðunum við þingflokksbræður sína örstuttan tíma, en annar möguleiki var ekki fyrir hendi. Vinna við nál. hlaut því að verða í nótt sem leið, eins og hv. 3. þm. Vesturl. gat sér til um, ef menn ætluðu að skila nál., án þess þó að allar upplýsingar fengjust sem beðið var um. Ég er þar ekki að áfellast formann n. sem gerði sitt til þess að fá fram upplýsingar sem beðið var um, fá þá menn til viðræðna á fundinn sem óskað var eftir, en það var hvorki í hans valdi að koma á fund með menn sem ekki fundust né heldur að koma með upplýsingar frá mönnum sem vissu ekki hvað þeir vildu. Og þannig endaði fundurinn í gærkvöldi að sumir af þeim, sem óskað hafði verið eftir til fundar, fundust ekki, og upplýsingar frá ríkisstj. gátu ekki komið fram einfaldlega vegna þess að þeir, sem þar voru, vissu ekki hvað þeir vildu. Náttúrlega kom það ekki neinum á óvart. Það hafði tíðkast frá upphafi og það frv., sem við erum hér að fjalla um, sýnist staðfesta að svo sé. Það er um eitt sem þeir vita þó hvað þeir vilja. Það er að sitja áfram þar sem þeir sitja.

Ég hef gert starfshætti þingsins þessa daga að umræðuefni og ég vonast til að slík vinnubrögð verði ekki oftar viðhöfð hér. Ég trúi því og ég treysti því, að svo margir alþm. séu þeirrar skoðunar að Alþingi geti ekki látið bjóða sér þetta. Þetta stríðir gegn lýðræðisskipulagi okkar, þingræði okkar. Ég trúi að það séu margir sem á Alþingi sitja sem vilja verja það.

Ef við víkjum þessu næst að því frv. sem hér er til umr. er þar ekki að finna neitt af þeim meginúrræðum sem blöð stjórnarflokkanna og fjölmiðlar hafa gert grein fyrir eða rætt um að væru til umræðu innan ríkisstj. til viðnáms gegn verðbólgu, t. d. lækkun tolla eða söluskatts, svo að ekki sé minnst á það sem framsóknarmenn kalla nú raunverulega „niðurtalningu“ verðbólgunnar. Í þeim úrræðum að „telja niður“ felst að niður séu taldir allir þættir og þ. á m. verðbætur á laun á þriggja mánaða fresti. Þetta frv. sýnir og staðfestir þá togstreitu og það ósamkomulag sem er innan ríkisstj. Hún setti brbl. á gamlársdag, en að sögn ráðh. var það ekki fyrr en á gamlársdagsmorgun sem stafur hafði verið settur á blað, og þegar líða tók á daginn leit ekki út fyrir að hægt væri að ná samkomulagi um setningu þessara brbl. Þessi brbl., eins og ég gat um áðan, fólu í sér aðeins eitt úrræði er viðkom hjöðnun verðbólgu, þ. e. skerðingu launa um 7% og skerðingu flestra bóta almannatrygginga, skerðingu lífsviðurværis þeirra sem minnst mega sín. En í þessu frv. finnst ekkert úrræði til raunverulegrar hjöðnunar verðbólgu, nema það sé hið svokallaða þriðja afbrigði verðstöðvunar sem að vísu kemur ekki til með að halda aftur af verðhækkunum nema í bili og þá með þeim hætti sem gert er þar ráð fyrir, en leiðir að sjálfsögðu til enn þá meiri verðhækkana, til verðhækkanaflóðs, síðar ef ekki á að stöðva atvinnuvegina. Slík er togstreitan og sundurþykkjan innan ríkisstj. Og hver verður svo afleiðingin? Afleiðingin verður sú verðbólga sem við höfum búið við og varð meiri á s. l. ári en nokkru sinni fyrr. Hún varð meiri á fyrsta ári núv. ríkisstj. en nokkru sinni áður. Sú verðbólga heldur áfram að grafa undan heilbrigðum atvinnurekstri, draga úr lífskjörum manna og sýkja íslenskt þjóðfélag.

