30.04.1981
Neðri deild: 85. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 3874 í B-deild Alþingistíðinda. (3924)

306. mál, verðlagsaðhald

Halldór Blöndal:

Herra forseti. Ég skildi orð hæstv. forseta svo, að hann mæltist til að menn legðu sig fram um að tala ekki lengur en efni stæðu til, og er rétt að reyna að verða við því, en vitaskuld tekur allt sinn tíma og allt hefur sinn tíma.

Ég tók eftir því hjá ýmsum af talsmönnum Alþfl., að þeir leggja á það mikla áherslu að þeir vilja ekki tefja þetta mál. Síðasti ræðumaður, hv. 6. þm. Norðurl. e., sagði í ræðu sinni: Það er verið að gabba launafólk og falsa vísitölu. — Og honum finnst ómögulegt að tefja að þetta nái fram að ganga. Það má ekki tefja það að fólkið sé gabbað og vísitalan fölsuð. Og hann sagði: Það er verið að skrökva að þjóðinni. — Það má ekki heldur tefja fyrir því. Hann komst líka svo að orði, með leyfi hæstv. forseta: Það verður að standa þannig að málum að stjórnarandstaðan geti tekið þátt í því sem gera þarf. — Í þessum ummælum felst áfellisdómur hans um þá málsmeðferð sem hér er viðhöfð. Og það er rétt sem hann sagði: Alþingi er kallað saman til að vinna. Ríkisstj. var í lófa lagið að kalla Alþingi saman í páskaviku. Ef nauðsynlegt var að þetta frv. næði fram að ganga fyrir 1. maí bar ríkisstj. að kalla þing saman þegar eftir páska, leggja þetta frv. fram til þess að stjórnarandstaðan gæti kynnt sér málið, gert nauðsynlegar athuganir á því, sem ríkisstj. hyggst gera, og metið stöðuna. Það var jafnframt nauðsynlegt til þess að hægt væri að fara eftir beinum lagafyrirmælum um hvernig haga skuli samráði við aðila vinnumarkaðarins.

Það var nauðsynlegt að kalla þingið saman þegar eftir páska ef við hugsum okkur að Alþingi sé eitthvað annað en afgreiðslustofnun og ef við hugsum okkur líka að bein lagafyrirmæli um samskipti stjórnvalda við einstaka aðila í þjóðfélaginu séu eitthvað annað og meira en tómt pappírsplagg. Ég vil í þessu sambandi enn einu sinni minna á að þegar Eysteinn Jónsson, sá gamalreyndi stjórnmálamaður, var kallaður fyrir í sjónvarpinu og hann var spurður um hversu hann vildi breyta stjórnarskránni fór hann ekki mörgum orðum um einstök orð sem þar stæðu né einstakar greinar, en hann talaði um nauðsyn þess, að það væri festa í þjóðfélaginu. Hann talaði um nauðsyn þess, að stjórnmálaflokkar sýndu ábyrgð og að störfin á Alþingi væru í einhverju samræmi við þau fyrirheit, sem gefin hefðu verið fyrir kosningar, og að þeir menn, sem á Alþingi sætu, væru þangað komnir til þess að sýna kjósendum sínum fullan trúnað, vinna samkvæmt samvisku sinni, án hrepparígs, án klíkustarfsemi, án tillits til eigin persónu.

Alþingi er að sjálfsögðu hyrningarsteinn þess þjóðfélags sem við lifum í. Ég ætla ekki að segja í þessum ræðustól að það sé það versta að sýna þeim mönnum, sem að þessu sinni sitja hér inni, óvirðingu. Það er ekki það sem skiptir máli. Það, sem skiptir máli, er það, að ef þessi stofnun sem slík er óvirt er verið að svívirða þá hugsjón sem við Íslendingar viljum lifa og starfa fyrir, þá hugsjón sem var á bak við lýðveldisstofnunina 1944, þá drauma sem gerðu fullveldið að veruleika 1918, þá miklu sigurvissu og sjálfstæðishvöt sem færði okkur heimastjórnina í byrjun aldarinnar. — Ég er ekki undrandi þótt hæstv. forsrh. gangi út þegar talað er um ræktarsemi við þær hugsjónir sem gerðu þingræði og lýðveldi á Íslandi að veruleika, eins og að þessum málum er staðið. En ég er undrandi á einu: að á Alþingi skuli finnast menn, fleiri en einn, sem biðjast afsökunar á því, að þeir skuli taka til máls þegar er verið að ræða um frv. sem þeir telja að sé þjóðinni til óþurftar, sem þeir telja að sé launafólki landsins til skaða. Við þvílíkar kringumstæður ættu ræður þeirra að vera fleiri og umfram allt innihaldsríkari en þær hafa verið, því það er síður en svo að það séu nein gamanmál á ferðinni hér í dag. Það er m. a. verið að reyna að knýja það fram, að í flýti sé samþykkt lagafrv. sem einn af virtustu lögmönnum landsins, einn af virtustu prófessorum landsins, Jónatan Þórmundsson, telur að brjóti í bága við stjórnarskrá landsins.

