30.04.1981
Neðri deild: 85. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 3855 í B-deild Alþingistíðinda. (3918)

306. mál, verðlagsaðhald

Matthías Bjarnason:

Herra forseti. Þetta frv. til l. um verðlagsaðhald,lækkun vörugjalds og bindiskyldu innlánsstofnana kom fyrir sjónir stjórnarandstöðu s. l. mánudag og lagt er á það ofurkapp að það verði að lögum helst fyrir kl. 24 í kvöld. En lítum nú yfir þessa hv. þd. og lítum á áhuga höfunda þessa frv. á þeim umr. sem hér fara fram. Ráðherrastólarnir hérna eru tíu, en það sést ekki einn einasti ráðh. Þeir hafa verið að smátýnast, eins og negrastrákarnir forðum, en þeir verða aftur tíu þegar farið verður að greiða atkv., eins og negrastrákarnir forðum. Hvar er svo þinglið stjórnarinnar? Það er ekki einn einasti þm. ríkisstj. inni í salnum. (Gripið fram í: Þetta er alls ekki satt.) Ja, það breytist núna. Það var hér enginn þegar ég sagði setninguna. (Gripið fram í.) Nú kemur einn þm. Alþb. í gættina. Þetta er nú virðingin fyrir Alþingi, virðingin fyrir þeim umr. sem hér fara fram um frv. sem ríkisstj. leggur áherslu á að verði afgreitt og það með sérstökum hraða. Er hægt að hugsa sér meiri óvirðingu við Alþingi en stjórnarliðið sýnir nú? Meira að segja forsrh., sem nú loksins er að koma inn eftir rúmlega klukkutíma fjarveru, sá ráðh. sem leggur þetta frv. fyrir þingið, má ekki vera að því að sitja undir þessum umr., nema hann sé orðinn of fínn til að hlusta á ræður stjórnarandstæðinga. Það getur vel verið að hann sé orðinn of fínn til þess. Þetta er nú virðingin fyrir Alþingi og þeim umr. sem hér eiga að fara fram.

Þetta frv. um verðlagsaðhald, eins og það heitir, lækkun vörugjalds og bindiskyldu innlánsstofnana er dæmigert kommúnistafrv., enda ráða þeir ferðinni í þessari ríkisstj. Í 1. gr. þessa frv. segir:

„Miða skal verðlagsákvarðanir við ársfjórðungsleg meginmarkmið í verðlagsmálum sem ríkisstj. ákveður á hverjum tíma.“

Hér er um algert valdaafsal Alþingis að ræða til ríkisstj. Hún á að hafa það algerlega í sinni hendi að stilla upp ákveðnu meginmarkmiði í verðlagsmálum ársfjórðungslega, og leyfi til verðhækkana innan þeirra marka, sem ríkisstj. setur hverju sinni, tekur gildi við samþykkt viðkomandi verðlagsyfirvalda og staðfestingu viðskrh. Sé samþykkt verðlagsyfirvalda umfram hin settu mörk tekur hækkunin ekki gildi fyrr en að fenginni staðfestingu ríkisstj. Að hugsa sér að slíku frv. skuli standa menn sem segjast vera flokksbundnir sjálfstæðismenn — menn sem hafa stutt flokk sem hefur barist fyrir frjálsræði í viðskiptum, frjálsræði í verslun. Nú styðja þeir frv. sem leggur slíkar kvaðir á atvinnureksturinn í landinu sem þarna er gert. Engin vinstri stjórn hefur leyft sér að koma með önnur eins ákvæði og þessi stjórn leyfir sér að gera. Svo langt er nú gengið að höfuðmálgagn núv. hæstv. ríkisstj. skrifar leiðara í dag sem heitir „Snarvitlaust stjórnarfrumvarp.“ Þar segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Nýjasta vísitölufölsunarfrv. ríkisstj. er afleitt. Að meginefni felur það í sér sjónhverfingar og skrípaleik. Og samþykkt þess mun flytja íslenskt þjóðfélag lengra inn í gerviheiminn sem stjórnmálamenn hafa búið til.

Ríkisstj. er aldeilis montin af því að segjast ætla að skera ríkisútgjöldin niður um 31 millj. kr. Við skulum láta það vera þótt hún segi ekki hvaða útgjöld þetta verði. Hitt er verra, að þetta er bara tilfærsla.

Ætlunin er nefnilega að skera niður nokkra liði til þess að geta bætt á einn í staðinn, og sá liður er niðurgreiðsla landbúnaðarafurða. Það þarf óvenjuhortuga stjórnmálamenn til að kalla slíka tilfærslu niðurskurð ríkisútgjalda.

Þessi tilfærsla til niðurgreiðslna landbúnaðarafurða skekkir enn verðhlutföll í landinu sem voru orðin miklu meira en nógu skökk fyrir. Enn einu sinni á í framhjáhlaupi að búa til gervimarkað fyrir umframbirgðir landbúnaðarafurða.