Frv, heitir frv. til t. um verðlagsaðhald, lækkun vörugjalds og bindiskyldu innlánsstofnana, en höfuðatriði þessa frv. er að lögfesta þriðja afbrigði verðstöðvunar í tíð núv. ríkisstj. með nýrri nafngift. Verðbólgan fer þó vaxandi næstu mánuði samkv. spá Þjóðhagsstofnunar, og það er í samræmi við þá reynslu sem við höfum af slíkum úrræðum. Viðnám gegn verðbólgu verður ekki veitt með þeim úrræðum sem fram koma í þessu frv.

Frv. gerir ráð fyrir að halda áfram spennitreyju lögbundinna verðlagshafta sem drepa atvinnulífið í dróma. Atvinnuleysisvofan er farin að sjást. Það skyldi þó ekki vera, að áður en þetta ár væri liðið horfðum við fram á vaxandi atvinnuleysi. Staðreyndin er að því miður er það komið.

Þeim verðlagshöftum, sem gert er ráð fyrir í 1. gr. frv., er sérstaklega beint gegn innlendum iðnaði og innlendri þjónustustarfsemi og þar með atvinnuöryggi íslenskra launþega. Innfluttar framleiðsluvörur á íslenskum markaði eru nánast undanþegnar þessum ósköpum.

En hvernig eru svo þessi verðlagshöft úr garði gerð? Þar kemur fram það sem nefnt hefur verið þriðja afbrigði verðstöðvunar, að verðlagshöftin verða nú lögbundin við ákveðin ársfjórðungsleg heildarmörk þannig, eins og það er orðað í grg., að í landinu verði „heildarhækkun ekki umfram þessi tímasettu mörk“ — þetta voru orð hæstv. forsrh. til þess að það fari ekki á milli mála. Með þessum verðlagshöftum er upp tekinn sá háttur, að lögbundin pólitísk markmið verði höfð að viðmiðun við ákvörðun á verðlagningu á vörum og þjónustu, en horfið frá því, að sannanlegur kostnaður fyrirtækja og markaðshorfur ráði verðákvörðunum til þess að fyrirtæki, sem eru vel rekin og hafa góðan markað, geti fengið borinn uppi sinn kostnað og þeir, sem best standa sig í frjálsri samkeppni, geti þar af leiðandi haft áhrif á vöruverð til hagsbóta fyrir neytendur.

Á fundi í fjh.- og viðskn. kom glögglega fram hjá verðlagsstjóra hvernig gert væri ráð fyrir að þessari grein verði beitt. Það, sem hv. 3. þm. Vestf. gerði grein fyrir áðan, voru þau ummæli sem verðlagsstjóri viðhafði á fundi í fjh.- og viðskn. Það fer því eftir pólitískum ákvörðunum hæstv. ríkisstj. og geðþótta hennar hverjir það eru sem hækkanir fá. Aðilar, sem þurfa á slíku að halda og eiga rétt á slíku, verða e. t. v. settir til hliðar vegna þess að aðrar ákvarðanir hafa verið teknar og til þess að heildarmarkmiðunum verði náð, til þess að heildarútkoman verði innan við sett mörk, verði ákvörðun tekin með þeim hætti. Ef spurt er, hvernig fari ef fyrirtæki óskar hækkunar á verðlagi framleiðsluvöru sinnar þegar liðið er á eitt af fjórðungstímabilunum og heildarútkoman sýnist vera að komast upp fyrir hin settu mörk, er svar verðlagsstjóra: Þá verður að láta hækkunina bíða. Það skiptir engu máli um réttmæti hennar, það skiptir engu máli um nauðsyn hennar, atriði málsins er að pólitísk markmið ríkisstj. skuli sitja þar í fyrirrúmi. Ég held að allir þeir, sem þekkja til atvinnurekstrar, geri sér grein fyrir hvaða þýðingu slíkt ákvæði kemur til með að hafa.