Ég vildi ætla að hæstv. forsrh., sem átti sæti í annarri af þeim nefndum, sem fjölluðu um þetta mál, og hlýddi á rök Jónatans Þórmundssonar frá orði til orðs í þeirri nefnd og hafði þar tækifæri til að gera sínar aths., sýndi fræðimannsheiðri sínum þann sóma að skýra frá því hér í Alþingi, hver rök hans eru í því máli, að þar sem fjallað er um lögbundin framlög í 4. gr. þessa frv. sé ekki brotið á móti stjórnarskrá landsins. Ég geri mér grein fyrir því, að það, sem ég fer fram á nú, er að hæstv. forsrh. leggi fram efnisatriði í þær umr. sem hér fara fram, hann leggi á borðið eitthvað sem hald sé í með skírskotun til menntunar hans og starfs. Ég beini því til hans, — því ég veit hann má orð mín heyra þó hann sé ekki hér inni, víða eru hátalarar í þessu húsi, — að hann sýni þó a. m. k. fólkinu í landinu þá virðingu að gera grein fyrir því, á hvaða rökum hann telur að þetta sérstaka ákvæði 4. gr. frv. brjóti ekki í bága við stjórnarskrána.

Herra forseti. Það er eftirtektarvert að ýmsir stjórnmálamenn reyna nú hina síðustu daga að drepa málum á dreif, draga athyglina frá þeim efniskjarna sem um er fjallað á Alþingi. Einn liðurinn í þá átt er að reyna að beina umr. frá því frv., sem hér liggur fyrir, og ræða um annað en innihald þess. Gott dæmi um þetta er í Dagblaðinu í dag — baksíðu þess. Þetta er mikið trúnaðarmálgagn manna í æðstu stöðum og ef mikið þykir við þurfa er um beint símasamband þar á milli að ræða, blaðamaðurinn þarf ekki að gera annað en krota það sem sagt er og setja svo stafina sína undir í flýti. — Í þessari grein í Dagblaðinu í dag er komist svo að orði, með leyfi hæstv. forseta, um heimsókn lagaprófessorsins Jónatans Þórmundssonar til fjh.- og viðskn. Alþingis í gær:

„Þar var hann beint spurður að því, hvort hann væri sömu skoðunar og Geir Hallgrímsson, að lögbannsaðgerðir í verðlagsmálum, sem kveðið er á í frv., mundu leiða þjóðfélagið inn á braut lögregluríkis.

„Nei, því fer fjarri,“ svaraði lagaprófessorinn afdráttarlaust að sögn heimildarmanns Dagblaðsins.“ Af einhverjum ástæðum minnist þessi heimildarmaður Dagblaðsins ekki á þau orðaskipti sem fóru fram milli lagaprófessorsins og hæstv. forsrh. Má vera að skýringin á því sé sú, að heimildarmaðurinn hafi e. t. v. verið skyldari hæstv. forsrh. en maður gæti haldið í fljótu bragði, jafnvel jafnskyldur forsrh. og stjórnarformaður Seðlabankans er skyldur formanni fjh.- og viðskn. Nd. Ég hafði gaman af því, þegar ég las niðurlag þessarar fréttar, að klausan skyldi vera á þessa lund, með leyfi hæstv. forseta, því þetta snertir það mál sem hér er um fjallað beint:

„Stjórnarflokkarnir kvarta undan að lítill agi sé nú í þingflokki Sjálfstfl., stjórnendur þingflokksins fallist á samkomulag um afgreiðslu mála, en síðan virði aðrir þingflokksmenn Sjálfstfl. ekki gerðan samning stjórnenda þingflokksins.“