Tilgangurinn er svo einkum sá að falsa vísitöluna. Ætlunin er að koma næstu hækkun framfærsluvísitölu niður fyrir 8% og verðbólgu ársins niður fyrir 40%. En þetta er bara slagur við tölu, ekki við raunveruleika.“

Þetta segir nú aðalmálgagn ríkisstj. um það góða frv. sem forsrh. leggur svona mikla áherslu á að afgreiða hér helst athugunarlítið eða athugunarlaust og umræðulítið eða umræðulaust. En þetta aðalmálgagn ríkisstj. segir enn fremur að ef málið væri skoðað nánar sæist fljótlega að ekkert samband þarf að vera á milli frystingar í Seðlabanka og jafnréttis í lánamálum. Í rauninni er ríkisstj. að auka miðstýringu fjármagns í landinu — og hafi hún skömm fyrir.

Bragð er að þá barnið finnur. Það er nú svo komið. Það vantaði ekki lukkuna 8. febr. 1980 með þá ólukkustjórn sem enn situr. En hún er búin að vera. Þessi stjórn er að færa allt atvinnulíf og allt viðskiptalíf í fjötra miðstýringar ríkisvaldsins og það getur enginn maður, sem með atvinnurekstur fer, um frjálst höfuð strokið. Þetta liggur ljóst fyrir. Þetta vita allir.

Það hefur verið talað um að stjórnarandstaðan hafi ekki viljað bregða fæti fyrir framgang þessa máls. Menn mega ekki misskilja það. Stjórnarandstaðan vill ekki, a. m. k. ekki Sjálfstfl. sem er í stjórnarandstöðu, bregða fæti fyrir að eðlileg afgreiðsla málsins fari fram þar sem meiri hl. ræður úrslitum mála. En það þýðir ekki að Sjálfstfl. vilji styðja þetta frv., nema síður sé. Sjálfstfl. er harður og ákveðinn á móti þessu frv. og lítur svo á að það sé til stórbölvunar og skaða fyrir íslenskt þjóðfélag. Það halda áfram blekkingarnar með verðbólguna, en ekkert lát á verðbólgunni sjálfri. Þess vegna berst Sjálfstfl. gegn þessu frv. Þó að við flytjum brtt. við frv. viljum við með því aðeins freista þess að fá þó eitthvað fært til betri vegar.

Við höfum reynt verðstöðvun í heilan áratug með þeim árangri að verðbólga hefur aldrei verið meiri en á þessum verðstöðvunaráratug. Sjálfstfl. væri reiðubúinn að koma til samstarfs við hæstv. ríkisstj. ef hún ætlaði að berjast við verðbólguna. En hvað er hún að gera með þessu frv. og öðrum aðgerðum sínum? Hún er að minnka hraða verðbólgunnar með því að auka taprekstur fyrirtækja og stofnana í landinu. Að stórauka þennan taprekstur ár eftir ár verður til þess að draga úr atvinnu, draga úr mætti fyrirtækjanna og stofnananna þannig að við siglum inn í atvinnuleysi og erfiðleika sem ég mun koma að betur síðar.

Í 2. gr. þessa frv. segir að þegar aðilar og samtök fari ekki að fyrirmælum réttra verðlagsyfirvalda sé Verðlagsstofnun heimilt að krefjast þess, að fógeti leggi lögbann við byrjuðu eða yfirvofandi broti á fyrirmælunum. Það má segja að þessi ákvæði séu í lögunum um kyrrsetningu og lögbann frá árinu 1949, en þeim hefur aldrei verið beitt þannig að það hafi farið fyrir dómstóla kærur um verðlagsbrot. Dómstólar eru í sjálfu sér seinvirkir. Í þessum orðum felst ekki hjá mér gagnrýni á dómstóla. Þeir hafa takmarkaðan mannafla til að stunda sín störf og sinna sínum skyldum. Ég segi fyrir mitt leyti: Það væri kannske ekki útilokað að fallast á eitthvert slíkt ákvæði um að flýta meðferð mála, en þá verða skylda og réttindi að vera gagnkvæm. Það dugar ekki alltaf að skyldan og réttindin séu hjá stóra bróður, séu hjá ríkinu, en engin réttindi hjá einstaklingnum eða félögunum. Þegar þeir senda sínar rökstuddu beiðnir um hækkanir, sem ekki er hægt að gagnrýna og allir vita að eru oft sannar og réttar, eiga þeir auðvitað að fá afgreiðslu sinna mála og leiðréttingu þeirra. En þá stendur kannske illa í bólið hjá stjórnvöldum. Það er e. t. v. vísitöluútreikningur fram undan. Þá er ekki spurt: Er þessi beiðni sanngjörn, á hún fullan rétt á sér? Nei, þá er sagt: Við ætlum ekki að afgreiða hana því að það kemur illa við okkur pólitískt, verðbólgan vex, vísitalan hækkar. — Og þá er bara lagst á það. Menn hafa verið hreinlega neyddir til að brjóta af sér vegna þeirrar meðferðar sem mál þeirra hafa fengið oft og einatt og langverst eftir að þessi ríkisstj. var mynduð. (Gripið fram í.) Jú, ég sagði það, en langverst eftir að þessi ríkisstj., sem formaður Verkamannasambandsins sáluga veit nú um og þekkir, var mynduð. Það hefur átt að drepa alla bakara, áður nægði að hengja einn. (Gripið fram í: Fyrir smið.) Nei, smiðir fengu aftur skattfríðindi með frádrætti og aðrir uppmælingarmenn nýlega. Það er þetta sem verið er að tala um og það er þetta sem við vorum að reyna að fá stjórnarliðana í fjh.- og viðskn. til þess að hlusta á í gær og breyta þá 1. gr. í manneskjulegra horf.

