05.05.1981
Sameinað þing: 79. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 3951 í B-deild Alþingistíðinda. (4006)

268. mál, rekstrar- og afurðalán landbúnaðarins

Fyrirspyrjandi (Eyjólfur Konráð Jónsson):

Herra forseti. Þau lög, sem hæstv. viðskrh. er að brjóta í þessu landi, eru ekki ómerkilegri en svo, að það er sjálf stjórnarskráin. Hún felur framkvæmdavaldinu að hlýða Alþingi sem æðsta valdi í þessu þjóðfélagi. Það er ekkert minna. En það er svo sem ekki fyrsta daginn sem þessi ríkisstj. brýtur stjórnarskrána.

Það var verið að samþykkja hér lög nú fyrir helgina sem lagaprófessor segir að séu skýlaust brot á íslensku stjórnarskránni. Þessi ríkisstj., sem þóttist ætla að varðveita virðingu Alþingis og auka hana, gerir sér lítið fyrir í allra augsýn og brýtur stjórnarskrána hvenær sem því verður við komið.