30.04.1981
Efri deild: 89. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 3899 í B-deild Alþingistíðinda. (3949)

306. mál, verðlagsaðhald

Frsm. 2, minni hl. (Eyjólfur Konráð Jónsson):

Herra forseti. Það fór aldrei svo að það yrðu ekki skemmtilegar ræður hér í kvöld. Þeir hafa verið býsna skemmtilegir, síðustu tveir hv. ræðumenn. Skal ég ekki víkja ýkjamikið að hinum síðari eða því sem hann talaði um, að öðru leyti en því, að við vorum báðir áheyrendur að orðaskiptum prófessoranna, núverandi og fyrrverandi, í fjh.- og viðskn. Hv. þm. Ólafi Ragnari Grímssyni fannst dr. Gunnari — titlarnir hafa verið með — veita mun betur. Það er nú einhvern veginn svo, að á þessum fundum í fjh.- og viðskn. hefur það oftar en einu sinni komið fyrir að ef einhverju orði hefur verið hallað af einhverjum manni að hæstv. forsrh. dr. Gunnari Thoroddsen þá hafa allir brosað nema hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson og svo félagi hans Guðmundur J. Guðmundsson. Það er eins og þeim finnist þeir eiga hann, — það er kannske eitthvað til í því, að þeir ráði miklu um gerðir hans um þessar mundir. Það má ekki nokkru orði halla. Minnist ég sérstaklega þegar Jónas Haralz gat ekki fengið það dæmi til að ganga upp að fara tvær götur í vaxtamálum og það gætu engir menn gert, ekki einu sinni forsrh. Þessa minnist ég núna vegna þess að hæstv. forsrh. vék sérstaklega að vaxtalækkun sem hann hygðist framkvæma 1. júní samhliða fullri verðtryggingu á sparifé. Þetta er allt á sömu bókina lært.

Við skulum ræða svolítið um vaxtamálin, úr því að hann velur þá leið, en fyrst þetta: Hann segir að hann geti ekki nefnt neina atvinnugrein eða atvinnufyrirtæki og telur algerlega fráleitt að spyrja um hvaða atvinnugreinar, starfsgreinar á Íslandi eða bara einstök fyrirtæki muni ekki þurfa á að halda a. m. k. 8% hækkun á næstu þrem mánuðum, og hann segir að það sé lítill launakostnaður hjá sumum fyrirtækjum og að vaxtakostnaðurinn muni lækka. Við skulum nú segja að það sé lítill launakostnaður hjá fyrirtækjum, það er það vissulega hjá sumum, en ætli það séu nú ekki einhverjir aðrir kostnaðarliðir sem þá koma í staðinn, t. d. orka og þjónusta, sem þetta fyrirtæki þarf að kaupa út o. s. frv. Það var ekki af neinni illgirni sem ég spurði hæstv. forsrh. að þessu. Ég er búinn að ganga á milli manna hér í deildinni í kvöld, eftir að þessi ummæli féllu, og hef spurt þá marga hverja: Getið þið komið auga á einhverja starfsgrein eða eitthvert fyrirtæki sem muni þurfa minna en 8% hækkun á næstu þrem mánuðum eftir að hafa enga hækkun fengið í a. m. k. þrjá mánuði, að það séu einhver fyrirtæki, einhver starfsgrein íslensk svo vel stæð að hún muni ekki þurfa á þessum 8% að halda til þess að geta bjargast? (StJ: Ekki spurði þm. mig.) Nei, það var nú gallinn, en ég spyr þig núna: Mundir þú geta nefnt eitthvert slíkt fyrirtæki eða starfsgrein sem þú hefðir von um að gæti lifað? Kannske eitthvert fyrirtæki, sem ætti miklar eignir, gæti lifað þennan tíma með því að ganga á þær. (StJ: Ég get svarað þessu nú strax. Það er rétt sem þm. segir mér um gróskuna í Tungulaxi.) Jú, ég hugsa að þetta mundi verða rétt eftir 5 ár, en því miður er svo ekki í dag, þvert á móti, því að það er ekkert nema tap enn þá, en þarna verður vonandi stórgróði þegar laxinn fer að vaxa. — En ég átti ekki við að menn ættu beinlínis að ganga á eignir sínar. Ég átti við að fyrirtækið gæti nokkurn veginn gengið án þess að tapa. Ég veit ekki um neitt slíkt og ég er alveg sannfærður um að hæstv. forsrh. veit ekki um neitt og ekki neina starfsgrein. Hann talar þarna gegn betri vitund auðvitað, eins og oft áður. Allt er þetta auðvitað byggt á undirferlum og óheilindum, öll störf þessarar stjórnar. Stjórnin er mynduð fyrir undirferli og svik og eftir því hefur auðvitað farið. Þessi stjórn hlýtur auðvitað að verða landi og lýð til bölvunar, eins og hún hefur þegar orðið, og verður auðvitað til þeim mun meiri bölvunar því lengra sem liður. Ég átti svo sem ekki von á að hæstv. ráðh. svaraði þessu. En ég sagði fyrir fram að það væri alveg fyrirgefanlegt ef þetta hefði verið mælt af misskilningi og hugsunarleysi, ég hefði ekki einu sinni staðið hér upp aftur ef hann hefði sagt að því miður hefði þetta verið nokkuð mikið sagt og væri hugsunarleysi.