Ég skal ekkert segja um hver hefur samið þetta frv. Hins vegar minni ég á að þessi ríkisstj. hefur ætlað að hafa náin samráð við allt og alla, alveg eins og vinstri stjórnin sáluga frá 1978, en það hefur bara verið í samstarfssamningi og yfirlýsingu í blöðum. Að öðru leyti hefur þetta samstarf ekki verið fyrir hendi.

Það hefur komið hér fram, að ríkisstj. hefur ekki talið sig þurfa að njóta aðstoðar Seðlabanka Íslands eða Þjóðhagsstofnunar í þessu sambandi. Auðvitað eru engar slíkar kvaðir lagðar á eina ríkisstj., að hún eigi endilega að fara eftir því hvað viðkomandi stofnanir segja. En ég held að því verði ekki neitað, að það hefði litið betur og skemmtilegar út ef ríkisstj. hefði rætt efni 5. gr. frv. við bankastjórn Seðlabanka Íslands, en það gerði hún ekki.

Ég kem þá að 5. gr. þessa frv., að bindiskyldunni. Hvað er það sem gerir að verkum að ríkisstj. sér allt í einu svona gífurlega mikla nauðsyn þess að hækka bindiskylduna? Hvar er þessi spenna í íslensku atvinnulífi núna? Það gætir víða samdráttar, en ekki spennu. Einn flokkur hefur alltaf barist hatrammlega á móti frystingu, Alþb., sem áður hét Sósíalistaflokkurinn og þar áður Kommúnistaflokkurinn og er alltaf að breiða yfir nafn og númer. Nú er hann allt í einu orðinn áfjáður í að hækka bindiskylduna, leggja það alveg í hendur ríkisstj. og Seðlabanka. En ríkisstj. hefur síðasta orðið og það er ekki sett neitt þak á bindiskyldu. Er ekki verið að ráðast hér hatrammlega að viðskiptabönkunum í þjóðfélaginu og að sparisjóðunum? Hvar er nú byggðastefna Framsfl. sem hefur lengi talað um að fara að með gát varðandi bindiskylduna því að óvarlegt væri að flytja svona mikið fé utan af landsbyggðinni í frystihúsið í Seðlabankanum? Ég get ekki ímyndað mér að byggðastefna Framsfl. hafi breyst svona við það, að formaður fjh.- og viðskn. deildarinnar varð formaður bankaráðs Seðlabankans. Formaður bankaráðsins var eini maðurinn sem neitaði að mæta á fundi fjh.- og viðskn. þegar við hann var rætt í gær um það. Eftir að bankastjórnin kom í gærmorgun og sagði álit sitt á efni þessa frv. var ítrekað farið fram á það við formann n. í Nd. að formaður bankaráðs Seðlabankans yrði beðinn að segja álit sitt á efni frv. og hvort hann væri sammála áliti bankastjórnarinnar, en formaður n. harðneitaði að kalla á formann bankaráðs Seðlabankans. Ég veit ekki hvort formaður bankaráðs Seðlabankans hafi verið neitt ófáanlegur til að segja þetta, en formaður n. vildi það alls ekki og reyndi hann þó að greiða fyrir því að sem flestir kæmu á fund n. til að segja álit sitt á þessu frv. Það skiptir kannske ekki sköpum í sjálfu sér þó að álit formanns bankaráðs Seðlabankans liggi ekki fyrir, en mér fannst rétt að þetta kæmi hér fram við umr.