Svo mörg voru þau orð. Ósköp er nú mikill kvörtunartónn í þessu. En það verð ég að segja, að hæstv, forsrh. þarf ekki undan því að kvarta, að hann hafi ekki komið hnappheldu á þann litla hluta af Sjálfstfl. sem honum fylgir, hæstv. landbrh., hæstv. dómsmrh. og stórbóndann á Bergþórshvoli. (Gripið fram í: Og Árna Helgason.) Og Árna Helgason, ég tala nú ekki um það. Þar er nú hver taglhnýtingurinn á fætur öðrum og léttir í taumi. Það þarf ekki að hafa fyrir því á þeim bæ að eyða löngum tíma í að samræma sjónarmiðin. Það er víst nóg um það og víst um það. Nú liggur satt að segja við að ég sakni þeirra tíma þegar það var sterk stjórn á þingflokki Sjálfstfl. og við stóðum allir saman um að reyna einhvern veginn að koma okkar hugsjónum fram — þessir sem kosnir voru á þing fyrir Sjálfstfl. Við vorum fleiri um það þá. Við erum orðnir 17–18 núna. Við vorum aldrei færri en 20 þá sem vildum ýta hugsjónum Sjálfstfl. svolítið áfram hér í þinginu.

Það er skemmtileg tilhugsun hvort það verður sett lögbann á stjórnarráðið næst þegar sementið verður hækkað, því allt verður það auðvitað ólöglegt eins og síðast. Hvað halda menn í alvöru um það þjóðfélag þegar Alþingi er að gefa ákveðinni stofnun heimild til að krefjast lögbanns við verðhækkunum sem jafnvel eru reistar á þeim grunni að sýnilegt er að framleiðandi vörunnar gengur á eigur sínar ef hann hækkar ekki verðið? Þegar lög um verðlag, samkeppnishömlur og óréttmæta viðskiptahætti voru sett 11. maí 1978 hljóðaði 12. gr. svo, — ég verð að endurtaka það nú vegna þess að hæstv. forsrh. var fjarri þegar ég minntist á þetta við 1. umr. málsins, en eins og fram hefur komið og jafnvel utan dagskrár er hæstv. forsrh. óðfús að svara fsp. mínum hvenær sem færi gefst. Þó klukkan sé orðin sex vona ég að hæstv. forseti mundi nú leyfa honum að svara ef hann kveddi sér hljóðs. Þar stendur — með leyfi hæstv. forseta:

„Verðákvarðanir samkv. 8. gr. skulu miðaðar við afkomu fyrirtækja, sem rekin eru á tæknilega og fjárhagslega hagkvæman hátt og nýta eðlilega afkastagetu.

Verð og álagningu má ekki ákvarða lægri en svo, að fyrirtæki þeirrar tegundar, er í 1. mgr. getur, fái greiddan nauðsynlegan kostnað við innkaup eða endurinnkaup vöru, framleiðslu, aðflutning, sölu, flutning ásamt afskriftum, svo og sanngjarnan, hreinan hagnað, þegar tekið er tillit til áhættunnar við framleiðslu vörunnar og sölu.“

Nú er það bein spurning mín til hæstv. forsrh., og ég vona að hann svari, það er nóg að segja já eða nei: Verða verðlagsstjóra gefin þau fyrirmæli að leggja ekki lögbann við verðhækkun ef sá, sem hækkar vöruna, heldur sig innan þeirra marka sem segir í þessari lagagrein? Má treysta því, að verðlagsstjóra verði gefin þau fyrirmæli að óska ekki eftir lögbanni hjá þeim framleiðendum eða fyrirtækjum sem hækka vörur sínar ekki meir en rúmast innan þessarar greinar? — Ég verð að óska eftir því, að hæstv. viðskrh. sé beðinn að koma hér, því ég tel þetta mikilsvert atriði, herra forseti. (Forseti: Það er nú verið að aðgæta hvort viðskrh. sé í húsinu.) Það er ljómandi. Já, ég sé að hæstv. viðskrh. er kominn í salinn. Það stendur svo á að ég beindi fsp. til forsrh., sem getur stundum gripið fram í ræðu ef honum þykir við þurfa og ég er í ræðustólnum, en hann vill ekki svara að þessu sinni. Því spyr ég hæstv. viðskrh. í sambandi við verkreglur verðlagsstjóra. 12 gr. laga nr. 56 frá 16. maí 1978 hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Verðákvarðanir samkv. 8 gr. skulu miðaðar við afkomu fyrirtækja, sem rekin eru á tæknilega og fjárhagslega hagkvæman hátt og nýta eðlilega afkastagetu.

