04.05.1981
Neðri deild: 87. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 3940 í B-deild Alþingistíðinda. (3999)

276. mál, Landsvirkjun

Flm. (Magnús H. Magnússon):

Herra forseti. Undanfarin allmörg ár hefur kaupmáttur launa farið minnkandi hér á landi og kauphækkun sú, sem um var samið fyrri hluta vetrar, hefur nú verið tekin af með lögum ef á heildina er lítið. Spáð er að kaupmáttur launa minnki nokkuð á þessu ári miðað við fyrra ár, í besta lagi að kaupmáttur standi í stað og það þrátt fyrir samninga um allnokkrar kauphækkanir.

Þetta gerist þrátt fyrir það að nú fara ytri skilyrði batnandi í fyrsta sinn um nokkurra ára bil. Miklar verðhækkanir hafa orðið í markaðslöndum okkar á skreið og saltfiski og menn vonast eftir hækkun á verði frystra fiskafurða á Bandaríkjamarkaði. Dollarinn hefur styrkst miðað við aðra gjaldmiðla, en það eitt út af fyrir sig hefur mjög góð áhrif á viðskiptakjör okkar og þjóðartekjur. Meiri hluti útflutningsvara okkar er seldur í dollurum, en innflutningurinn er að miklu leyti greiddur í öðrum gjaldmiðlum. Þar við bætist svo að litlar eða engar verðhækkanir hafa orðið á olíuvörum síðasta árið, gagnstætt því sem var á árunum 1978 og 1979, og fer olíuverð nú jafnvel lækkandi.

Viðskiptakjör fóru mjög versnandi bæði árin 1978 og 1979, en fóru heldur batnandi á síðasta ári og heldur sú þróun áfram sem betur fer.

Lífskjararýrnun undanfarinna ára hefur að mestu stafað af versnandi viðskiptakjörum, aðallega vegna olíuverðhækkana á árunum 1978 og 1979. Þar við bætist svo heimatilbúinn verðbólguvandi og margs konar óarðbær fjárfesting, jafnvel fjárfesting sem beinlínis skerðir lífskjör þjóðarinnar, sbr. innflutning skuttogara eins og nú er ástatt með helstu fiskstofna okkar.

Fyrir fáum árum stóðum við í fremstu röð þjóða hvað lífskjör almennings varðar, en nú höfum við dregist verulega aftur úr nágrannaþjóðum okkar mörgum hverjum sem þó hafa einnig átt við margs konar efnahagslega erfiðleika að etja í kjölfar olíuverðhækkana. Þessari þróun verðum við að snúa við og leita til þess allra tiltækra ráða. Við verðum að beina orku okkar að því að finna skjótvirkar og öruggar leiðir til að auka þjóðarframleiðslu og þjóðartekjur og þá fyrst og fremst í gjaldeyrisskapandi og gjaldeyrissparandi undirstöðuframleiðslu.

Við verðum einnig að hafa það í huga, að aldursskipting þjóðarinnar er slík að mjög mikil fjölgun verður á vinnumarkaði næstu árin. Það er talað um 30 þúsund manns á næstu tveim áratugum umfram þá sem láta af störfum á sama tíma. Við verðum því að stórfjölga atvinnutækifærum í þjóðhagslega arðbærum framleiðslugreinum, ef við viljum ekki missa fólk úr landi í stórum stíl og ef við viljum ekki að öll fjölgunin á vinnumarkaði fari í þjóðhagslega lítt arðbær þjónustustörf. Við getum ekki lifað góðu lífi á því einu að þjónusta hvert annað þótt það sé annars góðra gjalda vert.

Oft er sagt og það með réttu, að þýðingarmiklar auðlindir landsins séu fyrst og fremst þrjár: í fyrsta lagi gróðurmáttur jarðar, í öðru lagi fiskimiðin umhverfis landið og í þriðja lagi orkan í fjallavötnum og jarðvarma. Þar má svo við bæta: vel menntað og vel þjálfað vinnuafl.

Nú standa mál þannig að það er þjóðhagslega óhagkvæmt að auka hefðbundna landbúnaðarframleiðslu og því ekki unnt að auka nýtingu þeirrar auðlindar sem felst í gróðurmætti jarðar. Það er hægt að auka framleiðni í landbúnaði og fjölbreytni framleiðslunnar. Um heildaraukningu framleiðslu landbúnaðarvara verður ekki að ræða í fyrirsjáanlegri framtíð.