En lítum á þessa bindiskyldu nánar. Hún hefur farið lækkandi á undanförnum árum og er núna 28%, en í reynd er bundið fjármagn viðskiptabankanna 35% af heildarinnlánum þeirra þar sem ríkissjóður og Framkvæmdasjóður fá 7%. En núna á alls ekki að setja neitt þak á. Það eru engin rök færð fyrir þessu. Samtök bankanna eru sammála um að vera algerlega á móti efnisatriði þessarar greinar. Í fyrsta lagi eru samtök bankanna á móti því að fá þessa takmarkalausu heimild, þeir eru í öðru lagi á móti því að mismuna bindiskyldunni á milli innlánsstofnana og í þriðja lagi voru þeir á móti því að tímasetja þessa heimild til svo skamms tíma. Þeir töldu að frekar ætti þó að hafa það til lengra tímabils og lengri og meiri aðlögun. Þeir héldu því fram, að það væri útilokað að hafa hér algerlega opna heimild og lítið öryggi fyrir því fyrir stjórnendur bankanna að vita ekki til hvers yrði gripið á hverjum tíma um mismun bindiskyldunnar á milli innlánsstofnana. Töldu þeir slíkt óframkvæmanlegt með öllu og um það voru allir bankarnir sammála. Hins vegar kom það greinilega fram, að þeir töldu nauðsyn að dreifa skuldbindingum á milli bankanna þannig að skuldbindingar væru ekki eins ójafnar og þær eru núna og hafa verið. Ég fæ því engan veginn séð hvað liggur á bak við það ákvæði að heimila Seðlabankanum að fengnu samþykki ríkisstj. að hækka bindiskyldu. Ég fæ ekki séð hvað er á bak við þetta annað en vantraust á ríkisbankana, á aðra banka og á sparisjóðina í landinu, að talið sé að þeir hafi bruðlað með lánveitingar og nú vilji stóri bróðir, þessir tíu í Stjórnarráðinu, fara að stjórna og taka þetta vald úr höndum þessara manna. Annað liggur ekki fyrir, engar aðrar upplýsingar. En halda þeir, þessir tíu, að þjóðin haldi að þeir séu færari um að dreifa þessum lánum en þessar lánastofnanir allar? Ég er sannfærður um að yfirgnæfandi meiri hluti þjóðarinnar telur að þetta ráðstöfunarfé eigi að vera í höndum stjórnenda bankanna og sparisjóðanna víðs vegar um landið, en ekki í höndum ráðherranna tíu.

Á fundi nefndarinnar í gær voru menn, sem þar komu, spurðir ýmissa spurninga. M. a. spurði ég bankastjóra Seðlabankans að því, hvort þeir teldu að þær hækkanir, sem hafa orðið frá áramótum, og væntanlegar hækkanir muni ekki leiða af sér breytingu á gengi krónunnar. Ríkisstj. ákvað, þegar hún tók við, að stuðla að aðgerðum um stöðugleika í gengismálum. Við þekkjum þennan stöðugleika, hver hann var á síðasta ári og síðustu daga ársins. Það var hraðara gengissig en um langt árabil á undan og hraðast var það þó síðustu dagana fyrir fæðingu brbl. á gamlársdag. Seðlabankastjórarnir sögðu að vitaskuld stæðist ekki efnahagslífið þá verðbólgu sem hér væri þannig að stöðugleiki gæti verið í gengismálum. Hæstv. sjútvrh. sagði hér í ræðu fyrir þremur dögum um annað mál, í umr. um breytingu á lögum um útflutningsgjald sjávarafurða: „Ríkisstj. taldi sér ekki fært að fella gengið eins og nauðsynlegt hefði verið til þess að veita frystingunni lágmarksafkomugrundvöll.“ M. ö. o.: hann hélt því fram að gengisfellingin eða gengissigið fyrir áramót hefði ekki verið nóg til að skapa stærstu grein sjávarútvegsins viðunandi stöðu. Seðlabankastjórarnir voru honum ekki sammála. Aðspurðir á fundi fjh.- og viðskn. í gær töldu þeir að þetta gengissig hefði verið nægilega mikið miðað við rekstrargrundvöll og söluhorfur um síðustu áramót. Hins vegar, eins og ég sagði áðan, sögðu þeir að útilokað væri annað en að breyta genginu við þær breytingar sem verða bæði á rekstrarkostnaði og markaðshorfum.

