10.11.1980
Neðri deild: 13. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 568 í B-deild Alþingistíðinda. (398)

36. mál, tímabundið innflutningsgjald á sælgæti og kex

Friðrik Sophusson:

Herra forseti. Ég vil byrja á því að þakka hæstv. fjmrh. fyrir svörin sem hann gaf á þeim fundi þegar þetta mál var til umr., en nú er nokkuð langt um liðið. Það kom helst merkilegt fram í máli hæstv. ráðh., að ríkisstj. hyggst hafa svo kallaðan virðisaukaskatt enn til athugunar um hríð. Í ræðu hæstv. ráðh. var aðeins sagt að ríkisstj. hygðist athuga það mál frekar og að hann og aðrir í hæstv. ríkisstj. teldu að fleiri gallar væru á virðisaukaskatti en kostir.

Ástæðan fyrir því, að ég kem hér í ræðustól aftur í þessu máli sem hér er til 1. umr., er sú, að í umr. var ég sakaður um óskýr svör um afstöðu mína til málsins. Af því tilefni vil ég taka fram sérstaklega að ég er með fríverslun, og ég fagna ummælum hæstv. ráðh. sem varla verða skilin öðruvísi en á þann veg, að hann sér fremur hlynntur fríverslun. Þetta þýðir að við sjálfstæðismenn erum á móti varanlegum innflutningstollum og kvótakerfi á innflutningi. Við teljum að þetta lagafrv. eigi því aðeins rétt á sér að hér sé um að ræða undantekningu sem komi til af því að tiltekin samkeppnisskilyrði hafi ekki verið fyrir hendi varðandi þessa grein íslensks iðnaðar.

Ég vil leyfa mér að benda á og tel ástæðu til að hv. nefnd taki það til íhugunar, að Félag ísl. iðnrekenda gerði að tillögu sinni í sumar í bréfi til iðnrn. að innflutningsgjaldið yrði stiglækkandi þannig að það yrði 40% í fyrstu, en lækkaði síðan niður í 20% þegar líða tæki á tímabilið. Þetta mál finnst mér þurfa að athuga með tilliti til þessarar tillögu Félags ísl. iðnrekenda, en það á einmitt að gæta hagsmuna fyrirtækja í sælgætisiðnaðinum.

Þá vil ég nota þetta tækifæri til að fagna þeirri yfirlýsingu hæstv. fjmrh., að nú sé á lokastigi könnun fjmrn. á aðflutningsgjaldi af iðnaðarvörum. Ég leyfi mér að skilja hæstv. ráðh. þannig, að í undirbúningi á lokastigi sé frv. um þetta efni, en hann eigi ekki einungis við þá auglýsingu sem hæstv. iðnrh. lofaði að kæmi til framkvæmda 1. okt. n.k., eins og sést á fréttatilkynningu frá iðnrn. sem gefin var út 20. ágúst. Sé það rétt til getið hjá mér, að hæstv. fjmrh. ætli sér innan tíðar að leggja fram frv. til breytinga á lögum er varða aðflutningsgjöld til iðnaðarins, þá vil ég fagna þeirri yfirlýsingu sérstaklega.

Alveg nýlega lét Félag ísl. iðnrekenda frá sér fara álit um það efni. Í bréfi félagsins segir m.a., með leyfi forseta:

„Félag ísl. iðnrekenda minnir á, að vorið 1979 samþykkti Alþingi að fela ríkisstj. að semja frv. til laga sem tryggði að felldar verði endanlegar niður allar greiðslur aðflutningsgjalda af aðföngum til iðnaðar sem á í beinni eða óbeinni samkeppni við erlendar iðnaðarvörur. Þetta frv. skyldi flutt á þingi 1979–1980.

Í öðru lagi, að allar ríkisstjórnir, sem verið hafa í landinu frá því Ísland gerðist aðili að EFTA, hafa heitið iðnaðinum að hann muni ekki þurfa að búa við lakari kjör í þessum efnum en keppinautarnir.

Í þriðja lagi, að í sáttmála núv. ríkisstj. er lögð sérstök áhersla á mikilvægi framleiðniaukandi aðgerða í atvinnulífinu. Aðflutningsgjöld af ýmiss konar hjálpartækjum vinna gegn þessu markmiði.

Í fjórða lagi, að rúmlega hálft ár er liðið frá því að Félag ísl. iðnrekenda og Landssamband iðnaðarmanna sendu rn. lista yfir aðföng sem enn eru greidd aðflutningsgjöld af.

Í fimmta lagi, að í fréttatilkynningu iðnrn. frá 20. ágúst s.l. segir að stefnt sé að því að ljúka endurskoðun á aðflutningsgjöldum samkeppnisiðnaðar fyrir 1. okt. 1980.“

Lýk ég hér lestrinum úr þessu bréfi Félags ísl. iðnrekenda, en þar er staðfest það sjónarmið sem kom fram í ræðu minni fyrr í þessu máli.

Ég vil því leyfa mér að nota þetta tækifæri nú til að spyrja hæstv. iðnrh. hvað þessu líði, hvort endanlega sé búið að ganga frá því máli, sem boðað var í fréttatilkynningu 20. ágúst, og hvort það sé rétt skilið, að hæstv. fjmrh. hafi með ræðu sinni hér á Alþingi, þegar þetta mál, sem nú er verið að ræða, var fyrr til umr., gefið til kynna að í vændum sé frv. til breytinga á lögum vegna aðflutningsgjalda af efnum til iðnaðar.

Að lokum vil ég aðeins geta um eitt mál sem mér finnst koma þessu umræðuefni verulega við. Það er samkeppnishæfni íslenskra iðnfyrirtækja vegna sjónvarpsauglýsinga. Alkunna er að flutt er til landsins sjónvarpsefni frá erlendum framleiðsluaðilum. Slíkt efni er ótollað með öllu. Þess vegna er raunin sú, að íslensk framleiðsluvara á í vök að verjast á þessu sviði í samkeppni við innflutta framleiðslu. Mér finnst kominn tími til að kannað sé hvort ekki eigi að gera mun á auglýsingum framleiddum hér á landi og hinum sem eru framleiddar erlendis, einkum og sér í lagi vegna þess að ýmis efni, sem notuð eru til framleiðslu á sjónvarpskvikmyndum hér á landi, eru tolluð, þannig að samkeppnisaðstaða þeirra, sem framleiða sjónvarpskvikmyndir hér á landi, er lakari en þeirra sem framleiða auglýsingakvikmyndir fyrir sjónvarp erlendis.

Auðvitað má halda því fram, að með þessum hætti sé verið að mismuna framleiðsluaðilum. En það er í þessu máli alveg eins og með sælgætisiðnaðinn, að kvörtunarefnið er það, að íslensk stjórnvöld hafa með aðgerðum sínum í tollamálum í raun gert stöðu íslenskra framleiðslufyrirtækja lakari. Ég nefni þetta mál með sjónvarpsauglýsingarnar sérstaklega, því að það er mál sem snertir sælgætis- og kexiðnaðinn, en jafnframt fjölmargar aðrar íslenskar framleiðslugreinar.

Ég vænti þess, herra forseti, að lokum, að hæstv. iðnrh. sjái sér fært að svara þeim spurningum sem ég hef beint til hans.