05.05.1981
Sameinað þing: 79. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 3952 í B-deild Alþingistíðinda. (4008)

268. mál, rekstrar- og afurðalán landbúnaðarins

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Hér virðist stangast á að sögn hæstv. viðskrh. annars vegar vilji Alþingis og hins vegar umsögn Seðlabanka Íslands. Hæstv. ráðh. þarf að taka afstöðu með öðrum á móti hinum. Hvorn viljann hyggst hann virða meira: yfirlýstan vilja Alþingis, eins og hann kemur fram í samþykktri þáltill., eða umsögn Seðlabanka Íslands?

Sé það svo, að vegna ágalla á lögum eða vegna skorts á lagaheimildum sé ekki af hálfu hæstv. viðskrh. framkvæmanlegt að fara að vilja Alþingis nema með lagabreytingum, þá á hann að sjálfsögðu í svari sínu við fsp. að gera Alþingi nánari grein fyrir því, hvaða lögum þarf að breyta, vegna þess að þá er ekki um annað að ræða fyrir Alþingi en gera þær breytingar til þess að ná fram þeirri samþykkt sem hv. Alþingi hefur þegar gert í málinu. Það nær auðvitað ekki nokkurri átt, jafnvel ekki þótt um framsóknarmenn sé að ræða, að þeir geti haft vilja Alþingis að engu þegar hann liggur fyrir.

Í þriðja lagi vil ég taka það fram, að það er nokkuð merkilegt sem kom fram hjá hv. þm. Ólafi Ragnari Grímssyni áðan. Það sýnir hvernig þeir Alþb.-menn og stjórnarsinnar nota Dagblaðið sem sitt einkamálgagn, að lagaprófessorinn Jónatan Þórmundsson kom á fund fjh.- og viðskn. til þess fyrst og fremst að skýra frá áliti sinu á frv. ríkisstj. um verðlagsaðhald o. fl., þar sem hann taldi að ein grein frv. gengi ótvírætt í bága við ákvæði stjórnarskrár og tvær greinar frv. gætu gengið í bága við stjórnarskrá ef framkvæmd þeirra yrði á þann veg sem m. a. mátti skilja á máli hæstv. forsrh. Þetta var aðalerindi prófessors Jónatans Þórmundssonar til fjh.- og viðskn. Alþingis. Og hann var spurður mjög ítarlega út í athugasemdir sínar í þessu sambandi. Hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson sagði ekki aukatekið orð og beindi engri spurningu um þetta mál til Jónatans Þórmundssonar, sat hins vegar nokkuð rauður og þrútinn undir þessum lestri öllum. Þegar Jónatan prófessor var hins vegar að ganga af fundi spurði hv. þm. heldur þykkjuþungur hvort prófessorinn væri með þessu að telja það rétt, sem hv. þm. Geir Hallgrímsson hefði sagt, að með þessu væri verið að stefna að lögregluríki. Prófessorinn mótmælti því, það væri ekki sín skoðun. Eina fréttin, sem Dagblaðið sagði af þessu máli daginn eftir, var, hafði það eftir öruggum heimildum og áreiðanlegum í viðkomandi nefnd, að prófessor Jónatan hefði gengið á fund nefndarinnar til að tjá henni að hann væri andvígur umsögn Geirs Hallgrímssonar um að hér væri á ferð frv. sem mundi gera Ísland að lögregluríki. Það er þá ljóst hvaðan fréttin var komin og hvernig fréttamat er lagt þarna að baki.