Við vitum að þrátt fyrir allan orðaleik og þrátt fyrir að reynt er að dylja þjóðina þess, hvað verðbólgan er ógnvekjandi, er í raun og veru lítil breyting til batnaðar frá áramótum. Það eina, sem hefur breyst, er að hraði verðbólgunnar hefur minnkað, en hún hefur verið færð á kostnað atvinnurekstrarins í landinu og hinna ýmsu fyrirtækja og stofnana. Það er verið að fela hana, eins og Dagblaðið segir í leiðara í dag. Hún er flutt inn í fyrirtækin og stofnanirnar þannig að þær eru reknar með stórhalla. Áður í þessum umr. hefur verið minnst á Áburðarverksmiðjuna. Hún selur framleiðsluvöru sína á 75% af kostnaðarverði. Forsrh. fann það út í framsögu fyrir þessu frv. að Áburðarverksmiðjan hefði fengið gífurlega hækkun á árinu 1980. Það er alveg rétt. Og hann bætti því við, að slæm staða Sementsverksmiðjunnar nú væri algerlega því að kenna að sementið hækkaði ekki nóg 1979. Sementsverksmiðjan er rekin með miklum halla og hefur svo verið ár eftir ár. Áburðarverksmiðjan er rekin með halla. 85% hækkunarbeiðni liggur fyrir óafgreidd þar. Póstur og sími bíður eftir hækkunum og einnig Landsvirkjun, rafmagnsveitur ýmsar, hitaveitur og strætisvagnar. Hvernig er svo ástandið í fyrirtækjum í landinu? Við skulum taka stórfyrirtækin, sem við köllum svo á okkar mælikvarða, eins og Flugleiðir, Eimskipafélag Íslands og þá væntanlega önnur skipafélög. Þessi fyrirtæki eru rekin með milljarðahalla. Iðnfyrirtækin í landinu eru rekin með halla. Verslunin stendur mjög höllum fæti. Sjávarútvegi er fleytt áfram með því að éta upp Verðjöfnunarsjóð fiskiðnaðarins eins og hér var rætt fyrir þremur dögum. Allt er þetta á fallanda fæti. Þetta vitum við mætavel. Það er hægt að leika þennan leik einhvern takmarkaðan tíma, en það safnast alltaf aukinn þungi á þessa stíflu þangað til stíflan brestur og þá verður ógnvekjandi hraði á verðbólgunni. Það er feluleikur sem á sér stað. Það er ekki lækning sem verið er að framkvæma, hvorki með þessu frv. né öðrum aðgerðum ríkisstj. í þessum málum. Það þýðir ekkert að stinga alltaf hausnum í sandinn eins og strúturinn. Það er kominn tími til að þessi þjóð fái alvörustjórnmálamenn sem reyna að stjórna landinu, en ekki með þessari aðferð.

Hvert verður framhald þessara mála? Hvað verður um búvöruverðið? Í málefnasamningi eða stjórnarsáttmála núv. hæstv. ríkisstj. segir að verðhækkanir á búvörum fylgi sams konar reglum enda verði niðurgreiðslur ákveðnar sem fast hlutfall af útsöluverði árin 1980 og 1981. — Hvert er þetta fasta hlutfall af búvöruverðinu árið 1981?

Í þessum sama stjórnarsáttmála segir að unnið verði að lækkun vöruverðs, m. a. með eftirtöldum aðgerðum: Að efla samtök neytenda til þessa að þau geti gegnt því mikilvæga verkefni að gera verðlagseftirlit neytendanna sjálfra virkt. — Það væri fróðlegt að fá að vita í hverju þessar aðgerðir hafa verið fólgnar. — Að auka verðlagskynningu af opinberri hálfu. Að haga verðlagsákvæðum þannig að þau hvetji til hagkvæmra innkaupa. — Hvaða breyting hefur verið gerð til þess að hvetja til hagkvæmari innkaupa? — Að greiða fyrir því, að unnt sé að lækka vöruverð með innkaupum í stórum stíl. — Það væri líka fróðlegt að fá að heyra hvað hefur verið gert til þess í það rúma ár sem núv. hæstv. ríkisstj. hefur setið.

Hvað verður með búvöruverð 1. júní? Er það rétt, sem Dagblaðið segir, að það eigi að lækka ýmis ríkisútgjöld, sérstaklega framkvæmdir, til þess að auka niðurgreiðslur á landbúnaðarafurðum. Er það á bak við? Það heldur áfram. Þrátt fyrir að legið er á öllum hækkunarbeiðnum koma launabætur til með að verða 1. júní 8%. Hvað verður þá í framhaldi í sambandi við fiskverð? Heldur það ekki áfram að hækka í líku hlutfalli? Búvöruverðið hækkar á eftir og leikurinn er endurtekinn og engar aðgerðir.

Eina grein þessa frv. get ég samþykkt og greitt atkv. með, en það er 3. gr. Hún er um að vörugjald lækki úr 30% í 17% af öli og gosdrykkjum. Ég var á móti því, að þetta gjald væri sett á. Það var knúið hér í gegn fyrir jólin með eins atkv. meiri hl. hér í þessari hv. deild. Þrír þm. úr stjórnarliðinu hafa flutt sérstakt frv. um að lækka þetta gjald úr 30% í 15%. Hér er farið með það niður í 17%, þó ekki eins langt og þessir hv. þm. hafa lagt til, en það frv. liggur fyrir frá þeim. Ég segi fyrir mitt leyti að ég hefði viljað afnema með öllu þessi lög sem sett voru í des., en ég tel lækkun frá því sem er alla vega til bóta og því er hægt að greiða atkv. með þessari grein þó að við hefðum viljað ganga mun lengra.