Vegna ástands þýðingarmestu fiskstofna okkar getum við ekki á næstu árum reiknað með auknum sjávarafla. Ef við gætum það væri auðvelt að bæta hag alls almennings í landinu með skjótum hætti. Við getum aukið framleiðni í sjávarútvegi og fiskiðnaði og við getum aukið fjölbreytni úrvinnslu sjávarafurða og náð þannig nokkurri aukningu þjóðartekna, vonandi umtalsverðri.

Þótt erfiðlega horfi nú á ýmsum sviðum sjávarútvegs okkar fer það ekkert á milli mála, að hann er og verður um fyrirsjáanlega framtíð styrkasta stoð velmegunar hér á landi og reyndar undirstaða hennar. Um það þarf enginn að fara í grafgötur. Eina meiri háttar auðlind okkar, sem ekki er ýmist fullnýtt eða ofnýtt í dag, er orkan í fallvötnum og jarðvarma. Hún er aðeins að mjög litlu leyti nýtt, eða u. þ. b. 6% af nýtanlegri orku þótt tillit sé tekið til náttúruverndarsjónarmiða. Í þessu eru fólgnir okkar stóru möguleikar í dag og í framtíðinni. Heimsmarkaðsverð á olíu margfaldaðist á síðasta áratug og sú þróun kemur til með að halda áfram þótt hægt hafi á sér í bili, þó ekki væri nema vegna þess að ört gengur á helstu olíulindir jarðar og þær sem auðunnastar eru. Okkar orka hefur þá stóru kosti umfram flesta aðra orkugjafa að hún endurnýjar sig sjálf og er mengunarlaus. Aftur á móti gerir hún lítið gagn meðan árnar renna að mestu óbeislaðar til sjávar og meðan jarðhitinn er hlutfallslega mjög lítið notaður.

Það liggur í augum uppi að tækifæri til að auka þjóðartekjur fljótt og mikið liggja fyrst og fremst í orkufrekum iðnaði. Þar er samkeppnisstaða okkar best og fer batnandi. Þó að stóriðja, eins og við venjulega notum það hugtak, sé auðvitað mjög inni í þessari mynd koma einnig til ýmsir aðrir kostir í orkufrekum iðnaði. Ég nefni t. d. steinullarverksmiðju þá sem mikill áhugi er á að reisa í Þorlákshöfn og reyndar einnig á Sauðárkróki. Hún kemur til með að nota 5.5 mw. afl og hafa 68 manns í vinnu. Þetta er orkufrekur iðnaður sem notar reyndar meira afl en við höfðum yfir að ráða á landinu öllu árið 1933, þótt við flokkum það ekki undir stóriðju í daglegu tali.

Orkufrek iðnfyrirtæki af ýmsum stærðum og gerðum geta risið og eiga að rísa víðs vegar um landið. Möguleikarnir eru margir. T. d. er það svið afar áhugavert þar sem nota þarf mjög háan hita við ýmiss konar framleiðslu. Þar er samkeppnisstaða raforku best samanborið við olíu. Olíunotkun verður mjög óhagkvæm ef nota þarf 2000° hita eða meira, en þar hefur raforkan lítt takmarkaða möguleika. Sem dæmi má nefna framleiðslu á háhitaþolnum efnum, eins og fóðringum hvers konar, múrsteinum í eldhol kynditækja og hitöldum (elementum) í hvers konar rafmagnshitatæki, svo að fátt eitt sé nefnt. Framleiðendur þess konar varnings eru yfirleitt nokkuð lítil fyrirtæki samanborið við önnur í orkufrekum iðnaði, og kemur því vel til greina að staðsetja þau þar sem erfitt er að koma stórum fyrirtækjum við vegna fámennis byggðarlaga.

Á fyrstu dögum þinghalds s. l. haust flutti þingflokkur Alþfl. þáltill. um, eins og þar stendur m. a., með leyfi hæstv. forseta: „Stórfellda aukningu á orkufrekum iðnaði næstu ár til að nýta í ríkari mæli en nú er gert hinar miklu óbeisluðu orkulindir vatnsfalla og jarðhita, bæta lífskjör og auka trausta atvinnu, framleiðslu og útflutning þjóðarinnar.“

Í grg. þáltill. segir m. a.: „Tilgangur þessarar till. er að Alþingi ákveði stóraukna hagnýtingu á orkulindum landsins til iðnvæðingar er geti stöðvað afturför lífskjara og tryggt með sem skjótustum hætti batnandi afkomu, aukið atvinnuöryggi, fjölgað atvinnutækifærum og stöðvað landflótta. Beinum tekjum ríkisins af stórum iðjuverum verði síðan varið til uppbyggingar á almennum iðnaði víðs vegar um landið“.

