10.11.1980
Neðri deild: 13. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 572 í B-deild Alþingistíðinda. (401)

36. mál, tímabundið innflutningsgjald á sælgæti og kex

Iðnrh. (Hjörleifur Guttormsson):

Herra forseti. Ég var ekki á þinginu þegar þetta mál var til umr. hér fyrr, en ég hefði trúlega talið ástæðu til að tala í því máli þá. Nú hefur verið beint til mín fsp. varðandi málið og atriði, sem varða iðnaðinn og má segja að tengist þessu með vissum hætti, og það er skylt að veita nokkur svör varðandi þau efni.

Til að það verði ekki út undan í máli mínu ætla ég að byrja á að svara nokkrum fsp. sem hv. 10. þm. Reykv. beindi til mín varðandi endurskoðun á aðflutningsgjöldum á aðföng iðnaðar, sem boðað var á síðasta sumri að taka ætti til endurskoðunar á vegum iðnrn. og fjmrn. og leiða til lykta á liðnu hausti.

Þetta mál hefur verið til meðferðar alllengi á þessu ári og um það hefur verið höfð samvinna við samtök iðnaðarins, sem hér eiga hagsmuna að gæta, þ. á m. við Félag ísl. iðnrekenda sem skilaði hugmyndum eða tillögum til rn. um viðhorf sín og óskir í þessu efni. Greining á þeim þáttum, sem þarna voru taldir eiga að koma til athugunar og hugsanlegra breytinga varðandi aðflutningsgjöld, fór fram hjá embættismönnum í fjm.- og iðnrn. og það er fyrir nokkru sem þeirri vinnu var að mestu lokið og tillögur þessara embættismanna lágu fyrir mér og fjmrh. Fjmrh. mun hafa vikið að þessu máli fyrr í umr. og greint frá því að þetta mál væri nánast á lokastigi af sinni hálfu. Ég hef rætt þetta efni við hann og borið fram viðhorf og óskir frá mínu rn. hvað þetta snertir og ég vænti þess að það líði ekki á löngu þar til viðbrögð fjmrn. liggja fyrir í þessu efni.

Um er að ræða endurskoðun á tiltekinni auglýsingu um aðflutningsgjöld. Mig minnir hún vera sú sem í gildi hefur verið, númer 184, en segi það með fyrirvara. Það er ekki mér vitanlega á döfinni að flytja sérstakt frv. sem varðar þessi efni. Á því er ekki talin þörf, að ég best veit, heldur yrði um að ræða breytingu á viðkomandi auglýsingu þar sem tilteknar vörutegundir, sem hafa verið tollaðar til þessa eða borið aðflutningsgjöld, eru teknar inn í auglýsinguna og þá undanþegnar aðflutningsgjöldum. Ég hygg að það sé misskilningur hjá hv. 10. þm. Reykv. að fjmrh. hafi boðað sérstakt frv. um þetta efni. Á því á ekki að vera þörf, heldur mun rn. geta með ákvörðun af sinni hálfu breytt þessu með endurbirtingu eða viðauka við viðkomandi auglýsingu. Þetta var meginefnið í fsp. hv. þm.

Hann vék hér að máli, sem stundum hefur komið inn í umr. hér á Alþ. þegar rætt hefur verið um samkeppnisaðstæður íslensks iðnaðar, þ.e. sjónvarpsauglýsingar þar sem auglýst eru erlend vörumerki viðkomandi aðilum vafalítið að kostnaðarlitlu miðað við þann kostnað sem innlendir framleiðendur mega bera í sambandi við gerð og flutning á auglýsingaefni. Ég tek undir það, að þetta mál þarf að líta á og athuga hvort ekki sé réttmætt að reisa nokkra rönd við þessum auglýsingum, sem fyrst og fremst er um að ræða í sjónvarpi, með því að taka af þeim gjöld sem kannske gætu tengst einhverjum létti fyrir innlenda framleiðslu eða innlenda framleiðendur til að koma hliðstæðu efni á framfæri. Sjálfsagt er erfitt að finna fyllsta réttlæti í þessum efnum sem öðrum, en hér er um að ræða þátt sem skiptir ótvírætt máli í sambandi við tilkostnað framleiðsluiðnaðar okkar og aðstöðu á innanlandsmarkaði.