Það fór ekkert fram hjá nm. fjh.- og viðskn. þegar fulltrúar atvinnulífsins komu þar og gerðu grein fyrir sjónarmiðum sínum. Þeir bentu á að þegar brbl. voru sett hefði verið talað um að verðstöðvun skyldi gilda til t. maí og þá yrðu málin skoðuð í nýju ljósi. Menn áttu því von á að það, sem hafði verið látið biða af beiðnum, yrði skoðað og á það yrði litið sem rétt og nauðsynlegt var talið að hækka til þess að atvinnureksturinn gæti haldið áfram. Þeir lýstu yfir að þeir hefðu treyst þeim orðum, sem núv. ráðh. hefðu látið frá sér fara, og þeir hefðu átt von á öðru en því sem hér er boðið. Þeim var ljóst þegar brbl. voru sett, að hér var um bráðabirgðaástand að ræða að dómi þeirra sem fyrir þeim töluðu. Ráðh. voru að vísu spurðir oft hér á þingi hvað skyldi taka við, og það var ekki á máli þeirra þar að heyra að verðstöðvun í því formi, sem hún var, yrði haldið áfram, þaðan af síður að hér kæmi hert verðstöðvun, að valdið yrði tekið frá verðlagsnefnd og fært til ríkisstj. til að hafa á þessu bæði tögl og hagldir. Það var ljóst af því, sem fram kom hjá fulltrúum atvinnulífsins, að þeir töldu að þær hækkanir, sem átt hefðu sér stað, 6% hækkun, 8% hækkun, hratt gengissig, — með hraðasta gengissigi, sem átt hefur sér stað, varð á síðustu mánuðum síðasta árs, — væru með þeim hætti að undir slíku fengju fyrirtækin ekki risið.

Til þess að leggja nú áherslu á það, hvernig ríkisstj. hyggðist standa að málum, á að framfylgja þessum nýju verðlagshöftum með lögbannsaðgerðum, jafnvel þó að ekkert liggi fyrir um að lögleyft verð nægi til þess að firra fyrirtækin taprekstri. Það er ljóst mál af lögum um kyrrsetningu að grundvöllur laganna um kyrrsetningu og lögbann er þess eðlis, að hann sýnist ekki geta átt við undir almennum kringumstæðum sem þessum. Það er þess vegna rétt, að hér er verið að færa menn til lögregluríkis og á þá, sem e. t. v. hafa brotið af sér, skal sett lögbann hvort sem þeim líkar það betur eða verr.

Með þessu frv. er lagt til að lögfestar verði heimildir til handa Seðlabanka Íslands til að skylda banka, sparisjóði og innlánsdeildir til að binda ótiltekinn hluta af aukningu spariinnlána. Það má segja að það sé annað meginatriði frv. — 3. gr., um vörugjaldið, er nánast framhald af þeim skopleik sem við höfum orðið varir við hér á Alþingi hjá stjórnarliðum í sambandi við álagningu vörugjaldsins. 4. gr. gerir ráð fyrir sérstakri heimild um niðurskurð á ríkisútgjöldum, en gerir jafnframt ráð fyrir heimild til að lækka ríkisútgjöld, þar með talin lögbundin framlög, nánast þurrka út útgjaldaákvæði allra laga í nokkrum orðum. En 5. gr. fjallar um það atriði sem ég vék að áðan.

Í grg. er borin fram forsendan fyrir því að nú skal Seðlabanka Íslands heimilt að fengnu samþykki ríkisstj. að ákveða ótakmarkaða bindingu allra eða — eins og þar er orðað — einstakra innlánsstofnana á tímabilinu 1. maí til 31. des. 1981. Það hefur raunar verið flutt brtt. og fyrir henni talað af 1. minni hl. fjh.- og viðskn., sem breytir þessari grein, að vísu ekki því að heimilt verður að ákveða ótakmarkaða bindiskyldu, en eftir því sem skilja mátti af orðum frsm. 1. minni hl. er í staðinn fyrir „allra eða einstakra“ innlánsstofnana gert ráð fyrir að þessi bindiskylda verði sveigjanleg, eins og hann orðaði það, — hann gaf að vísu ekki aðrar skýringar, — en tíminn er lengdur fram til ársins 1983. Seðlabankinn hefur sem stendur heimild til að binda sparifé sem nemur 28% af sparifjárinnstæðum eins og þær eru á hverjum tíma. Slík heimild var tekin í lög 1961. Það er fyrir okkur, sem sátum hér þá og hlustuðum á fulltrúa Alþb. og fulltrúa Framsfl. tala hér á þingi varðandi þetta atriði, vissulega athyglisvert þegar þeir nú koma hér, þeir sem mótmæltu, þeir sem héldu fram að það væri verið að draga fjármagn fólksins af landsbyggðinni til þéttbýlisins og það væri verið að leggja það í frystihús í Reykjavík, þetta væri nokkuð sem þeir væru ekki sammála, þetta væri nokkuð sem þeir væru á móti. Menn áttu því von á að þegar þeir hefðu aðstöðu til liðu ekki margir dagar þangað til heimild til bindiskyldu yrði felld úr lögunum um Seðlabanka Íslands. En það er nú eitthvað annað en það sé verið að framkvæma hér skoðanir þessara flokka frá því þegar bindiskyldan fyrst var lögleidd. Nú á að auka hana. Nú á ekki aðeins að auka hana, heldur skal hún ekki hafa neitt hámark í lögum. Með slíkri heimild án efri marka er Alþingi nánast að afsala sér stjórn peningamála að þessu leyti í hendur framkvæmdavaldsins. Það gæti leitt til stóraukinnar miðstýringar fjármagns í framkvæmd. Var á það bent á fjh.- og viðskn.-fundi að frekleg notkun þessarar greinar gæti jaðrað við stjórnarskrárbrot.