Með 4. gr. er verið að fara fram á eina heimildina enn, að heimila ríkisstj. að lækka ríkisútgjöld og þar með talin lögbundin framlög um allt að 31 millj. kr. Þetta er þriðja heimildin af þessu tagi sem ríkisstj. fer fram á að fá. Fyrsta heimildin er í sjálfum fjárlögunum. Önnur heimildin var í brbl. sem Alþingi hefur staðfest, og hún nær einnig til lækkunar á lánsfjárlögunum sem nýlega eru afgreidd. Mér finnst vera komið allnóg af heimildum fyrir ríkisstj. og komið að því að hún ætti að skýra Alþingi frá því hvað hún ætlar að nota og hvernig hún ætlar að nota þessar heimildir. Þetta hefði ég talið að hefði mátt liggja fyrir og upplýsingar hefðu mátt liggja fyrir um. Það sem gerist er að við fáum mjög ónákvæmar tillögur eða drög að niðurskurði í nefndinni í gær, niðurskurði á sjóðum, á framlagi til hinna ýmsu atvinnusjóða o. fl. Á sama tíma og flestir þessara sjóða eru búnir að úthluta að verulegu leyti sínu ráðstöfunarfé er þetta að koma upp á borðið hjá ríkisstj. Ég tel vítavert að láta slíkar tillögur vera að bögglast fyrir mönnum í fjóra mánuði þegar þær koma þessum sjóðum, eða þó sérstaklega þeim sem eru að fá lán úr sjóðunum til framkvæmda, jafnilla og raun ber vitni. Sama er að segja um allar ríkisframkvæmdir. Þegar búið er að hanna þær, þegar komið er að því að það sé farið í framkvæmdir, búið að gera verksamninga, þá á jafnvel að fara að skera þá niður eða þá láta þá eina fara í gegn sem búnir eru að gera verksamninga, en skera aftur aðra enn meira niður. Það veit enginn sitt rjúkandi ráð undir stjórn sem þessari þegar svona vinnubrögð eru viðhöfð. Í fyrsta lagi átti ríkisstj. auðvitað að vera ákveðin í hvað hún ætlaði að miða við í framkvæmdum í ríkisfjármálum á þessu ári, en ekki bíða til aprílloka eða lengur eftir því, hvað hún ætli að gera. Þetta kemur sér víða illa og menn vita almennt ekkert hvað er að gerast. Þetta er í raun og veru ekki stefna, heldur algert stefnuleysi.

Ríkisstj. ætlaði líka að skera niður í fyrra. Hún gerði það með þeim árangri, eins og fram kemur nú í skýrslu fjmrh., að lántökur stjórnvalda á s. l. ári námu 80.3 milljörðum gkr. og þær fóru 4.3 milljörðum gkr. fram úr heimildum lánsfjáráætlunar þess árs. Er þá trúlegt að þessi stjórn hafi þrek til að skera niður framkvæmdir samkv. lánsfjáráætlun frá því sem þær eru nú nýlega ákveðnar?

Hvar sem maður kemur og í hverjum sem maður heyrir er ljóst að menn óttast þessar aðgerðir ríkisstj. í verðlagsmálunum, óttast samdrátt í atvinnulífinu. Skrifstofustjóri stórfyrirtækis hér í Reykjavík, Kassagerðarinnar, segir að það þýði ekkert að svelta fyrirtækin á þennan hátt. Hitaveitustjóri segir: Minni framkvæmdir, lélegri þjónusta. Forstjóri Rafmagnsveitna Reykjavíkur: Það blasir ekkert við nema tilraunir út á óheillabrautina, nýjar lántökur. Framkvæmdastjóri RARIK lýsir yfir að það sé verið að ýta vandanum á undan sér, — sem er satt og rétt. Ríkisfyrirtækin láta ekki sitt eftir liggja. Ég hef ekki minnst áður á Skipaútgerð ríkisins. Þeir segja: Áframhaldandi erfiðleikar ef ekki fást umbeðnar hækkanir. En sá er munurinn á Skipaútgerð ríkisins að hún sækir að lokum sitt til ríkisins, en önnur skipafélög verða að standa á eigin fótum.

Svo komum við líka að innfluttum iðnvörum. Þeir, sem framleiða slíkar vörur erlendis, fá auðvitað fyrir sína vöru eins og hún kostar. Hún er flutt hingað inn í landið og þessir aðilar fá því hækkanir sem verða í því heimalandi, en framleiðslan hér innanlands verður aftur á móti að sæta afarkostum samkv. þessu frv. Það fer eftir duttlungum ríkisstj. hvort hækkunarbeiðnir eru innan þeirra marka sem ríkisstj. setur. Það verður huggulegt ef íslenskur iðnaður þarf að flytjast til Færeyja og flytja inn varninginn þaðan eða enn lengra með þessu ráðslagi. Það er ekki verið að treysta stoðir iðnaðar eða stoðir atvinnurekstrar almennt í landinu með því að fara inn á þær brautir sem þessi ríkisstj. er að fara á þessum sviðum sem öllum öðrum.