En þetta er ekkert gamanmál sem hér er á ferðinni. Það bryddar nú þegar á atvinnuleysi á Íslandi á vordögum. Hugsið ykkur það! Við höfum ekki kynnst því áður nú á annan áratug, og á þeim tíma á að sverfa svo að fyrirtækjum að þau hljóta að dragast saman. Einkafjárfesting verður lítil. Það eru svo sárafá fyrirtæki sem eru í uppbyggingu núna. Þau eru alls staðar að dragast saman, þau eru að fara á hausinn og nú á enn að sverfa, að þeim. Þau eiga engar hækkanir að fá eða sáralitlar í kannske hálft ár með a. m. k. 50% verðbólgu, þó að partur af henni sé dulinn, eins og kom fram í umr. í Nd. í dag. Auðvitað er það stórfelld kjaraskerðing sem dynur yfir með þessum hækkunum sem nú eru að koma á opinberu starfseminni og þessum 8% eða hvað það nú verður kannske 20% hjá einhverjum gælufyrirtækjum og 2% hjá einhverjum öðrum. Auðvitað verður það stórkostleg kjaraskerðing hjá fólkinu, sem fær þessi 8% væntanlega í vísitölubætur 1. júní, en ekkert af hækkununum sem dynja yfir í næsta mánuði, þeim sem byrjar á morgun.

Að því er vextina aftur á móti varðar var t. d. Þorsteinn Pálsson framkvæmdastjóri Vinnuveitendasambandsins spurður að því á nefndarfundi í gær og þeir sem voru þar fleiri, bæði frá iðnrekendum og Vinnuveitendasambandinu, hvort þeir þekktu til þess að einhvers staðar í rekstri fyrirtækja hefðu vextir lækkað. Þeir sögðust vita til þess, að það hefðu verið lækkaðir vextir á ákveðnum lánum, þau lán fengjust bara alls ekki. Hins vegar hefðu vextir stórhækkað á öðrum lánum. Þorsteinn sagði orðrétt: „Lækkanir hafa orðið á vöxtum af lánum, sem ekki fást, og hækkanir á vöxtum af lánum, sem kynnu að fást.“Þetta vita allir. Þetta er sami blekkingaleikurinn. Þetta er sú iðja sem menn halda að fólk fari ekki að sjá í gegnum og sé ekki farið að sjá í gegnum. Það er hægt að blekkja fólk í nokkra mánuði. Þessari stjórn tókst það. Ég held að hún hafi verið vinsæl langt fram eftir síðasta ári, en hún er það sannarlega ekki lengur.