Þá vil ég víkja að því máli, sem er til umr., með nokkrum orðum og að þeim sjónarmiðum sem ég hef heyrt koma fram hér við umr. þar að lútandi.

Það gerðist um síðustu áramót, að innflutningur á sælgæti og skyldum vörum var gefinn frjáls eftir að hafa verið heftur um langt skeið. Að vísu mun þetta formlega ekki hafa átt að taka gildi fyrr en 1. apríl, en ég tel mig hafa vissu fyrir því, að í reynd hafi það gerst strax um áramótin eða upp úr áramótum, að þessum varningi var hleypt inn tollfrjálsum. Það sýndi sig í kjölfarið að sala á innlendri framleiðslu dróst stórum saman og var það út af fyrir sig ekki undrunarefni. Umboðsmenn hinnar erlendu framleiðslu höfðu búið sig vel undir þessi tímamót og voru duglegir við að dreifa varningi sínum og verulegt nýjabrum að honum fyrir ýmsa. Salan á honum var allmikil og alveg sérstaklega mikið safnaðist upp í verslunum af þessu að auki. Þessi framleiðsla hefur því eflaust orðið fyrirferðarmeiri í hillum verslana en hin innlenda framleiðsla sem þarna mætti stóraukinni samkeppni.

Þegar komið var fram undir vor fóru að berast háværar óskir frá framleiðendum í þessari grein um að einhver rönd yrði reist við þessum innflutningi. Voru þær áherslur þó nokkuð misjafnar eftir fyrirtækjum. En um miðjan maímánuð lá það fyrir, af 300 manns, sem starfa við sælgætisiðnað og kexframleiðslu, hefði 78 manns verið sagt upp störfum og margir spáðu því að við blasti hrun þeirra fyrirtækja sem í hlut ættu ef ekkert væri aðhafst. Iðnrn. fékk einnig erindi frá Félagi ísl. iðnrekenda, þar sem flestir framleiðendur í þessari grein eiga aðild, með óskum um að á þessum málum yrði tekið. Var settur upp vinnuhópur til þess að undirbúa tillögur um aðgerðir og hversu með skyldi farið. Starf þessa vinnuhóps dróst til muna lengur en ég hefði kosið og menn greindi nokkuð á um hversu við skyldi bregðast. Upp komu sterkar raddir um að setja á varanlega tollvernd í þessari grein, eins og tillögur hafa komið fram um áður, t.d. á þinginu veturinn 1977–1978 þegar slíkt frv. var flutt hér inn í þingið. En sá böggull fylgdi skammrifi að það var rökstutt með sérstökum ákvæðum sem heimila slíka tollálagningu samkvæmt samningum við Efnahagsbandalag Evrópu, að jafnhliða skyldi hætt niðurgreiðslum á aðföngum þessarar framleiðslu, landbúnaðarafurðum sem til hennar er notuð, mjólkurdufti og fleiri þáttum sem þar koma til. Á þetta hafa framleiðendur fyrr og síðar ekki viljað heyra á minnst, a.m.k. fáir í þeirra hópi, og ég hef ekki talið rétt að flytja tillögur um þetta efni inn í þingið. En það, sem um var rætt í viðkomandi starfshópi á liðnu sumri, var m.a. þetta atriði þar sem fram komu enn á ný tillögur um slíkan varanlegan toll upp í 40%. Ég held að ég ljóstri engu upp þó að ég greini frá því, að þær hugmyndir hafa verið fram bornar, að ég hygg fyrr og síðar, öðru fremur frá viðskrn.