Verð og álagningu má ekki ákvarða lægri en svo, að fyrirtæki þeirrar tegundar, er í 1. mgr. getur, fái greiddan nauðsynlegan kostnað við innkaup eða endurinnkaup vöru, framleiðslu, aðflutning, sölu, flutning ásamt afskriftum, svo og sanngjarnan, hreinan hagnað, þegar tekið er tillit til áhættunnar við framleiðslu vörunnar og sölu.“

Nú er þessi spurning mín til hæstv. viðskrh.: Má treysta því, að verðlagsstjóra verði lögð sú verkregla í sambandi við lögbannsréttinn að hann krefjist ekki lögbanns við hækkun á vöru ef viðkomandi framleiðandi heldur sig innan þeirra marka sem 12. gr. setur? Fæst ekki svar við því, já eða nei? (Forseti: Hv. þm. má ekki ætlast til þess að hæstv. ráðherrar eða aðrir brjóti þingsköp með því að mælast á við hann. Hann verður að gefa þeim kost á því þegar þeim sýnist að kveðja sér hljóðs og svara.) Þegar svona mikið liggur nú við og það er verið að tala um að menn tefji málið vildi ég flýta fyrir. En ég sé að þeir eru ekki óðfúsir að svara, ráðherrarnir. Það má þá líka spyrja öðruvísi: Ef verðhækkun hefur ekki farið í gegnum verðlagsskrifstofuna og ekki verið samþykkt af ríkisstj., má þá ganga út frá því sem gefnu, ef verðlagsstjóra er kunnugt um þessa verðhækkun, að hann krefjist lögbanns? Við þessu fæst auðvitað ekki svar heldur. — Og ég vil spyrja einnig: Hefur ríkisstj. hugsað sér að veita fleiri opinberum aðilum með þessum hætti rétt til þess að tefla opinberu fé í tvísýnu, jafnvel í langvinnum réttarhöldum sem öll beinast að því að brjóta niður eðlilega viðskiptahætti og torvelda framleiðslu í landinu? Hversu á að standa á bak við þær tryggingar sem krafist yrði við lögbannsmálin o. s. frv. Ég verð að segja að mér finnst næsta hæpið að gefa verðlagsstjóra með þessum hætti þvílíkt vald sem þarna er um að ræða til þess að torvelda eðlilega atvinnu- og viðskiptahætti í landinu eftir einhverjum happa- og glappaaðferðum og stíga skref til lögregluríkis. Alveg á sama hátt og Díókletíanus reyndi að framkvæma sósíalismann þó að hann fæddist á undan Karli Marx, alveg á sama hátt er sósíalismi Gunnars Thoroddsens í ætt við sama fyrirbærið og mun gefast jafnilla. Og þær hömlur, sem nú eru settar á eðlilega framleiðsluhætti í landinu, munu reynast þeim mun verr í einkageiranum hjá framleiðsluatvinnuvegunum í landinu sem eru í einkaeign. Þeir aðilar geta ekki hlaupið í ríkissjóð eins og Sementsverksmiðjan eða Siglósíld og náð í aukið fé. En það má ekki tala um þetta. Að vísu segir hæstv. forsrh., af því hann gleymdi sér andartak, að frjáls verslun tryggi best hag neytandans, en svo rankaði hann við sér og sagði: vitaskuld undir eftirliti. Eftirliti hvers?