Svik eru á svik ofan, undirferli og ósannindi, eins og núna lýsir sér rétt einu sinni í einu og öllu, og svo frumvörp þannig úr garði gerð að formaður fjh.- og viðskn. skýrir þau allt öðruvísi en efnahagsráðunautur ríkisstj., eins og ég gerði grein fyrir í ræðu minni áðan. Þetta kann ekki góðri lukku að stýra. Það sleppur enginn heilskinnaður frá svona vinnubrögðum, enginn maður, hvorki þeir sjálfstæðismenn, sem voru svo ógæfusamir að taka þátt í þessari stjórn, né heldur hinir. Það var skiljanlegt að bæði framsóknarmönnum og Alþb.-mönnum þætti það girnilegt að geta klofið Sjálfstfl. og komið af stað öllum þeim óþverra sem þjóðin hefur orðið að búa við, en þeir fá bara þennan óþverra sjálfir inn á sál sína. Það er ekki hægt að vinna svona. Það er þetta sem er að gerast. Þess vegna er þessi stjórn dauðvona. Þetta hefur aldrei verið ríkisstj. Ég sagði það tveim dögum áður en hún var mynduð að þetta yrði versta ríkisstj. sem hefði setið í sögu lýðveldisins. Og ég hef líka sagt að raunar hafi Gunnar Thoroddsen aldrei myndað neina ríkisstj. vegna þess að þetta hefur aldrei verið ríkisstj. Hv. þm. Guðmundur J. Guðmundsson réttnefndi þetta fyrirbæri. Hann kallaði það uppákomu. Þetta er uppákoma, alveg hörmuleg uppákoma, og ég vorkenni öllum þeim sem eru aðstandendur þessarar uppákomu. (ÓRG: Samt eru 80% þjóðarinnar sem styðja þessa ríkisstj. — EgJ: Eru það ekki 81%?) Hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson segir hvert gullkornið af öðru hér í dag. Ég held að hann hafi aldrei áður verið svona fyndinn. (ÓRG: Jú, jú, oft áður.)

Jæja, það er með vaxtalækkun hæstv. forsrh. 1. mars, minnir mig að það hafi verið, var sem sagt tekin upp verðtrygging á öllum lánum eða öllum þeim sem fáanleg eru núna, á þeim er verðtrygging. Verðbólgan er 50% eða svo. Vextir voru yfirleitt þetta um 40% samkv. Ólafslögunum sem voru afnumin með brbl. eða frestað öllu heldur, og síðan var sem sagt ákveðið að verðtryggja innlánin og inn á þessa reikninga streyma nú peningarnir og á vaxtaaukareikninga og útlán eru yfirleitt ekki fáanleg, eins og Þorsteinn Pálsson og raunar fleiri sögðu, úr öðrum reikningum en þessum. Vextir voru við skulum segja í kringum 40% áður. Nú er komin 50% verðbólga — verður það — og það á að borga þó 1% í innlánsvexti og 2.5% í útlánsvexti ofan á þessa verðtryggingu. Ég er ekki mikill reikningsmaður, en mér skilst að vextir hækki eitthvað við þetta. Hér er t. d. hv. þm. Geir Gunnarsson, sem er talnagleggsti maður sem ég þekki: Mundi þetta ekki verða heldur hækkun á vöxtum, kannske um 10–12% eða svo, 10–12 af hundarði, þó líklega heldur meira þarna? Það er líklega um 25% hækkun á vöxtunum sem fyrir voru. 25% ofan á 40, ætli það sé ekki eitthvað nálægt því? Ég veit ekki hvað hæstv. forsrh. segir um þetta. Hann var að lækka vexti nú nýlega og hann ætlar að lækka þá aftur 1. júní og það eru fyrirtæki, skildist mér á honum áðan, hann sagði það beint út, sem kynnu að vera svo vel stödd að þau þyrftu ekki á neinni 8% hækkun að halda á hálfu ári vegna þess að þau spöruðu svo mikið í útgjöldum á vöxtunum. Ég veit ekki hvort þetta gengur upp í huga einhvers manns, en ekki í mínum huga. Hins vegar gengur það allt saman upp að hæstv. ráðh. kemur hér með stóryrði og skammir, öskuþreifandi reiður, þegar ég ber fram við hann einfalda spurningu og verið er að reyna að greiða fyrir framgangi mála. (Forsrh.: Mjög einfalda spurningu?) Mjög einfalda, já, að nefna einhverja starfsgrein eða þá bara fyrirtæki sem ekki þurfi á þessu að halda. Auðvitað talar hann gegn betri vitund eins og venjulega.

Ég skal nú ekki þrátt fyrir allt, af því að það er liðið svona á kvöldið, vera að tefja ykkur mjög mikið, en ég gat ekki stillt mig um að koma hér upp aftur og sýna að það er svo sem hægt að halda þessum fundum gangandi. Við hefðum svo sem ósköp vel getað það, en fyrir góða samvinnu, ekki síst í þessari deild, höfum við viljað greiða fyrir framgangi mála. Það þarf þá auðvitað að vera hæstv. forsrh. sem kemur hér upp og gefur okkur tilefni til að tala hér í alla nótt ef okkur sýndist svo. En ég ætla ekki að verða til þess af þessu tilefni. Ég met manninn satt að segja ekki svo mikils að ég taki mikið mark á því sem hann segir eða gerir.