30.04.1981
Efri deild: 89. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 3906 í B-deild Alþingistíðinda. (3952)

306. mál, verðlagsaðhald

Þorv. Garðar Kristjánsson:

Herra forseti. Það hefur ýmislegt borið á góma í þessum umr., eins og við var að búast. Því miður var ég ekki hér á fyrstu augnablikum fundarins, en þá mun einhver hafa verið að leggja stein í götu einhvers. Ég missti af því og er því ekki fær um að ræða mikið um það. Ég vil bara segja að mér fannst aths. hv. 11. þm. Reykv. athyglisverðar og kannske það athyglisverðasta sem ég heyrði frá honum hér í kvöld.

En allt slíkt sem þetta og margt fleira, sem mér finnst hafa komið fram í umr. og þá sérstaklega í Nd. í dag, hefur nokkuð dregið athyglina frá aðalatriði málsins í mínum augum. Að vísu hafa málsvarar Sjálfstfl. bent á það, en ég vil leggja aukna áherslu á það nú í þessum orðum mínum, að það er aðalatriðið varðandi það frv., sem hér er til umr., að það hefur litla eða enga þýðingu til viðnáms gegn verðbólgu. Það er ekki stefnumarkandi á neinn hátt, en undirstrikar að ríkisstj. hefur ekki frekar stefnu í efnahagsmálunum en hún hefur áður haft.

Alltaf er það alvarlegt þegar ríkisstj. hefur ekki ákveðna stefnu sem svarar þeim þörfum sem þarf að svara á hverjum tíma. Og vissulega var það áríðandi nú, að ríkisstj. hefði stefnu í efnahagsmálum sem væri til þess fallin að veita raunverulegt viðnám gegn verðbólgu og koma á jafnvægi í stað jafnvægisleysis í efnahagsmálunum. Þetta er þeim mun alvarlegra nú vegna þess að eins og menn muna varð sérstakur einstæður atburður um síðustu áramót sem skiptir töluverðu máli í þessu sambandi. Ég á við gjaldmiðilsbreytinguna.

Það er ekki á hverju ári eða hversdagslegt að slík ráðstöfun sé gerð. Mér er ekki kunnugt að slík ráðstöfun hafi verið gerð frá stríðslokum í nálægum löndum eða löndum, sem við getum á einhvern hátt borið okkur saman við í þessu sambandi, nema í tveim Evrópulöndum, þ. e. í Frakklandi og Finnlandi. Hvers vegna? Vegna þess að það er talið að slíkar ráðstafanir hafi ekki þýðingu nema þær séu liður í víðtækri stefnumörkun og þáttaskilum í efnahagsmálum viðkomandi þjóðar. Meira að segja: ef svo er ekki er því haldið fram og m. a. hefur því verið haldið fram að Seðlabankanum hjá okkur að það gæti verið olía á verðbólgubálið að framkvæma gjaldmiðilsbreytingu eins og við gerðum nema hún sé liður í viðtækum efnahagsráðstöfunum.

Með tilliti til þessa lögðum við sjálfstæðismenn strax í haust á þessu þingi áherslu á að stefnumörkun ríkisstj. kæmi sem fyrst fram og áður en gjaldmiðilsbreytingin yrði. Það virtist enginn ágreiningur um það milli stjórnarandstöðunnar og ríkisstj. að nauðsyn væri á þessari stefnumörkun. En ríkisstj. taldi sig ekki þess umkomna að koma með þessa stefnu fyrr en um leið og gjaldmiðilsbreytingin var samþykkt. Hún kom ekki með hana fyrr. Hún gaf ekki út brbl. fyrr en á síðasta degi ársins, eins og kunnugt er. En látum nú vera ef þar hefði verið að finna það sem þurfti í þessu sambandi, víðtæka, markvissa stefnumörkun til að koma á jafnvægi í efnahagsmálunum. En það var ekki. Það voru engar langtímaráðstafanir í þá átt. Það var einungis um að ræða nokkrar bráðabirgða- eða skammtímaráðstafanir sem gátu ekki verið í neinu samhengi við langtímaráðstafanir. Ég á við ákvæði brbl. um hina svokölluðu verðstöðvun. Ég á við skerðingu á verðbótum sem gat í sjálfu sér haft þýðingu, en auðvitað var tekið fram að þau ákvæði skyldu afnumin eftir nokkra mánuði. Ég á við ákvæði um að fresta skyldi framkvæmdum ríkissjóðs.

En þó að þetta væri svo í brbl. gat maður eða vildi vænta þess, að það yrði bætt úr þessu. Þá hefði það átt að ske með frv. því sem hér er til umr. En enn er það svo að þetta frv. fjallar ekki nema um bráðabirgðaráðstafanir eða skammtímaráðstafanir. Í þessu frv. er ekki að finna neinar ráðstafanir eða ákvarðanir sem eru stefnumótandi og geta valdið þáttaskilum í efnahagslífi þjóðarinnar. Það er ekki í þessu frv. neitt um það t. d. að flytja verkefni frá ríkinu til sveitarfélaga eða einstaklinga, til borgara í landinu. M. ö. o.: það er ekkert í þá átt að skapa grundvöll fyrir skattalækkunum. Það er ekkert í þessu frv. sem varðar breytingar á vísitölukerfi því sem við höfum haft við kaupgjaldsákvarðanir. Það er ekkert í þá átt að miða vísitölu við þjóðartekjur í stað þess sem nú er. Það er ekkert gert til að breyta því fyrirkomulagi sem er á fiskverðsákvörðunum, en það er á þann hátt að við ákveðum fiskverð án nokkurs tillits til markaðsverðs, með þeim afleiðingum sem það hefur á efnahagskerfið. Það er ekkert í þessu frv. sem heggur að rótum verðbólgunnar. Það er það alvarlega við þetta frv. því að það var einmitt slíkt frv. sem við þurftum á að halda. Við þurftum á að halda markvissri stefnumörkun sem miðaði að því að ráðast að orsökum verðbólgunnar.

Við erum búnir að fá nóg af meira og minna máttlausum ráðstöfunum og málamyndaráðstöfunum í glímunni við afleiðingar verðbólgunnar. Þær hafa í raun og veru ekki skilað neinum árangri. Í besta tilfelli hafa e. t. v. tvö önnur vandamál verið sköpuð í staðinn þegar leyst hefur verið úr einum vanda. Það er þetta sem er hið alvarlegasta við það sem nú er að ske. Við þurftum á stefnumörkun að halda til að ráða bót á því ófremdarástandi sem íslenskt efnahagslíf er í. En við fáum það ekki með þessu frv., því miður.

Ég tel að það skipti sáralitlu máli, ef í raun og veru þegar öll kurl koma til grafar það skiptir nokkru máli til viðnáms gegn verðbólgu, hvort þetta frv. er samþykkt eða ekki samþykkt. En á þessu frv. og á þeim ráðstöfunum, sem það gerir ráð fyrir, eru slíkir meinbugir að ekki verður við unað. Ég sé ekki ástæðu til að fara að tíunda hér þessa meinbugi. Það hafa í þessari umr. og við 1. umr. í þessari deild gert bæði hv. 3. þm. Norðurl. e. og hv. 5. landsk. þm. En vegna þessara meinbuga munum við sjálfstæðismenn greiða atkv. gegn þessu frv.