10.11.1980
Neðri deild: 13. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 570 í B-deild Alþingistíðinda. (399)

36. mál, tímabundið innflutningsgjald á sælgæti og kex

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Svo langt er um liðið síðan umr. fór síðast fram um þetta mál, að það er e.t.v. ástæðulaust fyrir mig að kveðja mér hljóðs til þess að varna misskilningi sem kom fram hjá hv. þm. Albert Guðmundssyni í ræðu hans þegar frv. var siðast til umr.

Hv. þm. lét svo um mælt í ræðu sinni, að mér hefði orðið á að segja eitthvað í þá veru, að þessi tegund atvinnustarfsemi, sælgætis- og kexiðnaður, stæði ekki í skilum með launagreiðslur við starfsfólk sitt. Ég er nýbúinn að lesa yfir ræðu mína úr þingritun og tek það fram, að þar er hvergi eitt aukatekið orð sem má skilja í þessa veru, svo að hv. þm. hlýtur að hafa misheyrst. Það, sem ég sagði og lagði áherslu á í sambandi við umræður um þetta mál, var einfaldlega þetta:

Því miður er það svo, að víða í verksmiðjuiðnaðinum á Íslandi er boðið upp á lökust lífskjör sem þekkjast hér í þessu landi. Starfsfólk, sem vinnur samkvæmt launatöxtum Iðju, er yfirleitt mesta láglaunafólkið í þessu þjóðfélagi. Og menn verða að hafa það í huga, þegar þeir taka ákvörðun um með hvaða hætti eigi að styðja atvinnustarfsemi af opinberu fé, hvort sem það er beinlínis gert með styrkveitingum eða óbeinlínis með aðgerðum af því tagi sem frv. felur í sér, þá verða menn að hafa hugfast að það er ekki nóg að líta einvörðungu á atvinnutækifærin, sem þessi viðkomandi framleiðslustarfsemi skapar, heldur verða menn einnig að gera það upp við sig, hvort hún sé æskileg og lífvænleg í þessu landi miðað við þau launakjör sem viðkomandi starfsemi getur boðið.

Á þetta lagði ég áherslu, að ég hefði áhuga á því að fá að vita hvaða launakjör sælgætis- og kexiðnaðurinn teldi sig geta boðið starfsfólki sem þar vinnur, hvort þau launakjör væru þess eðlis, að ástæða væri til að ætla að þessi framleiðslustarfsemi ætti framtíð fyrir sér og að vert væri að styðja við bakið á henni með miklum fjármagnsfyrirgreiðslum af opinberu fé eða aðgerðum af því tagi sem hér er um að ræða, — m.ö.o. þegar neysluvara er skattlögð og fólk látið kaupa hana á hærra verði en það gæti fengið hana á ef það væri frjálst að því að kaupa hana þaðan sem það vildi, hvort hagur þessarar atvinnustarfsemi er slíkur og þau launakjör, sem hún getur boðið, að það réttlæti slíkar aðgerðir. Í þessu er ekki fólgin nein ásökun á þessa atvinnustarfsemi um að hún standi ekki í skilum við starfsfólk um greiðslu á umsömdu kaupgjaldi, aðeins ábending til umhugsunar um að það nær auðvitað ekki nokkurri átt að einblína bara á atvinnutækifærin sem tiltekin framleiðslugrein getur skapað, heldur verða menn einnig að horfa á þau kjör sem hún býður fólkinu. Það er ekki vansalaust ef Alþingi og stjórnvöld telja nauðsynlegt að styðja þá framleiðslustarfsemi mest sem minnst og lélegust laun getur boðið fólki sem þar starfar. Þess vegna hafði ég áhuga á því, og ég lét það koma fram í ræðu minni hér áðan, að jafnframt því sem stjórnvöld hugleiða möguleika á að styðja við alls konar iðnaðarstarfsemi í landinu til að skapa aukin atvinnutækifæri, þá reyni menn einnig að velja og hafna í þessum efnum út frá því viðhorfi, hvaða atvinnugreinar það séu í iðnaði og annarri atvinnustarfsemi sem geti boðið íslensku starfsfólki mannsæmandi laun. Því miður á það við um margt, einkum og sér í lagi starfsemi sem kennd er við verksmiðjuiðnað, að slíkur atvinnurekstur virðist ekki geta, eins og að honum er staðið í dag, boðið nema lægstu laun sem greidd eru í þjóðfélaginu. Og ég benti á að reynslan hefur sýnt fram á að sú tegund iðnaðar, sem verst var spáð fyrir hér á landi, stóriðjan, sem ýmsir álitu fyrir 10–15 árum að mundi gera Ísland að varanlegu láglaunasvæði, — þessi tegund iðnaðar virðist nú, ef á hann er litið sem verksmiðjuiðnað, vera raunverulega eini verksmiðjuiðnaðurinn sem getur boðið starfsfólki mannsæmandi laun. Þetta verða menn að athuga þegar þeir velja þau atvinnutækifæri sem á að bjóða í landinu. Það er ekki nóg að viðkomandi starfsemi geti boðið fjölbreytt atvinnutækifæri. Hún verður líka að geta boðið mannsæmandi lífskjör. Nú er mér ekki kunnugt um hvaða kaup er greitt við sælgætis- og kexframleiðslu. Mér er ekki kunnugt um hvernig sú atvinnustarfsemi stendur sig í kaupgreiðslum miðað við ýmsan annan verksmiðjuiðnað. En ég lét það koma fram í máli mínu fyrir nokkrum dögum, að ég hefði áhuga á að sjá upplýsingar þar að lútandi í þeirri nefnd sem fær þetta mál til meðferðar, m.a. til að gera mér grein fyrir hvort líklegt sé að þessi atvinnustarfsemi- mér liggur nærri að segja: eigi skilið að fá þann stuðning sem aðgerðir af því tagi, sem frv. þetta gerir ráð fyrir, skapa.

Ég sé að hv. þm. Albert Guðmundsson hefur aflað sér upplýsinga um málið og getur þá væntanlega gefið svör við einhverjum af þessum spurningum.