Mikið er talað um það af þeim sem segjast vera hrifnir af þessari ríkisstj., hvað aukning sé mikil á innlánsfé í bönkum. En þegar talað er um þá aukningu er aldrei um leið gerður samanburður á þeirri aukningu, sem verður vegna hækkunar vaxta á milli ára, og ekki heldur talað í leiðinni um samdráttinn sem er í kaupum á verðtryggðum skuldabréfum ríkissjóðs. Ég óskaði á fundi fjh.- og viðskn. í gær að fá upplýsingar um þetta frá Seðlabankanum. Því var tekið mjög vel að senda þessar upplýsingar, en þær eru ekki komnar enn. Ég held að það verði ekki hjá því komist að spyrja ríkisstj.: Hvað er það sem er fram undan núna í verðlagsmálum? Hvaða hækkanir er verið að leyfa og með hvaða hætti? Ég held að það sé full ástæða til þess að Alþingi fái slíka skýrslu og þá jafnframt um hækkanir til einstaklinga og félaga og þá ekki síður um hækkanir vegna opinberra aðila sem ég gerði áður að umtalsefni. Það er ekkert feimnismál að láta í sér heyra og segja frá þessu — segja hvað fram undan er — og vera ekkert að fela það sem er verið að gera því að þetta kemur allt í dagsljósið.

Enn fremur langar mig að nefna hér eitt mál enn sem ekki hefur borið á góma í þessum umr., en það er: Hverjar eru væntanlegar hækkanir á olíu? Nú hafa olíufélögin orðið að bíða með að fá afgreiðslu á sínum hækkunarbeiðnum. Hverjar verða þær hækkanir? Og hvað verður með bensínið? Á að hækka bensínið, eins og maður er að frétta, bæði vegna hækkunar erlendis og hækkunar á dreifingarkostnaði? Hvað verður sú hækkun mikil, og ætlar ríkisstj. enn að halda sig við þá stefnu, að eftir því sem bensínið hækkar meira á erlendum mörkuðum taki ríkissjóður alltaf hlutfallslega sinn þátt í þessum kostnaði af öllum almenningi sem bensín kaupir? Ætlar ríkisstj. að halda áfram að græða á því óheillaástandi sem nú er á bensínmörkuðum og bensínverði? Ætlar hún sér að gera sér þessi atvik sífellt að féþúfu? Það væri fróðlegt að ráðherrar gæfu þessar yfirlýsingar. En það er erfitt að tala við þessa ráðh., hæstv. forseti. (Forseti: Hér er einn.) Það kemur einn þarna. Það er vonandi að hann fái málið og segi eitthvað. Það er nú ekki beint að ykkar sé svo sárt saknað, heldur hitt, að þegar verið er að ræða stjórnarfrumvörp verður að gera ráð fyrir að þið hafið tíma til að hlusta á umr. og svara því sem um er spurt. Þó að þetta mál heyri kannske ekki allra helst undir dómsmrh., ég skal viðurkenna það, er hann nú í þeirri syndugu fjölskyldu sem kölluð er ríkisstjórn.

Það er sjáanlegt á öllu, eins og ég sagði í upphafi þessa máls, að það eru kommúnistar sem ráða ferðinni í ríkisstj. og það eru þeir sem segja þar fyrir verkum. Það eina, sem ég skil ekki og er ekki í samræmi við það sem þeir hafa alltaf haldið fram áður, þeir hafa verið á móti hækkun bindiskyldu, er af hverju hún er hækkuð og ekkert þak sett á hana, hvort það sé þá af þeirri ástæðu einni að þeir vilji fá vald til að hefta þannig lánsmöguleika viðskiptabanka og sparisjóða í landinu svo að þeir hafi ráð allra fyrirtækja í hendi sér. Það er eina skýringin sem ég sé á þessum áhuga kommúnista á að hækka bindiskylduna eftir öll stóru orðin. (Félmrh.: Það gætu verið fleiri.) Já, en þá er vandlega þagað yfir því. Ekki er það spennan á vinnumarkaðinum núna, því að það dregur úr henni, það ætti hæstv. félmrh, að vita, svo að ekki er ástæða til þess þess vegna. Það hafa engin rök komið, hvorki í framsöguræðu forsrh. né fyrir nefnd í gær, sem hafa verið með þeim hætti að bankarnir, ríkisbankar, einkabankar eða sparisjóðir, hafi verið útausandi á lánsfé. Og það er heldur enginn leikur fyrir menn að taka lánsfé með þeim kjörum sem nú eru orðin. Menn gera það ekki nema þeir megi til og að mörgu leyti minnkar nú eftirspurnin eftir lánsfé, bæði af þeim ástæðum og líka þeirri og þeirri helst, að það er víða samdráttur í atvinnulífi. Ég spyr: Hvernig í ósköpunum halda menn að með því að taka upp slíka reglu, slíka viðmiðun, sem þeir kalla svo verðstöðvun, verði hægt að styrkja stoðir atvinnulífsins? Þarna er fyrst og fremst verið að styrkja allt sem er innflutt, en draga úr því sem verið er að vinna hér heima í landinu.

