04.05.1981
Neðri deild: 87. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 3938 í B-deild Alþingistíðinda. (3990)

264. mál, Norðurlandasamningur um félagslegt öryggi

Frsm. (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Þetta frv. er um heimild fyrir ríkisstj. að fullgilda fyrir Íslands hönd samning milli Íslands, Danmerkur, Finnlands, Noregs og Svíþjóðar um félagslegt öryggi, en þessi samningur var undirritaður í Kaupmannahöfn 5. mars s. l.

Það eru nýmæli í hinum nýja samningi, að tekin eru af öll tvímæli um að hann skuli taka til tryggingagjalda ekki síður en tryggingabóta. Nokkur óvissa hefur verið í þessu efni á undanförnum árum og hefur í sumum tilfellum valdið því, að ýmist hefur átt sér stað tvígreiðsla gjalda eða gjaldfrelsi.

Enn fremur eru í þessum samningi ákvæði um greiðslu ferðakostnaðar manna sem veikjast eða slasast á ferðalögum á Norðurlöndum utan síns heimalands.

Loks má nefna ákvæði um að biðtími annars staðar á Norðurlöndum nýtist þegar úrskurða þarf rétt til viðbótarlífeyris. Gert er ráð fyrir að íslenska lífeyrissjóðakerfið falli undir þennan nýja samning og tengist á þann hátt sameiginlegu kerfi lífeyrissjóða hinna samningslandanna.

Heilbr.- og trn. hefur fjallað um þennan samning og leggur til að frv. verði samþykkt til staðfestingar á samningnum. Fjarstaddir afgreiðslu málsins voru Pálmi Jónsson, Guðmundur G. Þórarinsson og Pétur Sigurðsson.