04.05.1981
Neðri deild: 87. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 3931 í B-deild Alþingistíðinda. (3976)

123. mál, hollustuhættir

Frsm. (Guðrún Helgadóttir):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nál. um frv. til laga um hollustuhætti og hollustuvernd sem liggur hér fyrir deildinni á þskj. 679. Nefndin hefur rætt frv. á 13 fundum og leitað álits fjölmargra sérfróðra manna sem komu á fundi með henni. Nær alla fundi nefndarinnar sátu Ingimar Sigurðsson deildarstjóri í heilbr.- og trmrn., sem jafnframt var formaður undirbúningsnefndar við lagagerðina, og Þórhallur Halldórsson framkvæmdastjóri sem einnig sat í nefndinni. Mikill fjöldi umsagna barst nefndinni, auk þess sem allir þeir aðilar, er að hollustumálum starfa höfðu fengið drög að frv. send áður og skilað áliti sem fullt tillit var tekið til við gerð frv.

Nefndin mælir með samþykkt frv. með þeim breytingum sem lagðar eru fram á sérstöku þskj., nr. 680. Nm. áskilja sér raunar allan rétt til að flytja frekari brtt. eða fylgja brtt. sem fram kunna að koma.

Brtt., sem hér liggja frammi á þskj. 680, eru margar og sýnast harla óárennilegar við fyrsta yfirlit. En eins og hv. þm. sjá er mikill hluti þessara breytinga endurskoðun á svæðaskiptingu nefndanna. Við fyrstu gerð var miðað við svæðisnefndir eins og þær eru í heilsugæslulögum, en við nánari skoðun þótti rétt að gjörbreyta þessu. Nefndirnar eru nú alls 47 og ég held að ég megi fullyrða að þm. hvers kjördæmis hafi farið grannt ofan í þessa skiptingu. Ég vil þó vekja athygli á því, að prentvillupúkinn hefur verið okkur erfiður. Ég vil vekja athygli á því, að á bls. 2 í brtt., sem eru raunar prentaðar upp, er enn einn hreppur úti. Það er við Búðardal á bls. 2, 5. liður, þar vantar enn inn Hvammshrepp, og ég bið menn að færa það inn hjá sér. Ég á þó von á að það þskj. verði lagt fram að nýju.

Ég veit satt að segja ekki hvort ástæða er til að fara í hverja einustu brtt. Ég held þó að nokkur ástæða sé tilvegna þess að nokkuð er nú umliðið síðan talað var fyrir þessu mikla frv. — að rifja aðeins upp hverjar eru helstu nýjungar sem hér eru á ferðinni.

Er þá fyrst að telja að í 1. gr. frv. er lögð til sú stefnuyfirlýsing, að lögunum sé ætlað að skapa grundvöll til að tryggja öllum landsmönnum svo heilnæm lífsskilyrði sem á hverjum tíma eru tök á að veita. Er reynt að marka stefnu um hvernig vinna eigi að þessu, t. d. með því að tryggja sem best eftirlit með öllu er að hollustuháttamálum lýtur.

Þá er gert ráð fyrir að lögin nái yfir alla starfsemi og framkvæmd sem haft getur eða hefur í för með sér mengun lofts, láðs eða lagar. Þar er um algjört nýmæli að ræða, að gert er ráð fyrir að reglugerð skuli sett um mengunarvarnir.

Ein merkileg nýjung er m. a. að það er sagt. í frv., í 3. gr., að til þess að stuðla að framkvæmd mengunarvarna setji ráðh. mengunarvarnareglugerð að höfðu samráði við önnur þau rn. sem fara með einstaka málaflokka er snerta umhverfismál. Síðan er sett inn í frv. mjög afgerandi ákvæði um að ekkert sveitarfélag skuli vera án viðhlítandi hollustueftirlits og þjónustu hollustufulltrúa.

Ég vil þó taka fram, eins og menn sjá af brtt., að samkvæmt eindregnum tilmælum munu þessir aðilar óska eftir að heita áfram heilbrigðisfulltrúar. Það er því einungis stofnunin, sem heita mun hollustuverndarstofnun, en menn fá að halda stöðuheitinu heilbrigðisfulltrúar eftir sem áður.

Hollustunefndum er falið að vinna að eftirfarandi verkefnum: bættri hollustuvernd í héraðinu, bættum mengunarvörnum, fræðslu um hollustumál og samvinnu við önnur yfirvöld og aðila sem vinna að þessum málum beint og óbeint. Og síðast en ekki síst er gert ráð fyrir að sérstök stofnun verði sett á laggirnar: Hollustuvernd ríkisins. Þessari stofnun er ætlað að hafa yfirumsjón með hollustueftirliti, matvælaeftirliti, mengunarvörnum og rannsóknum þessu tengdum. Á hún að sjá um framkvæmd þess í samræmi við frv.

Ég vil taka það skýrt fram, að allir þeir aðilar, sem að þessum málum vinna, hafa haft tækifæri til þess að segja sitt álit, og við í nefndinni teljum að tekið sé fyrir það mjög ítarlega, að ein stofnun fari yfir á starfssvið annarrar. Ákvæði eru um að það, sem heyrir undir frv., sé bundið því skilyrði að um það séu ekki ákvæði í öðrum lög,um.

Nefndin hefur komist að þeirri niðurstöðu að mæla með að frv. verði samþykkt með þeim brtt. sem hér liggja fyrir. Við teljum að með þessum brtt. hafi frv. tekið verulegum breytingum til bóta.

Ég vil taka fram að nokkur umræða varð um ákvæði til bráðabirgða, sem er á síðustu blaðsíðu í brtt., en það er 9. atriði 15. gr. Sú grein hljóðar svo, með leyfi forseta:

Ríkisstj. láti fara fram athugun á hvort sameina eða samræma megi frekar en gert er með lögum þessum starfsemi aðila sem fara með ýmiss konar hollustuhátta- og heilbrigðiseftirlit og eftirlit til varnar skaðlegum áhrifum umhverfis á heilsufar manna. Jafnframt fari fram könnun á möguleikum til frekari samræmingar löggjafar um þessi mál. Skal könnun þessari lokið innan þriggja ára frá gildistöku laga þessara.“

Mér þykir rétt að upplýsa að þarna var á ferðinni nokkur hræðsla við að verið væri að ganga nærri Vinnueftirliti ríkisins og komu mjög ákveðin mótmæli frá þeirri stofnun. Við teljum hins vegar að þó að kannað verði hvort ástæða sé til að samræma frekar en gert hefur verið lög sem fjalla um hollustuháttamál, þá sé síður en svo verið að vega að þessari stofnun. Ég hygg því að þetta orðalag, sem að lokum náðist samkomulag um, eigi ekki að valda frekara hugarangri.

Það væri út af fyrir sig hægt að tala um þetta frv. tímunum saman, en ég held, að ég láti hér við sitja, og vænti þess, að hv. deild sjái sér fært að samþykkja frv. með þessum brtt.