Frv. það, sem hér er til umr., er í beinu framhaldi af þessari þáltill. Alþfl. og í beinum tengslum við hana. Það gengur út á breytingu á lögum um Landsvirkjun sem að formi til eru heimildarlög að því er varðar virkjunarframkvæmdir. Breytingar frá gildandi lögum um Landsvirkjun eru tvenns konar. Annars vegar er Landsvirkjun heimilað að byggja og reka orkuver utan núverandi orkuveitusvæða fyrirtækisins og hins vegar eru heimildir til Landsvirkjunar um ákveðnar virkjunarframkvæmdir sem tímasettar eru í grg. frv., með ákveðnum fyrirvörum þó.

Það hefur oft verið talað um nauðsyn þess, að allar meiri háttar virkjanir og meginflutningslínur væru á einni hendi. Þessi stefnumörkun hefur birst í tillögum um að virkjunarsvæði Landsvirkjunar næði til landsins alls og að Landsvirkjun stæði þannig undir nafni. Þess er skemmst að minnast, að núv. hæstv. iðnrh. beitti sér mjög fyrir lagabreytingum í þá átt. Til að ná því marki er nærtækast að fela Landsvirkjun að byggja og starfrækja þær virkjanir sem fyrirhugaðar eru. Þetta lagafrv. gerir ráð fyrir slíkri heimild. Á það ber einnig að líta, að Landsvirkjun býr yfir mestri þekkingu og mestri reynslu á þessu sviði og er því hæfust til að hafa framkvæmdirnar og reksturinn á hendi. Það er því einsýnt að rétt er að fela Landsvirkjun þessi verkefni þótt sum þeirra séu utan núverandi orkuveitusvæða fyrirtækisins. Sjálfsagt þykir og að Landsvirkjun sjái um rekstur allra þessara virkjana, enda fjárhagsleg áhætta af rekstrinum minnst með því móti, m. a. vegna eignar og rekstrar fyrirtækisins á áður byggðum stórvirkjunum. Það er auðveldara og áhættuminna að bæta við núverandi stórrekstur en að byrja frá grunni. Fyrri virkjanir standa með því móti að hluta undir erfiðum rekstri nýrra virkjana fyrstu árin og áhættan dreifist.

Einnig er nauðsynlegt að stjórn sé á einni hendi á því, hvernig hinar ýmsu virkjanir eru nýttar á hverjum tíma, hvernig hver og ein þeirra er þann og þann tímann látin skila orku inn á hið samtengda háspennukerfi landsins. Það þarf m. a. að taka tillit til orkutaps í flutningslinum, en þó fyrst og fremst til þess, hvernig í það og það skiptið er best að nýta vatnsmiðlanir orkuveranna, hvar borgi sig best á þessum eða hinum árstímanum að safna vatnsbirgðum og hvenær árs best er að nota þær.

Aðalatriðið er auðvitað að safna vatni á sumrin til notkunar að vetrinum þegar orkuþörfin er mest, en nýtanleg úrkoma minnst, og að miðla vatni á milli ára. Allt verður þetta að vera undir einni stjórn ef vel á að fara.

Þær nýju heimildir til virkjunarframkvæmda, sem frv. gerir ráð fyrir, eru þessar:

1. Landsvirkjun verði heimilað að stækka Búrfellsvirkjun úr 210 í 315 mw.

2. Landsvirkjun verði heimilað að stækka Hrauneyjafossvirkjun úr 170 í 210 mw.

3. Rýmkaðar verði heimildir til að veita ám ofan Þórisvatns í vatnið.

4. Landsvirkjun verði heimilað að byggja raforkuver við Sultartanga.

5. Landsvirkjun verði heimilað að byggja raforkuver við Blöndu.

6. Landsvirkjun verði heimilað að byggja raforkuver í Fljótsdal.

Heimildir til að byggja ný raforkuver eru með þeim almenna fyrirvara að sýnt verði fram á að nægilegur markaður verði fyrir hendi þegar áætlað er að viðkomandi virkjun hefji orkuframleiðslu.

Áætlað er að fyrsta vélasamstæða Hrauneyjafossvirkjunar hefji orkuframleiðslu um mánaðamótin okt. nóv. á þessu ári, önnur vélasamstæðan í febr. 1982 og hin þriðja og síðasta snemma árs 1983, en fyrir henni vantar lagaheimild. Samtals verður afl virkjunarinnar þá 210 mw. og áætluð árleg orkuframleiðsla 850 gwst.