Þetta var út af frammíköllun hæstv. forsrh. þegar ég talaði við 1. umr. málsins, en ég get ekki, herra forseti, þó svo ég reyni nú að hraða máli mínu svo sem kostur er og stytta mitt mál jafnvel meira en ég tel verjandi, látið hjá líða að minnast á að í stjórnarsáttmála ríkisstj. Gunnars Thoroddsens eru þau markmið sett að mörkin skuli vera á verðhækkunum 8% til 1. maí, 7% til 1. ágúst og til 1. nóv. 5%. 12. nóv. kom fréttatilkynning frá ríkisstj. með skjaldarmerkinu og mikilli viðhöfn og niðurlag hennar er svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Verðbólgan hefur þannig hjaðnað úr rúmlega 60% í 51% á starfstíma ríkisstj. reiknuð á ársgrundvelli. Ríkisstj. mun vinna að áframhaldandi hjöðnun verðbólgu á næstu misserum og stuðla að því að tryggja sem best kaupmátt launafólks.“

Þessi fréttatilkynning var gefin út af forsrh. 12. nóv. 1980. Ég ætla að undir rn. hans sé yfirmaður Þjóðhagsstofnunar einnig, en Þjóðhagsstofnun sendi frá sér álit um hvernig verðþróunin hefði orðið. Þar kemur allt, allt annað fram en stendur í þessari fréttatilkynningu ríkisstj. Þar kemur þvert á móti fram að verðbólgan hafi vaxið síðustu mánuði ársins. Það virðist því eins og það sé ekki allt að marka sem einstakir ráðh. eða jafnvel yfirráðherrann sjálfur segir um þessi mál.

Eftir því sem mér hefur skilist er ríkisstj. afskaplega treg til að gefa þingheimi upplýsingar um hvernig hún hugsi sér að standa að málum. Ég vil minna á að hinn 31. des. s. l. var efnahagsáætlun ríkisstj. gefin út og skírskotað til Einars Benediktssonar í því sambandi sem var viljasterkur maður. Þar segir, með leyfi hæstv, forseta: „Á næstu mánuðum verða ákveðin tímasett mörk fyrir hámark verðhækkana í samræmi við hjöðnun verðbólgu.“ Hæstv. forsrh. var ekki í gær reiðubúinn að segja hvaða tímamark hann hugsaði sér að setja út frá framfærsluvísitölunni, sem er reiknuð út miðað við 1. maí eða á morgun — ekki tvo daga fram í tímann. Af hverju? Spurningin er: Af hverju er verið að setja þvílíkt og annað eins á pappír og veifa því framan í þjóðina ef þetta verður svo ekkert nema orðin tóm? Hvern er verið að gabba? Nú á að gera þetta að lögum. Halda menn að þessi ríkisstj. setji einhver tímamörk varðandi verðbólgu, sem hún stendur á, þó hún breyti efnahagsáætlun ríkisstj., sem var áður yfirlýsing, og láti Alþingi eða stuðningsmenn sína á Alþingi núna samþykkja þetta með handauppréttingu? Dettur nokkrum manni það í hug?

Bróðurparturinn af þessum ráðherrum lögfesti það 1979 að ríkisstjórnir skyldu hafa samráð við aðila vinnumarkaðarins. Hefur framkoma þeirra breyst gagnvart því? Hefur lagaákvæðið varðandi samráðið við aðila vinnumarkaðarins breytt einu eða neinu? Hafa þeir fengið að fylgjast með? Svarið er nei. Ásmundur Stefánsson, formaður ASÍ, gaf þá yfirlýsingu í Morgunblaðinu í gær, að við þá hefði ekkert samráð verið haft. Hann er spurður af blaðamanninum, með leyfi hæstv. forseta:

Ríkisstj. hefur lýst því yfir, að haft skuli samráð við fulltrúa verkalýðssamtakanna um efnahagsaðgerðir, og þið samþykktuð sérstaka yfirlýsingu eftir áramótaaðgerðir hennar þar sem harðlega var deilt á að slíkt samráð var ekki haft þá. Hvað gerið þið nú?“

„Það er víst of seint í rassinn gripið nú, þar sem þetta virðist allt afstaðið, en það er hins vegar áfram okkar krafa að samstarf verði haft við ASÍ. Mín skoðun er að slíkt samstarf sé ein af forsendum árangurs í þessum efnum.“

