10.11.1980
Efri deild: 10. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 566 í B-deild Alþingistíðinda. (392)

33. mál, málefni Flugleiða hf.

Frsm. minni hl. (Kjartan Jóhannsson):

Herra forseti. Hæstv. samgrh. lýsti því yfir, að það væri ekki meiningin að toga eða teygja eða breyta þessum skilyrðum nema á þyrfti að halda. Það var efnislega sú aths. sem ráðh. gerði við málflutning minn áðan. Og mér er alveg sama þó að hann komi orðum að því með þessum hætti, vegna þess að í huga mínum þýðir þetta nákvæmlega það sama og ég hef haldið fram allan tímann, nefnilega að það sé ekki verið að setja þessi skilyrði í alvöru, það sé meiningin að breyta þeim í framkvæmd — eins og það heitir svo ágætlega í áliti meiri hl. n. — eftir því sem hentar, eða eins og ráðh. orðaði það: ef þörf krefur. Og það er þetta valdaframsal sem ég tel að sé rangt. Auðvitað geta menn talað um þetta sem blæbrigðamun eins og hv. þm. Vesturl. gerði áðan. En það er bara langtum, langtum meira. Það er spurningin um það að komast út úr óvissuástandi og inn í það, að menn viti nákvæmlega að hverju þeir ganga. Þetta er spurningin um það, að deildin gangi frá þessu máli, að Alþingi gangi frá þessu máli á skýran og einhlítan hátt.

Um annan málflutning ráðh. hef ég harla lítið að segja. Það stendur sem ég sagði hér áðan, að sá samanburður, sem olli hér óróleika um daginn, var greinilega byggður á misskilningi. Auðvitað getur slíkt alltaf komið fyrir, en mér finnst bara að það hafi komið allt of oft fyrir í þessu Flugleiðamáli, að upp hafi komið einhver misskilningur. Og það er einmitt til þess að girða fyrir frekari misskilning sem ég hef talað fyrir því, að deildin gengi skýrt og á einhlítan hátt frá þessu máli og með þeim hætti sem hæfir virðingu Alþingis. Og það er líka með tilliti til þessa og þess samskiptavanda, sem hefur verið uppi, sem ég hef talað sérstaklega fyrir því að leitað yrði eftir óháðum aðila, sem allir gætu borið traust til, til þess að vera hér tengiliður og til þess að vera ríkisstj. til ráðgjafar. Hann gæti þá, ef hæstv. ráðh. tangar til að skipa nefnd í þetta, verið annaðhvort starfsmaður nefndarinnar eða ráðgjafi hennar líka.

Ég ætla ekki að fara neinum orðum um þann farsa sem hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson samdi hér áðan. Hann heldur greinilega að hann sé að kenna félagsfræði uppi í Háskóla, búa til próf og þar fram eftir götunum. En farsar af þessu tagi hafa ekkert með efnisatriði að gera, hafa ekkert með þetta mál að gera og hafa ekkert með mig að gera.