Ég skil vel að það eru skiptar skoðanir um hvort það eigi að vera verðlagshöft eða ekki. Ég er þeirrar skoðunar að það eigi að leggja þau niður. Það má mikið spara og hin frjálsa samkeppni er auðvitað langöruggasti hemillinn á að verðlag fari upp úr öllu valdi. Þar verða þeir ofan á sem eru með hagstæðasta reksturinn og mestu fyrirhyggjuna. Ég skil kommúnista í þessu sambandi, en ég skil ekki sjálfstæðismenn, sem standa að þessu frv., sem eru að fara hér alveg í herfjötra kommúnista. Ég hef aldrei vitað til þess að það væri ágreiningur milli þeirra þriggja sjálfstæðismanna, sem sitja í ríkisstj., og okkar hinna í þessum efnum. Ég hef aldrei vitað til annars en að þeir væru sömu skoðunar og við í þessum málum og við höfum markvisst unnið að framgangi þessara mála. Í stjórnarsamstarfi, sem Sjálfstfl. hefur verið í fram til þessa, hefur aldrei verið ýjað að því að fara út á þvílíka braut sem lagt er til í 1. gr. þessa frv. Mér þætti gaman að heyra frá einhverjum þeirra hvað veldur þessari breytingu og hvernig á því stendur að þeir fara svona þvert á fyrri skoðanir sínar í þessum efnum. (Gripið fram í: Ráð frá Árna Helgasyni.) Ja, mér þykir karl vera orðinn valdamikill ef satt er.

Ég sé að nú hlæja innilega tveir höfuðpaurar kommúnista á Íslandi. Það er von að þeim sé hlátur í huga. Það dillar í körlum! Þeir ráða öllu og þeir eru afskaplega glaðir með það að vera allsráðandi. Þetta er eina landið í hinum vestræna heimi þar sem kommúnistar hafa hreiðrað jafnvel um sig og hér. Þeir hafa þó aldrei náð í meira en að kroppa í 20% af fylgi þjóðarinnar í frjálsum kosningum, en þeir hafa meira en 50% vald í þessu þjóðfélagi, bæði í ríkisstj., í Reykjavíkurborg, verkalýðshreyfingunni og ég tala nú ekki um í fræðslu- og menntamálum. Þar eru þeir sennilega með 99%. Það er engin furða þó að karlar séu nú brosleitir 30. apríl. Það á að vera hægt að minnast þessa vel á morgun. Það fer að vísu lítið fyrir verkalýðsleiðtogunum nú á þessum síðustu og verstu tímum, en það verður reynt að klæða sig í gallabuxur á morgun og vera alþýðlegir, a. m. k. 1. maí hluta úr deginum. Svo er hægt að halda áfram að spila valdsmanninn þegar það er búið. En sárast af öllu er að menn, sem eru andstæðingar kommúnista, skuli láta hafa sig til þess að koma fram óþurftarmálum og hættulegum málum fyrir atvinnureksturinn í landinu eins og þetta frv. er.

Ég er ekki sammála því, að við eigum að greiða fyrir þessu frv. Við eigum að berjast gegn þessu frv. og við eigum, þegar þetta frv. kemur til framkvæmda, að fylgjast mjög vel með og láta þessa menn hafa verulegt aðhald. Það á ekki að leyfa þeim að haga sér eins og hver vill. Þeir geta hrópað á fógeta hverju sinni til þess að stöðva atvinnureksturinn þegar menn hafa beðið mánuðum saman eftir afgreiðslu sinna mála. Ég er ekki að hvetja neinn til lögbrota, síður en svo. Menn eiga að fara eftir settum lögum og reglum. En lög og reglur eiga líka að vera sanngjörn og meðferð þeirra á líka að vera sanngjörn. Það er krafan sem ég geri og yfirleitt allir í þessu landi.

Framsfl., sem er nú stærsti aðilinn atkvæðalega séð að þessari ríkisstj., virðist alveg vera gufaður upp. Hann er orðinn eins og undin tuska í höndum kommúnista. Og þó að þeir segi þetta í dag og þetta ætli þeir að gera og standa á eru þeir gersamlega teknir og undnir af höfuðpaurum kommúnista. (Gripið fram í: Það er sett lögbann á þá. — HBl: Þeir eru eins og Tómas á teppinu.) Ja, sumir eru meira að segja orðnir teppislausir. Það er orðin ömurleg ganga Framsfl. Það er aðeins einn framsóknarmaður sem stendur upp úr, það er Ólafur Jóhannesson — aðeins einn. Hinir eru alveg í þessum sterku greipum forustumanna kommúnista. Svona er nú ástandið í þessu landi okkar 30. apríl 1981. Það er ekki furða þó að hugsandi menn í þessu þjóðfélagi séu farnir að óttast áhrifin og hvernig ágætir menn eru herleiddir núna. Það er nauðsynlegt að fara að reyna að hjálpa þessum mönnum, ef það er þá hægt.