Þetta eru orð forseta ASÍ. Hann er að vísu afskaplega hógvær af því að þessi ríkisstj. er vinveitt launafólki í landinu. Þetta er ríkisstj. eins og eigum við að segja: embættismenn Díókletíanusar. En samt sem áður voru lagafyrirmæli um þetta, bæði yfirlýsing og lagafyrirmæli. Nú eigum við að standa upp á morgun, á hátíðisdegi verkalýðsins, í fyrsta lagi með yfirlýsinguna frá 31. des. um að ríkisstj. ætli að setja sér mörk í efnahagsmálum, sem hún hefur ekki gert, en nú eigum við að fá lagagrein til viðbótar. Og hverja á þessi lagagrein að binda? Ríkisstj., sem gaf yfirlýsinguna um áramótin, hefur allan vilja til að setja þessi mörk. Á hverju stendur? Stóð á lagafyrirmælum til þess að hún gæti gert þetta? Allir vita að svo var ekki. Hefur þessi ríkisstj. hagað sér þannig að hún færi sérstaklega eftir lögum? Ætli það sé nokkur maður sem heldur að ríkisstj. muni heldur setja sér mörkin þó hún sé búin að láta Alþingi fyrirskipa sér það? Ekki a. m. k. verkalýðshreyfingin. Ég er hræddur um að fyrrv. formaður Alþb., Lúðvík Jósepsson, hefði tekið nokkrum sinnum af sér gleraugun áður en hann hefði þagað yfir svona nokkru meðan hann átti sæti hér á Alþingi. Ég er hræddur um að hann hefði ræskt sig nokkrum sinnum — ég tala nú ekki um ef við minnumst á að það er ekki nóg með það í þessu frv. að ekki sé haft samráð við verkalýðshreyfinguna, heldur á nú að auka frystinguna í Seðlabankanum.

Ég skal ekki bæta frekar við það sem hér hefur áður verið sagt, en aðeins varpa þessu fram: Það er náttúrlega hægt að setja margs konar lög, en hver eru viðurlögin? Það er ekki einu sinni að landsdómur hafi um þetta mál að segja. 5. liður í efnahagsáætlun ríkisstj. er svona, með leyfi forseta, til að sýna fáránleikann í þessu: „Viðræður verði hafnar við samtök launþega og aðra hagsmunaaðila atvinnulífsins um framkvæmd samræmdrar stefnu í kjaramálum, atvinnumálum og efnahagsmálum til næstu tveggja ára.“ — Það mætti kannske bæta þessu við sem ákvæði til bráðabirgða, skeyta þessu aftan við, gá hvort það mundi þýða eitthvað. Ég veit ekki hvernig það mundi takast. Svona hljóðar 8. liður: „Útgerð og fiskvinnslu verður gert kleift að breyta skammtímalánum og lausaskuldum í lengri lán.“ — Þetta var samþykkt á sama tíma og sjútvrh. lýsti yfir að ríkisstj. hefði ekki fengist til að gefa útgerðinni lágmarksgrundvöll. Þá var ráðið það að veita lán í staðinn, annars stöðvast flotinn.

Ég ætla ekki, þó vissulega væri ástæða til, að tala um allar þær nýju og mörgu heimildir sem ríkisstj. hefur fengið til sparnaðar í ríkisrekstrinum. Ef ég man rétt var það í fjárlögum. Það var aftur í efnahagsáætluninni. Nú á að bæta nýju við í þessum lögum. Það er verið að gefa meiri og meiri heimildir til að lækka ríkisútgjöldin. En hvar er skráin yfir þetta? Af hverju þarf viðbótarheimildir? Ég mundi nú hafa stungið upp á því, úr því að ríkisstj. er svona áfram um þetta, að hún byrjaði á að nýta sér þær heimildir sem hún hefur þegar. Svo hefur reynslan sýnt að hún skirrist ekki við að gefa út brbl. Hún gæti þá gefið út brbl. um að fá að minnka ríkisútgjöldin enn meir þegar hún hefði nýtt þær heimildir til fulls, — eða er þetta kannske allt sama heimildin? Dettur nokkrum manni í hug að þó að það sé lögfest að þessi ríkisstj. eigi að spara fari hún að spara? Það má setja um það ótal lög mín vegna. Ekki skal ég standa á móti því á meðan er haldið sér við ramma stjórnarskrárinnar, sem ekki á að gera í því lagafrv. sem hér liggur fyrir.