En hvað höfðu þeir sem um þessi mál eiga að fjalla, að segja? Hverjar voru skoðanir fulltrúa bankastjórnar Seðlabankans sem komu á fund fjh.- og viðskn.? Það fór ekkert á milli mála að þeir töldu ekki rétt að slík heimild væri lögfest, — jafnvel ekki embættismennirnir, sem áttu með málið að fara, vildu fá heimildina. Jafnvel þeir sáu hvað hér var að gerast — og eins og þar var orðað: Þeir töldu ekki eðlilegt, töldu beinlínis hættulegt að lögfesta slíkt ákvæði og sögðust ekki sækjast eftir því að hafa í lögunum um Seðlabankann heimildarákvæði fyrir Seðlabankann — ákvæði þar sem geðþóttaheimildir gætu orðið til. Þeir upplýstu enn fremur að þeirra álits hefði ekki verið leitað. Það var þess vegna fyrst á fundi fjh.- og viðskn. í gær að skoðun bankastjórnar Seðlabankans kom fram varðandi þetta atriði. Og skoðun hennar var sú, að þetta ákvæði, eins og það kemur fram í frv., óskaði hún ekki eftir að væri fyrir hendi. Jafnframt lýstu bankastjórar Seðlabankans því, að þeir teldu ekki heppilegt að auka bindingu. Þeir töldu eðlilegra að breyta þeim starfsaðferðum, sem við eru hafðar, og minnka endurlán Seðlabankans og þá um leið að binding sparifjár yrði minnkuð. Í þessu ákvæði er farið þvert á skoðanir þeirra manna sem gerst þekkja og hafa farið um nokkuð langan tíma með þessi mál.

Því hefur verið haldið fram, að Seðlabankinn þyrfti að hafa þessar heimildir vegna væntanlegrar sparifjáraukningar sem vonast er til að verði á þessu ári, þess aukins sparifjár sem vonast er til að safnist fyrir á þessu ári og til þess að hafa skjótvirk og öflug stjórntæki í peningamálum fyrir hendi svo að hafa megi áhrif á peningamyndun og útlánaþróun bankakerfisins. Það sýnir, hvert valdhafarnir hyggjast stefna, að slík röksemdafærsla skuli vera í grg. frv. og ótakmörkuð heimild sett í frv.

Það hefur heyrst áður að það, sem aflaga hefur farið í efnahags- og peningamálunum á undanförnu ári og undanförnum 2–3 árum, hafi verið sök bankanna vegna þess að útlánsaukning þeirra hafi verið mikil. Það verður a. m. k. ekki sagt um árið 1980. Útlánaaukning þeirra þá var fyrir neðan það hlutfall sem verðbólgan jókst um. En það verður ekki hægt að segja um erlendar lántökur, sem núv. ríkisstj. beitti sér fyrir á s. l. ári, að svo hafi verið um þær, enda má rekja þróunina í peningamálum fremur og miklu fremur til þeirra ákvarðana en hins, að útlánaaukning bankanna hafi verið mikil.

Ég vék að því áðan, að í 4. gr. væru ákvæði sem vafasamt væri að stæðust ákvæði stjórnarskrárinnar. Það kom fram á fundi fjh.- og viðskn. þegar þangað kom lögfróður prófessor frá Háskólanum og fór ekkert á milli mála hver skoðun hans var í þessum efnum. En gerð þessa frv. er í samræmi við efni þess og það er með ólíkindum flausturslegt og óhrjáleg lagasmíð. Það birtist m. a. í því að jafnvel ákvæði, sem stangast á við stjórnarskrána, leggur ríkisstj. til að lögfest verði og það ekki með neinum venjulegum hraða, heldur með sérstökum hraða.