Reiknað er með að Hrauneyjafossvirkjun verði fullnýtt árið 1985 án þess að um umtalsverða aukningu á orkufrekum iðnaði verði að ræða. Því mætti þó fresta nokkuð með aukningu vatnaveitna og aukinni vatnsmiðlun á Suðurlandi og í framhaldi af því fjölgun vélasamstæðna í virkjunum sunnanlands. Einnig kemur vel til greina að virkja jarðgufu í Svartsengi mun meira en nú er gert. Þessar aðgerðir tel ég þó að eigi að nýta til að flýta uppbyggingu orkufreks iðnaðar, en ekki til að fresta byggingu orkuvera.

Samkvæmt áætlun orkuspárnefndar vex afl- og orkuþörf til almennra nota um liðlega 7% á ári næstu árin, eða um 120 gwst. á ári, og aflþörfin um 25 mw. á ári að jafnaði. Á fimm ára tímabilinu frá 1980 til 1985 vex þörfin því um 40% eða úr 1478 í 2070 gwst. á ári og aflþörfin úr 296 í 414 mw. Í þessum tölum er enginn orkufrekur iðnaður og ekki gert ráð fyrir að breyta orkunotkun almenns iðnaðar úr olíu í raforku, sem þó hlýtur að verða stefnt að í stórum stíl. T. d. er fráleitt að hugsa sér annað en að skipta yfir í raforkunotkun þegar fiskmjölsverksmiðjurnar taka upp gufuþurrkun í stað eldþurrkunar eins og fyrirhugað er. Er þar um mjög mikla orku að ræða, svo skiptir hundruðum gwst. á ári, eða allt upp undir helming af orkuframleiðslu einnar virkjunar.

Eins og ég áður undirstrikaði er nauðsynlegt að auka mjög uppbyggingu orkufreks iðnaðar af ýmsu tagi og víðs vegar um land ef unnt á að reynast að bæta að marki lífskjör almennings. Ég held að það fari varla á milli mála, að sú stefna nýtur fylgis meiri hluta alþm., og get ég t. d. vitnað í þáltill. sjálfstæðismanna um aukna stóriðju og frv. þeirra um ný orkuver. Það verður því að teljast varlega áætlað að aukning raforkuvinnslu til orkufreks iðnaðar þurfi að vera a. m. k. jafnmikil og aukningin til almennra nota. Sú áætlun er ein meginforsenda þess frv. sem hér er til umr. Með því móti verður nauðsynleg árleg aukning raforkuframleiðslu 240 gwst. og nauðsynleg aflaukning 50 mw. á ári að jafnaði.

Í grg. frv. er getið um áætlaðan byggingarkostnað svo og áætlað afl og orkuframleiðslu þeirra þriggja virkjana sem nú er mest talað um, þ. e. Sultartangavirkjunar, Blönduvirkjunar og Fljótsdalsvirkjunar. M. a. vegna upplýsinga, sem fram koma í nýkominni skýrslu Orkustofnunar um vinnslu og flutning raforku til aldamóta, er nauðsynlegt að leiðrétta tölur í grg. Áætlaður byggingarkostnaður Blöndu- og Fljótsdalsvirkjunar er nokkru meiri en þar er talið og þá fyrst og fremst ef ný stóriðja fylgir ekki með. Og áætluð orkuframleiðsla Sultartangavirkjunar er oftalin í grg., aukning orkuframleiðslu Búrfellsvirkjunar vegna stíflugarðs Sultartangavirkjunar er í reynd tvítalin.

Framleiðslukostnaður á hverja orkueiningu í þessum virkjunum er minnstur í Blönduvirkjun, en mestur í Sultartangavirkjun. Aftur á móti er stækkun Búrfellsvirkjunar eða Búrfell II hagstæðastur einstakra virkjunarkosta, sérstaklega eftir aukningu vatnsmiðlana á Suðurlandi. Framleiðslukostnaður raforku í sjáfum virkjununum er þó ekki einhlítur til samanburðar á kostnaði við hinar ýmsu virkjunarleiðir. Þar skiptir miklu máli hvernig ný virkjun fellur að því framleiðslu- og dreifikerfi sem fyrir er, hvort og þá hvar reisa skuli stóriðjuver, hvort Kröfluvirkjun verður með eða ekki og þá með hve mikla orkuframleiðslu. Þannig mætti áfram telja.

