04.05.1981
Neðri deild: 87. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 3939 í B-deild Alþingistíðinda. (3994)

302. mál, lögréttulög

Dómsmrh. (Friðjón Þórðarson):

Herra forseti. Frv. til lögréttulaga, sem hér er lagt fyrir hv. Nd., hefur legið alloft fyrir þinginu á undangengnum fimm árum. Ég taldi rétt að leggja það fram nú, þótt liðið sé á þingtímann, svo að skoða mætti það samhliða frv. um breyt. á lögum um meðferð einkamála í héraði sem legið hefur fyrir þinginu frá hausti og nú má ætla að fengið geti afgreiðslu þar sem það hefur fengið góða umfjöllun í nefndum.

Frv. til lögréttulaga hefur tekið ýmsum breytingum frá því að það var fyrst lagt fyrir þingið vorið 1976. Síðast voru gerðar á því nokkrar breytingar er það var lagt fram í febrúarbyrjun 1980. Frv. er nú lagt fram eins og réttarfarsnefnd gekk frá því haustið 1979. Ég hef þó í sjálfu sér ekki tekið afstöðu til þeirra breytinga sem gerðar hafa verið á frv. 1979 og 1980. Ég á raunar ekki von á að koma muni til verulegrar efnismeðferðar á því í þinginu að þessu sinni.

Ég óska þess, herra forseti, að frv. verði að þessari umræðu lokinni vísað til 2. umr. og hv. allshn.