Í veðri er látið vaka að þetta frv. sé liður í efnahagsáætlun ríkisstj. um viðnám gegn verðbólgu, en í því sambandi vekur athygli að ekkert ákvæði hefur bein áhrif á þróun verðlags þegar til lengdar lætur. Þegar lagðar voru fram fyrirspurnir í fjh.- og viðskn. um ýmsa þá málaflokka, sem vitað er að ákvarðanir verða teknar um hjá ríkisstj. næstu daga, voru engin svör af hálfu ríkisstj. Hún vissi ekkert hvað hún vildi. Það var sama þó spurt væri um verðlagsmál landbúnaðarins. Það var sama þó spurt væri um vaxtamál. Hæstv. forsrh. lýsti því hér yfir, að það væri eitt af því sem skoðað væri nú af hálfu ríkisstj. og ekki ólíklegt að vaxtalækkun ætti sér stað á næstunni. Þegar fulltrúar seðlabankastjórnarinnar voru hins vegar spurðir og fulltrúar bankanna höfðu þeir önnur sjónarmið í þessum efnum, en það fékkst ekkert svar um þetta frekar en annað. Það var spurt um gengismálin. Nm. spurðu um fiskverðsákvarðanir á næstunni. Það var spurt um gjaldskrárákvarðanir. Það var spurt um niðurgreiðslur. Öllu þessu má breyta án þess að setja lög til að breyta því sem fyrir er, a. m. k. er hægt að taka ýmsar ákvarðanir án þess. Hæstv. viðskrh. hefur í útvarpi gert grein fyrir að ýmislegt væri til hliðar við þetta frv. sem kæmi í ljós og til þess þyrfti ekki lagasetningu, en þegar svo spurt var hvað það væri fékkst ekkert svar. Því var að vísu skotið fram hér áðan af hæstv. forsrh., að ákvarðanir hafi verið teknar í gjaldskrármálum sem ríkisstj. fjallaði um í morgun, en frá því hefur ekki verið greint. Allt eru þetta atriði sem hafa áhrif á þróun framfærslu- og kaupgjaldsmála. Allt eru þetta atriði sem ríkisstj. getur tekið ákvarðanir um að eigin geðþótta til þess að halda ákveðnum markmiðum án þess að tekið sé tillit til þeirra staðreynda sem fyrir hendi eru. Það er aðeins ætlað að lögfesta eitt afbrigði verðstöðvunar, en það mun þegar til lengdar lætur auka á vanda verðbólgunnar. Þessa þætti efnahagsstefnu ríkisstj. eða stefnuleysi mætti nefna uppskrift að atvinnuleysi, eins og bent hefur verið á í málflutningi sjálfstæðismanna á Alþingi á yfirstandandi þingi.

Það er ljóst að reynsla okkar af verðlagshöftum til lengdar í viðureign við verðbólguna er með þeim hætti að slíkt er síst til þess að framlengja. Gleggsta dæmið í þessum efnum er hvernig verðlagningu á sementi hefur verið háttað undanfarin ár með þeim afleiðingum að nú er verðhækkunarþörfin orðin langtum meiri en ella hefði orðið. Það er rekstrarstöðvun yfirvofandi hjá Sementsverksmiðju ríkisins, þar hlaðast upp óreiðuskuldir með tilheyrandi vaxtasúpu, það vantar fé til hagræðingar og endurbóta og það vantar fé til að kaupa olíu. Nú verður fjármálastjóri Sementsverksmiðju ríkisins að koma á hverjum mánudegi suður til Reykjavíkur og fara upp í fjmrn. til að sækja andvirði olíukaupa fyrir Sementsverksmiðjuna vikuna þá. (Gripið fram í: Með viðkomu í dómsmrn.) Með viðkomu í dómsmrn., sagði þm. En afleiðingin er ljós: Það er dýrara sement og vanmáttur fyrirtækisins til greiðslu hærri launa til starfsmanna sinna.