Orkustofnun hefur, eins og áður er að vikið, nýlega gefið út fróðlega skýrslu um þessi mál þar sem orkuþörfin og kostnaður við ýmsar virkjunarleiðir er áætlaður allt til næstu aldamóta. Annars vegar er reiknað út frá aukningu raforkuframleiðslu til almennra nota eingöngu. Hins vegar er reiknað með aukinni stóriðju sem þyrfti á að halda 150 mw. afli sem kæmi inn í þremur jafnstórum áföngum á árunum 1986, 1988 og 1990. Reiknað er með að öll aukningin verði á einhverjum einum þriggja staða, þ. e. á Grundartanga, í Eyjafirði eða á Reyðarfirði. Til samanburðar er gott að hafa útreikninga Orkustofnunar um framleiðsluaukningu raforku til almennra nota eingöngu, en að öðru leyti finnst mér að þeir séu óraunhæfir. Uppbygging orkufreks iðnaðar hlýtur að vera með í öllum áætlunum um raforkuframleiðslu framtíðarinnar.

Í skýrslu Orkustofnunar kemur fram að sjálfsagt er að auka vatnaveitur og vatnsmiðlanir á Suðurlandi og þar með að byggja stíflugarð Sultartangavirkjunar. Að öðru leyti kemur fram í þessari skýrslu að hagkvæmast sé að byggja Blönduvirkjun fyrst og síðan Sultartangavirkjun ef engin aukning stóriðju er með og ef stóriðjufyrirtæki verður reist á Norðurlandi. Ef aukning stóriðju verður fyrst og fremst á Austurlandi er hagkvæmast að byrja á byggingu Fljótsdalsvirkjunar. Ef aukning stóriðjunnar verður á Vesturlandi, þ. e. á Grundartanga hefur Blönduvirkjun aðeins vinninginn yfir Sultartangavirkjun, en þar munar þó sáralitlu eða innan við 1 millj. kr. á núvirði og er þá reiknað með kostnaðarmismun allt til aldamóta. M. ö. o.: mismunurinn er enginn. Reyndar er framleiðslu- og flutningskostnaður á orkueiningu minni í þessu tilviki ef Sultartangavirkjun er byggð á undan Blönduvirkjun.

Í skýrslu Orkustofnunar er kostnaður við framleiðslu og flutning raforku ekki reiknaður út frá þeirri forsendu, að aukning stóriðju verði á Suður- eða Suðvesturlandi, en augljóst er að í því tilviki verður hagkvæmast að Sultartangavirkjun verði fyrst í röð þessara þriggja virkjana.

Mér finnst augljóst að aukning stóriðju muni ekki verða á einhverjum einum stað, eins og miðað er við í útreikningum Orkustofnunar, heldur á nokkrum stöðum á landinu. Mér finnst einnig augljóst að uppbygging margs konar orkufreks iðnaðar muni dreifast um landið. Nauðsynlegt er því að fjölga þeim forsendum sem vinna verður út frá þegar meta á hinar ýmsu virkjunarleiðir þessa og næstu áratuga.

Eðlilegur undirbúningur hverrar virkjunar er þrjú ár í rannsóknir og síðan fimm ár í hönnun, útboð og framkvæmdir. Ef reiknað er með árlegri aukningu orkunotkunar sem nemur 50 mw. og 240 gwst. verða allar þrjár virkjanirnar, sem um hefur verið rætt, fullnýttar árið 1993 og þá þarf enn ein virkjun að taka til starfa. Til að ná þessum markmiðum í orkuaukningu þarf:

Í fyrsta lagi að setja upp þriðju vélasamstæðu Hrauneyjafossvirkjunar og þarf hún að vera tilbúin til orkuframleiðslu í ársbyrjun 1983. Um það held ég reyndar að allir séu sammála.

Í öðru lagi þarf að hefjast strax handa um gerð vatnaveitna til að auka verulega aðrennsli í Þórisvatn. Og til að auka miðlunarmöguleika vatnsins, ekki bara milli árstíða, heldur og milli ára, þarf að hækka stíflugarð og þar með yfirborð vatnsins og dýpka frárennslisskurð þess.