Það var viðtal við Eyþór Tómasson framkvæmdastjóra á Akureyri í Morgunblaðinu 16. apríl s. l. og þar kemst hann svo að orði, með leyfi hæstv. forseta, þegar hann er spurður hvernig staðan sé:

„Hún er svona á ýmsa vegu. Á síðasta ári velti verksmiðjan um 700 millj. og þar voru framleidd um 200 tonn af sælgæti, alls 40 tegundir. En það er ekki hægt að bera saman möguleikana nú og áður fyrr. Hringlandaháttur stjórnvalda að undanförnu hefur gert okkur ákaflega erfitt fyrir, svo þetta er orðinn tómur barningur. Fyrst leyfði ríkið frjálsan innflutning á sælgæti, en lagði síðan á það toll, sem standa á til 1. apríl 1982, svo að innlendu sælgætisframleiðendurnir næðu að aðlaga sig innflutningnum. Af þessum sökum varð 30% samdráttur í sölu hjá okkur fyrstu 5 mánuðina í fyrra, en við vorum svo að ná okkur á strik undir áramótin, þegar ríkið rassskellir okkur með því að leggja 7% vörugjald ofan á 24%, sem fyrir voru. Ef bornir eru saman fyrsti ársfjórðungur síðasta árs og þessa kemur í ljós, að vinnulaun hafa hækkað um 53%, vaxtakostaður um 80%, erlendur gjaldeyrir (vegna hráefniskaupa) um 38–40%. Þrátt fyrir allar þessar kostnaðarhækkanir hefur okkur nær stöðugt verið neitað um verðhækkanir, svo allir hljóta að sjá hvert stefnir. Maður neyðist til að selja, og hver heldur þú að kaupi? Heldur þú að Sambandið gæti ekki hugsað sér að eignast súkkulaðiverksmiðju? Það stefnir allt í það að Sambandið yfirtaki allan einkarekstur í landinu, sjáðu hvernig fór fyrir Bjarna í Kaupangi.“

Það er ekki undarlegt þótt hv. 2. þm. Norðurl. e. ruggi sér nú ánægður í stólnum yfir draumum út af því, að Sambandið yfirtaki Lindu á Akureyri ofan á allt annað, enda hefur hann haldið því fram í ræðum fyrir norðan að enginn þvottheldur sjálfstæðismaður geti verið sannur samvinnumaður. En ég veit ekki hvað hann segir um Gunnar. Það má vera að hann vilji telja hann í hópi samvinnumanna, ég skal ekki um það segja. — En hitt leynir sér ekki, að þessi mikilsvirti iðnrekandi á Akureyri sér hvert stefnir og gerir sér grein fyrir því, að þeir menn, sem nú stjórna landinu, gera ekki aðeins einkarekstrinum erfitt fyrir með hringlandahættinum, heldur líka með því að gefa þeim, sem hafa tök á að ná í fjármagnið, alla möguleika, þannig að einstaklingarnir geta ekki haldið í horfinu og geta jafnvel ekki haldið áfram að reka verksmiðjur sem voru skuldlausar, eins og þessi verksmiðja á Akureyri, jafnvel þvílíkar verksmiðjur eru nú komnar í þá rekstrarerfiðleika að framkvæmdastjórar þeirra eru farnir að tala um að þeir verði að gefast upp. Og þá er eðlilegt að blaðamaðurinn spyrji: Finnast þér afskipti ríkisins af einkarekstri of mikil? Og þessi maður svarar, með leyfi hæstv. forseta:

„Já, ég er nú hræddur um það, ríkið á alls ekki að skipta sér af einkarekstrinum, það bælir menn niður og gerir þá að aumingjum. Sjáðu hvernig þetta er í austantjaldslöndunum“. — Það dettur fleiri en formanni Sjálfstfl. í hug eitthvað ráðstjórnarlegt í sambandi við þessa ríkisstj. Þetta var nú innskot. — „Sjáðu hvernig þetta er í austantjaldslöndunum, þar er allt á rassgatinu. Meðan ríkið er með puttann í öllu missa menn áhugann á því að reyna að koma sér áfram með eigin dugnaði, þeim er bara refsað fyrir það með alls konar álögum og gjöldum og það er engu líkara en ríkið reyni að drepa menn niður með alls konar djöfulskap. Skattar og álögur auk vaxtakjaranna gera manni allt til bölvunar, sem mögulegt er. Þú þarft að borga skatt, útsvar, fasteignagjöld, innflutningsgjöld, tolla, vörugjöld og söluskatt. Ef þetta endar ekki með því, að allt fari til helvítis, þá endar það líklega í samvinnu- og ríkisrekstri og ég get ekki séð að það sé betra,“ sagði Eyþór að lokum.

Herra forseti. Ég get ekki séð að ég geti orðað þetta betur og þetta skulu vera mín lokaorð.