30.04.1981
Neðri deild: 85. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 3871 í B-deild Alþingistíðinda. (3922)

306. mál, verðlagsaðhald

Árni Gunnarsson:

Herra forseti. Þetta er í annað skiptið sem forseti þessarar virðulegu deildar áminnir menn um að vera stuttorða áður en ég kem í ræðustól og þykir mér það heldur lakara. (Forseti: Það er ekki maklegt, það er að vísu rétt, en ég mátti til með að koma þessu að strax.) Mér þótti vænt um að heyra þetta frá hæstv. forseta vegna þess að ég flyt venjulega ekki langar ræður, enda mun ég standa við það heit Alþfl. að þvælast ekki fyrir þessu máli eða framgangi frv. né tefja það á nokkurn hátt. Ég hafði lagt þann skilning í orð þeirra hv. sjálfstæðismanna sem hér hafa talað, að þeir ætluðu ekki heldur að tefja fyrir þessu máli. Auðvitað vænti ég að svo verði. Hins vegar vil ég ekki láta þetta tækifæri ónotað til þess að ítreka það sjónarmið mitt og fjölmargra annarra, sem um efnahagsmál fjalla og fylgst hafa með störfum hæstv. núv. ríkisstj., að hér er á ferðinni ein kuklaðferðin í viðbót, eitt „kraflið“, ein vandræðaaðgerðin sem þessi ríkisstj. hefur ávallt verið að bera á borð fyrir þingið og landsmenn.

Það er öllum minnistætt hvernig þessi hæstv. ríkisstj. hélt á málum daginn fyrir 1. maí í fyrra þegar álögur voru lagðar á launafólk í landinu. Það var afmælisgjöf til verkalýðsins, og önnur afmælisgjöf er á leiðinni: vísitölufölsun fyrir 1. maí. Það er afmælisgjöf þessarar ríkisstj. til verkalýðshreyfingarinnar daginn fyrir 1. maí. Í hverju er þessi fölsun fólgin? Hún er fólgin í því, að hinn geymdi vandi, sem oft hefur verið nefndur þegar minnihlutaríkisstj. Alþfl. hefur borist í tal, er geymdur fram yfir 1. maí.

Það er staðreynd, sem ekki verður horft fram hjá, að allt tal núv. hæstv. ríkisstj. um heildstæða stefnu í efnahagsmálum er reykur einn. Stefnan er ekki fyrir hendi, og ef hún er einhver er hún fólgin í bráðabirgðaaðgerðum frá degi til dags, frá viku til viku og mánuði til mánaðar. Þetta er mjög alvarlegt og þetta er miklu alvarlegra mál en að það taki því í raun og veru að eyða tímanum í umræðu um það frv. sem hér liggur fyrir. Það er verið að gabba launafólk í landinu og það er verið að falsa vísitölu í landinu. Það er verið að reyna að telja fólkinu, alþýðu þessa lands, trú um að það sé verið að vinna að einhverjum jákvæðum aðgerðum í efnahagsmálum. Þetta er rangt. Það er verið að skrökva að þjóðinni. Þetta hefur verið gert aftur og aftur. Hin svokallaða niðurtalningarstefna Framsfl. er orðin hlægileg. Og við skulum minnast þess, að hæstv. núv. ríkisstj. tók við völdum þegar verðstöðvun var í gildi. Hæstv. ríkisstj. ítrekaði þessa verðstöðvun á gamlársdag s. l. Nú heitir hún bara annað, en það er í þriðja sinn að þetta mál er tekið upp á svipuðum vettvangi.

Ég vil, með leyfi forseta, fá að geta orða tveggja stuðningsmanna núv. hæstv. ríkisstj. sem kannske af tilviljun eru í síðdegisblöðunum í dag. Og þá vil ég, með leyfi forseta, fá að lesa úr leiðara Jónasar Kristjánssonar ritstjóra Dagblaðsins sem hefur verið kunnur að öðru en því að vera á móti núv. hæstv. ríkisstj. Hann segir:

„Nýjasta vísitölufölsunarfrv. ríkisstj. er afleitt. Að meginefni felur það í sér sjónhverfingar og skrípaleik.“ Á öðrum stað segir hann, með leyfi forseta: „Tilgangurinn er svo einkum sá að falsa vísitöluna.

Ætlunin er að koma næstu hækkun framfærsluvísitölu niður fyrir 8% og verðbólgu ársins niður fyrir 40%. En þetta er bara slagur við tölur, ekki við raunveruleika.“

Auðvitað er það rétt sem maðurinn er að segja. Þetta er ekki slagur við tölur. Þetta er leikur með tölur. Og hvað á að gera síðar á þessu ári við þann uppsafnaða vanda sem þá verður fyrir hendi, þegar ekki verður hægt að komast fram hjá áramótum, þegar ekki verður hægt að fara á svig við áramót, en vandinn liggur allur fyrir og við áramót verður að fara fram uppgjör?