Í þriðja lagi þarf að auka afl Búrfellsvirkjunar að hluta til með því að skipta um vatnshjól núverandi virkjunar, sem áætlað er að auki afl hennar úr 210 í 240 mw., og að hluta með því að fjölga vélasamstæðum í núverandi virkjun eða með því að byggja nýja virkjun sem nefnd hefur verið Búrfell II. Skipta ber út vatnshjólum núverandi virkjunar strax og nauðsynlegar tilraunir með þau hafa farið fram, en ekki skal hér fullyrt hvenær í röð virkjana hagkvæmast er að stækka Búrfellsvirkjun að öðru leyti eða byggja Búrfell II.

Í fjórða lagi þarf að hefja framkvæmdir við Sultartangavirkjun strax í sumar og í beinu framhaldi af vinnu við Hrauneyjafossvirkjun. Sultartangavirkjun þarf að vera tilbúin til orkuframleiðslu árið 1985.

Í fimmta lagi þarf að hefja undirbúning og framkvæmdir við Blönduvirkjun strax og viðunandi samkomulag næst við landeigendur, þó eigi síðar en 1982, í allra síðasta lagi árið 1983. Sú virkjun þarf að vera tilbúin til orkuframleiðslu árið 1987. Auðvitað verður að freista þess að ná samkomulagi við landeigendur, en það er ekki hægt að mínu mati að bíða eftir því samkomulagi í mörg ár. Þjóðarhagur hlýtur að mega sín meira en raunverulegir eða ímyndaðir hagsmunir fárra manna.

Í sjötta lagi þarf að halda áfram rannsóknum og undirbúningi Fljótsdalsvirkjunar og hefja útboð og framkvæmdir strax og samið hefur verið við stóran orkukaupanda eða stóra orkukaupendur á Austurlandi, þó eigi síðar en 1984. Sú virkjun þarf að vera tilbúin til orkuframleiðslu árið 1989.

Í sjöunda lagi þarf að halda áfram undirbúningsrannsóknum vegna ýmissa virkjunarkosta svo að unnt verði að velja úr og taka endanlegar ákvarðanir um enn frekari virkjanir eigi síðar en árið 1987. Til að það verði unnt þarf að hefja undirbúningsrannsóknir á allmörgum nýjum virkjunarkostum sem allra fyrst.

Í áttunda lagi þarf að hefjast strax handa um könnun á möguleikum til uppbyggingar orkufrekra iðnfyrirtækja af ýmsum stærðum og gerðum sem staðsett verði víðs vegar um landið. Sú uppbygging þarf að haldast í hendur við byggingu stórvirkjana þannig að orkukaupendur verði til þegar orkuver eru tilbúin til starfrækslu og að orka verði til þegar orkufrekur iðnaður þarf á að halda.

Til að annast þetta þarf Alþingi strax að kjósa nefnd sjö þm. eins og þáltill. Alþfl. frá s. l. hausti gerir ráð fyrir, en þar segir um þetta m. a., með leyfi hæstv. forseta:

„Nefndin skal hafa náið samstarf við yfirvöld orkumála og umhverfisverndar. Hún skal skila Alþingi og ríkisstj. skýrslum um valkosti, m. a. varðandi gerð og stærð iðjuvera, staðsetningu, fjármögnun, hugsanlegt samstarf við erlenda aðila, fjölda atvinnutækifæra og annað er áhrif hefur á þjóðarhag.“

Sannleikurinn er sá, að ekkert — alls ekkert — hefur verið unnið að markaðsmálum nú um allmörg ár og því er nauðsynlegt að hafa um það snör handtök að bæta þar úr.

Vegna Sultartangavirkjunar má m. a. benda á:

Í fyrsta lagi, að undirbúningur þeirrar virkjunar er lengst á veg kominn og er hún eina virkjunin sem gæti með góðu móti tekið til starfa árið 1985.

Í öðru lagi, að engar deilur eru uppi sem tafið gætu eða truflað framkvæmdir, eins og því miður er raunin á um Blönduvirkjun.

Í þriðja lagi, að ákvörðun um virkjun við Sultartanga er ekki háð því, að búið sé að semja um orkusölu til orkufreks iðnaðar, eins og raun er á um Fljótsdalsvirkjun og reyndar að hluta um Blönduvirkjun.

Í fjórða lagi, að mikil reynsla er fengin af virkjunarframkvæmdum á vatnasvæði Tungnaár og Þjórsár.

Í fimmta lagi, að vegir, háspennulinur, vinnubúðir og vinnutæki eru að mestu leyti fyrir hendi á virkjunarsvæðinu.

Í sjötta lagi, að vel þjálfað starfsfólk með margra ára reynslu er á virkjunarsvæði Suðurlands, en hætt er við því, að sú starfsreynsla nýtist ekki sem skyldi annars staðar á landinu, m. a. vegna forgangsréttar launþegafélaga á hverju landssvæði.