Þegar skipta á um nafn á hertri verðstöðvun og nú skal vera verðlagsaðhald liggja fyrir verðhækkunarbeiðnir hjá Verðlagsstofnuninni sem nema hjá einstökum aðilum allt að 85%, en hjá flestum opinberum þjónustustofnunum nærri 40%. Með nál. 3. minni hl. er birt skjal það sem verðlagsstjóri lagði fram á fundum fjh.- og viðskn. til þess að þm. væri ljóst hvaða hækkunarbeiðnir það eru sem liggja fyrir óafgreiddar. Þá geta menn borið þessar óskir saman við ákvarðanatöku ríkisstj. þegar gjaldskrár fyrir opinbera þjónustu verða þar til umræðu og afgreiðslu. Þá geta menn séð hvaða sjónarmið það eru sem ríkisstj. hefur þegar hún afgreiðir t. d. Hitaveitu Reykjavíkur, Póst og síma, Áburðarverksmiðju ríkisins og Strætisvagna Reykjavíkur. Ég efast ekkert um að þau sjónarmið, sem liggja til grundvallar eða verða forsenda þeirrar ákvarðanatöku sem fór fram í morgun, eru og verða að framfærsluvísitalan 1. maí hækki ekki nema um ákveðna prósentu. Það heyrðist í fjh.- og viðskn. að markmiðið væri vísitöluhækkun um eða aðeins yfir 8%. Það liggur ljóst fyrir samkv. þeim upplýsingum, sem fram komu hjá fjh.- og viðskn. af hálfu hagstofustjóra, að ef náð er því markmiði er það um það bil fjórðungur af þeirri þörf sem þessar stofnanir hafa. Hér er verið að flytja vandann til. Hér er ekki verið að leysa vandann. Hér eru ekki uppi tillögur um það, með hvaða hætti við ætlum að ráðast að verðbólgunni, heldur er hér um að ræða aðferðir til að ná fram einhverri tölu svo að hægt sé að reikna út framfærsluvísitölukostnað fyrri hluta ársins 1981 á ársgrundvelli, svo ekki sé minnst á að flestum þeim hækkunarbeiðnum, sem á þessu skjali eru, verður frestað fram yfir afgreiðslu vísitölunnar og munu því ekki vega þar fyrr en við útreikning framfærsluvísitölu 1. ágúst. Þannig er vandanum áfram skotið á frest. Það hafa þeir gert. Þeir hafa ekki komið sér saman um neitt. Þetta er þeirra eina úrræði, hvernig svo sem að er farið í eitt skipti eða annað.

Hluta verðhækkana er haldið undir yfirborðinu með þeim afleiðingum, eins og ég gat um áðan, að þær skella á með miklum mun meiri þunga ef atvinnuvegirnir á annað borð eiga að lifa. Ef það er hins vegar ætlun ríkisstj. að koma í veg fyrir að þeir lifi er hún að gera rétt. Fyrirtækin hafa barist í bökkum, hafa ekki haft möguleika til að endurskipuleggja rekstur sinn til hagsbóta, það er öllum ljóst, og þau verðlagshöft, sem hér er ætlað að lögfesta, koma ekki til með að bæta þar um.

Þó að gripið sé til þessara óyndisúrræða, áframhaldandi verðlagshafta og endurtaka eigi feluleikinn fyrir 1. ágúst, verður flóðbylgja verðhækkana ekki stöðvuð. Verðlagsspá Þjóðhagsstofnunar er þessi: Hækkun framfærsluvísitölunnar 1. ágúst 9%, hækkun framfærsluvísitölunnar 1. nóv. 11%. Í fyrra spáði sama stofnun 9% hækkun 1. ágúst, og 10% hækkun 1. nóv., og við höfðum mesta verðbólguár árið 1980 sem við höfum haft. Þannig hefur í rauninni ekkert áunnist í viðnámi gegn verðbólgunni þrátt fyrir herta verðstöðvun og 7% kaupskerðingu frá því að núv. ríkisstj. tók við völdum.

Þegar brbl. ríkisstj. frá því á gamlárskvöld voru til afgreiðslu hér á Alþingi gerðu sjálfstæðismenn í nál. og með flutningi brtt. ítarlega grein fyrir sjónarmiðum sínum og tillögum í verðlagsmálum. Þar kom fram með hvaða hætti sjálfstæðismenn legðu til að komist yrði út úr þeirri verðstöðvun, sem lögbundin hefur verið s. l. 10 ár, og atvinnuvegirnir leystir úr þeim þrengingum sem þeir hafa verið settir í af núv. ríkisstj. Jafnframt voru bornar fram tillögur um skattalækkanir svo og lækkanir á vörugjaldi, sem hefðu numið 25 milljörðum gkr., og samdrátt í ríkisútgjöldum á móti sem hefði í för með sér 2% lækkun á framfærslu- og verðbótavísitölu 1. maí.