Ég vil líka minna á orð skynsams manns sem ég held að sé eða hafi verið bæjarfulltrúi Framsfl. í Kópavogi. Hann ritar grein í síðdegisblað í dag. Og hann segir, með leyfi forseta:

„Enn einar efnahagsráðstafnanir íslenskrar ríkisstjórnar hafa nú litið dagsins ljós, að hluta a. m. k. Einhverjar slíkar aðgerðir eru yfirleitt birtar landsmönnum á þriggja mánaða fresti nú síðari árin. Því miður eiga þær það oftast nær sameiginlegt, að þeim er aðeins ætlað að gilda fáar vikur á meðan fróðir menn reikna út verðbætur á laun. Þegar því er lokið anda landsfeður léttar og undirbúa næstu lotu og þannig koll af kolli.“

Á sama tíma og þessir menn komast svo að orði eru viðtöl við nokkra verkalýðsleiðtoga sem tengdir eru m. a. Framsfl. og Alþb. Þar segir m. a. formaður BSRB: „Það hallar undan fæti í kjaramálum.“ — Formaður Verslunarmannafélagsins, sem að vísu er sjálfstæðismaður, segir: „Kaupmáttur er nú lakari en 1978. Þær aðgerðir, sem nú er stefnt að, munu ekki bæta þessa stöðu.“ Samt sem áður greiðir formaður Verkamannasambands Íslands, Guðmundur J. Guðmundsson, þessum aðgerðum atkvæði sitt. Hann á alla mína samúð. En hræddur er ég um að hann sé ekki búinn að bíta úr nálinni með aðild sína að þessari ríkisstj.

Ég held ég verði að orða það svo, að innan núv. hæstv. ríkisstj. sé ekki samstaða um efnahagsaðgerðir til langs tíma. Ég held að það sé aðeins samstaða um eitt innan hæstv. ríkisstj.: um að hanga saman. Þetta held ég að sé staðreynd málsins. Það er nokkuð, ef það gæfi árangur. Ég held að það hljóti einnig að vera öllum ljóst sem hafa einhver samskipti við fólkið í þessu landi — fólkið sem vinnur í þeim atvinnugreinum sem skapa undirstöðuna undir þá hagsæld sem við höfum fengið að njóta á undanförnum árum. Ég held að það væri ágætt fyrir þá heiðursmenn, a. m. k. hv. þm. í Alþb., sem hafa haft hátt um þessi mál hér á þingi og hvernig stjórnarandstaðan hafi reynt að koma í veg fyrir hitt og þetta, að ræða við þetta fólk og athuga hvernig afkoma hins almenna launamanns í landinu er, hvernig Iðjufólkinu, Sóknarkonunum o. fl. gengur að ná endum saman þessa dagana.

Ég vil líka með þessum orðum mínum beina þeirri alvarlegu viðvörun til hæstv. ríkisstj. að huga betur en hún hefur gert að þeim blikum sem nú eru á lofti í atvinnumálum þjóðarinnar. Sjálfur er ég hræddur um að hér verði komið umtalsvert atvinnuleysi þegar kemur fram yfir mitt þetta ár. Það eru auðvitað þessi mál, sem ekki bara ríkisstj., heldur þingið allt á að vinna að. En það verður þá að standa þannig að málum að stjórnarandstaðan geti tekið þátt í því sem gera þarf. En hvernig staðið hefur verið að framlagningu þessa frv. gefur ekki beint tilefni til þess.

Nei, herra forseti, ég held að það sé fullkomlega ástæðulaust að eyða mörgum orðum um þetta frv. Þingflokkur Alþfl. komst að þeirri niðurstöðu, að það væri best að láta það afskiptalaust, það yrði ríkisstjórnarinnar að svara fyrir þær verðlagshækkanir sem nú fylgdu í kjölfar nánast þriðja verðstöðvunarfrv. eða verðstöðvunartilraunarinnar sem þessi ríkisstj. á aðild að. Ég er hræddur um að það sé eftir að leysa margan vandann á næstu vikum og mánuðum. Ég ætla ekki að rekja þau atriði sem þar munu koma við sögu. Það er eftir að taka á vanda landbúnaðarins, verðlagningu landbúnaðarafurða. Það er eftir að fjalla um fiskverð og ýmisleg mál af því tagi sem eiga eftir að gera vandann enn meiri.

En að lokum þetta til þess að tefja ekki þessa umræðu: Ég hef verið og er þeirrar skoðunar, að sé það ætlan ríkisstj. á hverjum tíma að ná árangri í efnahagsmálum. Sérstaklega beri henni, þegar eins erfitt er og nú er hér á landi, að hafa um það samstöðu við stjórnarandstöðuna hverju sinni, ekki samstöðu eins og nú hefur verið staðið að: að krefjast þess með sáralitlum fyrirvara að þessi mál verði afgreidd. Stjórnarandstaðan bauð fyrir páska að stytta páskaleyfið ef það mætti verða til þess að fleyta fram hér á þinginu fleiri málum, en á því var ekki áhugi og harma ég það mjög vegna þess að þann tíma hefði mátt nota til að undirbúa þetta mál betur.