Í sjöunda lagi, að fyrirsjáanlegt er mjög alvarlegt atvinnuleysi á Suðurlandi ef snögglega er hætt virkjunarframkvæmdum þar, miklu alvarlegra atvinnuleysi en þekkst hefur annars staðar á landinu hin síðari ár.

Oft er talað um að stórvirkjanir þær, sem þegar hafa verið reistar, séu allar á eldvirkjum svæðum. Í framhaldi af því er Suðurland gjarnan allt dæmt sem eldvirkt svæði. Auk þess er talað um jarðskjálftahættu á virkjunarsvæðinu. Nærtækasta hættan sýnist vera sú, að eldgos á Veiðivatnasvæðinu gæti hugsanlega valdið meiri eða minni truflunum og virðist svo sem Sigölduvirkjun gæti þá verið í mestri hættu.

Skömmu eftir síðustu ísöld, fyrir 8–9 þús. áum, rann mikið hraun, svokallað Þjórsárhraun, úr eldstöðvum á Veiðivatnasvæðinu. Hraun rann niður milli Heklu og Búrfells í Þjórsárdal og breiddist þaðan yfir Land, Skeið og Flóa allt til sjávar. Þetta var eitt mesta hraungos sem vitað er um. Á síðustu árþúsundum hafa gos á þessu svæði, sem gjarnan hafa verið með um það bil 500–600 ára millibili, verið öskugos, en ekki hraungos. Öskugos gætu auðvitað valdið truflunum á virkjunarsvæðinu, þó engan veginn í líkingu við hraungos. Heklugos, sem eru margfalt algengari en Veiðivatnagos, virðast ekki valda teljandi truflunum.

Auðvitað ber að hafa hættu af eldgosum sem og öðrum náttúruhamförum í huga við staðarval, hönnun og byggingu raforkuvera sem og annarra mannvirkja. En það má ekki ýkja þessa hættu úr hófi fram. Sjálf Sultartangavirkjunin verður utan marka eldvirkra svæða, eins og þau hafa verið skilgreind. Hún verður reist á jarðmyndun frá kvartertímanum sem er álíka gömul og jarðmyndanir Reykjavíkursvæðisins, tæplega 2 millj. ára. Jaðar hins 8–9 þúsund ára gamla Þjórsárhrauns er aftur á móti á vatnasvæði virkjunarinnar.

Upptök jarðskjálfta á Suðurlandi virðast þræða 5–10 km. breitt belti með stefnu frá Þurá og Hjalla í Ölfusi réttvísandi austur undir Selsund á Landi, eins og segir í skýrslu vinnuhóps Almannavarnaráðs um jarðskjálfta á Suðurlandi og varnir gegn þeim, útgefinni í júlí 1978. Skjálftarnir eru harðastir á þessu tiltölulega mjóa belti, en úr krafti þeirra dregur ört til beggja handa. Jarðskjálftahættan á virkjunarsvæðinu, sem er um það bil 40 km frá þessari sprungu, virðist því lítil, enda engin sjáanleg merki þar um afleiðingar jarðskjálfta. Því má svo bæta við, að stórvirkjanir eru öflugustu mannvirki, sem byggð eru hér á landi, og því harla ólíklegt að á þeim verði verulegar skemmdir af völdum jarðskjálfta.

Þótt Blönduvirkjun sé tímasett á undan Fljótsdalsvirkjun í grg. frv. gæti þetta snúist við ef dráttur yrði á viðunandi samkomulagi við landeigendur á Blöndusvæðinu og ef fljótlega verður ákveðið að setja upp stóriðju á Austurlandi.