Þessar tillögur sjálfstæðismanna voru allar felldar. Hins vegar gerði flokksstjórnarfundur framsóknarmanna nokkrar af þessum tillögum að sínum tillögum nú fyrir skömmu. Formaður Framsfl., hæstv. sjútvrh. Steingrímur Hermannsson, taldi þær nú eitt helsta ráðið í baráttunni gegn verðbólgunni og mun hafa lagt þær fram í ríkisstj. án þess að hafa fengið nokkra áheyrn.

Þrátt fyrir óverjandi vinnubrögð, þau sem hér hafa verið viðhöfð af ríkisstj. og ég gerði að umtalsefni í upphafi ræðu minnar, viljum við sjálfstæðismenn gera enn eina tilraun til þess að koma í veg fyrir yfirvofandi stöðvun atvinnuveganna sem stefnir atvinnuöryggi landsmanna í voða. Við flytjum á þskj. 696 brtt. er varða verðlagsmálin, auk þess sem við flytjum brtt. við 4. gr. frv. þar sem sá hluti greinarinnar er numinn brott sem talinn er stangast á við stjórnarskrána.

Við 1. gr. flytjum við brtt. þar sem gert er ráð fyrir að lögunartímabili 1. maí til 1. ágúst sem nauðsynlegum aðdraganda að því markmiði í verðlagsmálum sem stefnt var að með setningu laga nr. 56/1978, um verðlag, samkeppnishömlur og óréttmæta viðskiptahætti, sem sjálfstæðismenn og framsóknarmenn beittu sér fyrir og fengu lögfest.

Þá er í brtt. mörkuð framtíðarstefna í verðlagsmálum.

Er þar lagt til að upphafleg ákvæði 8. og 12. gr. laga nr. 56/1978 taki gildi. Enn fremur er gert ráð fyrir að samþykktir um hámarksálagningu, hámarksverð og aðra framkvæmd verðlagseftirlits, sem í gildi eru 1. ágúst, falli úr gildi eftir 1. des. n. k. nema verðlagsráð hafi tekið afstöðu til þeirra fyrir þann tíma. Eru ákvæði þessa liðar í samræmi við þá framkvæmd verðlagsmála, sem gert var ráð fyrir við setningu nefndra laga, og þannig hafist handa á ný á þeirri braut sem þá var mörkuð.

Við 4. gr. frv. er svo lagt til að niður falli það ákvæði sem talið er vafasamt að standist ákvæði stjórnarskrárinnar.

Við, sem stöndum að þessu nál., erum andvígir 2. gr. frv. og teljum að slík lagasetning sé andstæð þeim grundvallarsjónarmiðum sem liggja að baki þeim réttarfarsaðgerðum sem felast í lögunum um kyrrsetningu og lögbann.

Þá erum við andvígir 5. gr. frv. Við teljum með öllu óverjandi að Alþingi afsali sér ákvörðunarvaldi í stjórn peningamála. Við teljum að 28% af þeirri sparifjáraukningu, sem spáð er 1981, eða um 450 millj. nýkr., muni gera Seðlabankanum fullkomlega kleift að sinna endurkaupalánum eins og þau nú eru, en við erum sammála stjórnendum Seðlabankans um að fremur ætti að minnka endurkaup Seðlabankans og lækka bindingu sparifjár innlánsstofnana á móti.

Við 3. gr., um lækkun vörugjalds á gosdrykkjum, höfum við síður en svo aths., en hún sýnir m. a. það handahóf og stefnuleysi sem er einkennandi fyrir störf núv. ríkisstj.

Um það, sem ekki fékkst upplýst af áformum ríkisstj. um einstaka þætti sem við koma efnahagsmálum og ekki krefjast lagasetningar, getum við að sjálfsögðu ekkert dæmt. Ljóst er þó af því, sem tæpt var á, að ekki hefur orðið samkomulag um neinar ráðstafanir til viðnáms gegn verðbólgu, enda margsannað að núv. ríkisstj. lýtur boðum og bönnum Alþb. sem í raun hefur ekki áhuga á því að ráða niðurlögum verðbólgunnar og tryggja undirstöðuatvinnuvegi þjóðarinnar.