04.05.1981
Efri deild: 91. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 3918 í B-deild Alþingistíðinda. (3967)

158. mál, skattur á verslunar- og skrifstofuhúsnæði

Frsm. minni hl. (Lárus Jónsson):

Herra forseti. Eins og fram hefur komið þegar þetta mál hefur verið til umr. höfum við sjálfstæðismenn verið andvígir því. Sú var tíðin að við vorum allir andvígir því, þingflokkur Sjálfstfl., en nú er aðeins hluti af þingflokknum andvígur þessu máli. Nál. okkar hv. þm. Eyjólfs Konráðs Jónssonar er á þskj. 700 og hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Nefndin hefur fjallað um frv. og varð ekki sammála um afgreiðslu þess. Undirritaðir nm. eru andvígir frv. Hér er um skatt að ræða sem var fyrst lagður á af vinstri stjórn Ólafs Jóhannessonar og er því hluti af þeim skattahækkunum sem sú ríkisstj. og núv. ríkisstj. bera ábyrgð á. Við leggjum til að frv. verði fellt.“

Ég vil aðeins bæta því við, að þessi sérstaki skattur á verslunar- og skrifstofuhúsnæði, sem er í eðli sínu afskaplega óréttlátur skattur, er lagður á eignarskattsstofn eins og menn vita. Í morgun voru fjh.- og viðsk.-nefndir á fundi þar sem kom fram að þriðja árið í röð mun verða allveruleg hækkun á öðrum eignarsköttum til ríkisins. Ég held að engum blandist hugur um það, sem hugleiða skattamálin, að eignarskattarnir, skattar á sparnað fólks, á það sem fólk hefur sparað saman, þessir skattar eru óréttlátir. Í rauninni ætti ríkissjóður að láta sveitarfélögunum eftir að leggja fasteignagjöld á fasteignir, en láta þær að öðru leyti óáreittar með skatta.

Ég legg því til, herra forseti, í samræmi við þetta nál. að frv. verði fellt.