Menn hafa deilt nokkuð um það, hvort nauðsynlegt sé að ákveða stóriðju á Austurlandi áður en hafist verður handa um Fljótsdalsvirkjun. Það hefur að mínu mati enn ekki verið sýnt fram á að sú virkjun sé hagkvæm nema fyrsti hluti hennar verði stór, þ. e. um það bil 300 mw. Einn stærsti kostur virkjunarinnar er mikil vatnsmiðlun, en hún er varla inni í myndinni fyrr en á seinni stigum þess virkjunaráfanga sem hér hefur verið talað um, þ. e. 328 mw. virkjunin. Einnig má benda á að byggðalínan flytur varla meira en sem nemur 50 mw., en Fljótsdalsvirkjun er áætluð 328 mw. Nauðsynlegt er því að reisa háspennulínu frá virkjuninni að Sigöldu eða Hrauneyjafossvirkjun til að komast inn á dreifikerfi Landsvirkjunar, og þá þarf að fara yfir eldvirkara svæði, að því er virðist, en virkjunarsvæði Sultartangavirkjunar er. Því má svo bæta við, að það getur varla talist hagkvæmt að framleiða orkuna á Austurlandi ef ætlunin er að nota hana að mestu á Suðvesturlandi eða öfugt, og vísa ég þá til áður umgetinnar skýrslu Orkustofnunar þar um. Eftir því sem ég best veit eru Austfirðingar ekki mótfallnir stóriðju og er því sjálfsagt að kanna sem fyrst alla möguleika á henni.

Í öllum samanburði milli valkosta er nýtingartími mikið atriði. Það er ekki nægilegt að setja upp aflmiklar vélar ef vatn skortir til að knýja þær þegar þörfin er mest. Við höfum áþreifanlega orðið vör við það hina síðustu vetur. Mestur hluti vatnsskortsins undanfarna vetur stafar af mjög minnkandi úrkomu á vatnasvæðum virkjananna síðustu 3–4 árin miðað við meðaltal fyrri ára. Þannig hefur meðalúrkoma áranna 1977–1980 verið 34% minni á Hveravöllum en meðaltal áranna 1971–1976 og við Búrfell hefur úrkoman minnkað á sama tíma um 40%.

Það er því mikið atriði, að vatnsmiðlunarmöguleikar séu miklir. Við þurfum að geta geymt vatn frá sumrinu til notkunar að vetrinum til og við þurfum að geta geymt vatn á milli ára.

Við Blönduvirkjun er vatnsmiðlun áætluð 420 gígalítrar og þá möguleika má undir engum kringumstæðum minnka. Við þurfum ekki á að halda virkjunum sem framleiða orku á sumrin, en standa lítt notaðar að vetri til. Sumir telja að miðlun í Fljótsdal eða á Suðurlandi geti komið í stað miðlunar við Blönduvirkjun. Það er að nokkru en þó afar litlu leyti rétt. Til þess að svo megi verða þarf afl virkjana á Suðurlandi og í Fljótsdal að vera nægilegt að framleiða alla þá raforku sem þörf er fyrir í landinu að vetri til, en þá er þörfin mun meiri en á sumrin. En þá er líka óþarfi að bæta við afli í öðrum virkjunum að sumri til. Þá er miklu ódýrara að auka enn á lítt takmarkaða miðlunarmöguleika t. d. á Suðurlandi. Orkuver, sem aðallega er ætlað að framleiða orku að sumri til, verða því óþörf og allt of dýr.

Við Fljótsdalsvirkjun verður vatnsmiðlun samtals 745 gl. Vatnsmiðlun á Suðurlandi er nú 1140 gl. og áætlanir eru uppi um að auka hana fljótlega um ca. 800 gl., sem nálgast það að vera jafnmikið og núverandi vatnsmiðlun Þórisvatns er. Enn frekari vatnsmiðlun, upp á allt að 1600 gl. þar til viðbótar, er í athugun. Ef allt þetta fer eftir gæti vatnsmiðlun á Suðurlandi orðið hvorki meira né minna en hálft fjórða þúsund gl. Þessi mikla vatnsmiðlun kemur öllum virkjunum á svæðinu til góða því þær nota að mestu sama vatnið hver eftir aðra.

Áætlaður nýtingartími Fljótsdalsvirkjunar er 4480 klst. á ári, Blönduvirkjunar 4520, en Sultartangavirkjunar 6400.

Í mjög stuttu máli má segja að aðalstefnumótun þess frv., sem hér er til umr., sé þessi:

1. Að stefnt skuli að mikilli uppbyggingu orkufreks iðnaðar í landinu.

2. Að Landsvirkjun verði falið að byggja og reka fyrirhugaðar stórvirkjanir hvar á landinu sem þær verða byggðar.

3. Að stórauknar skuli vatnaveitur og vatnsmiðlanir á Suðurlandi.

4. Að strax skuli ráðist í byggingu Sultartangavirkjunar.

5. Að ráðist skuli í byggingu Blönduvirkjunar og Fljótsdalsvirkjunar strax og ákveðnum skilyrðum verður fullnægt.

Herra forseti. Ég leyfi mér að leggja til að þessu frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til iðn. þessarar hv. deildar og til 2. umr.