Ég hef litið svo til, að það væri ekki skynsamlegt fyrir þessa iðngrein að leggja sig undir þá öxi að búa við óvissu um verð á aðföngum sínum og þá gæti umrædd tollvernd orðið tvíræður ávinningur. Því var það, að þegar mismunandi tillögur lágu fyrir um meðferð þessa máls gerði ég þá ákveðnu tillögu í ríkisstj. að við notuðum okkur heimild samkvæmt 20. gr. EFTA-samningsins um tímabundna tollvernd, þ.e. 3. liður 20. gr. sem kveður á um að aðildarríkjum að EFTA sé heimilt, til þess að koma í veg fyrir skyndilegt hrun eða hrörnun og versnandi aðstæður í tilteknum greinum, að grípa til tímabundinna verndaraðgerða. Það varð niðurstaðan að sett voru brbl. sem gengu út frá þessu eftir að fyrir lá að EFTA-ráðið gat fellt sig við þessa aðgerð og hafði hlýtt á rökstuðning íslenskra stjórnvalda þar að lútandi. Eins og hér hefur komið fram og frv. ber með sér er um 18 mánaða skeið að ræða.

Í sambandi við þetta mál þegar þessi brbl. voru sett komu fram í fjölmiðlum, dagblöðum, mjög misjafnar túlkanir á þessu máli og það var látið að því liggja með mjög áberandi hætti að hér væri jafnvel um brot að ræða á samningum okkar, hér væri um óeðlileg inngrip að ræða, óeðlilega tollvernd og hér væri verið að flytja mál sem Félag ísl. iðnrekenda væri mótfallið. Þessar mistúlkanir voru leiðréttar síðar, en ég er ekki viss um að almenningur hafi áttað sig á eðli málsins. Háværar ályktanir frá innflytjendum og fulltrúum verslunarinnar komu vissulega ekki á óvart, en þær blönduðust allar saman við ályktanir sem studdu þessa aðgerð. Ljóst var að þarna stönguðust hagsmunir á, annars vegar innlendra framleiðenda og viðhorf Félags ísl. iðnrekenda og hins vegar viðhorf verslunarinnar.

Jafnhliða þessari tímabundnu tollvernd fyrir íslenskan sælgætisiðnað var ákveðið í samvinnu við samtök framleiðenda að ráðist yrði í sérstakt þróunarverkefni í iðngreininni til þess að þessi tími yrði hagnýttur eftir föngum til að búa fyrirtækin undir að geta staðist samkeppnina að þessu verndartímabili loknu. Þetta þróunarátak stendur nú yfir. Veitt var nokkur upphæð af iðnþróunarfé til að styðja við þetta þróunarverkefni. Ég vænti þess, að þessi aðgerð í heild, 18 mánaða tollverndin ásamt því þróunarátaki sem í gangi er, verði til þess að hlutur þessarar iðngreinar verði betri en ella hefði orðið þegar sælgætis- og kexiðnaðurinn á nýjan leik stendur frammi fyrir óheftri samkeppni.

Mér finnst það vera dálítið undarlegur málflutningur sem heyra mátti frá hv. þm. Ragnhildi Helgadóttur áðan í umr. þar sem hún var að leggjast gegn þessum aðgerðum, ef ég hef skilið þm. rétt, og það með þeim rökum að þarna væri verið að ganga á svig við samninga í þessum efnum. Svo er alls ekki. Þm. fann að því, að þær tolltekjur, sem þarna koma inn og renna í ríkissjóð samkv. frv., rynnu ekki alfarið og óskipt til að styðja og styrkja viðkomandi grein, að styrkja iðnaðinn og styrkja viðkomandi framleiðslu. Ég tel rétt að fram komi að þá fyrst mundi heyrast hljóð úr horni, að ég hygg, frá Fríverslunarsamtökunum sem við erum aðilar að, ef það lægi fyrir að jafnhliða því, sem við erum að skjóta skildi yfir tiltekna iðngrein með tímabundnum verndaraðgerðum, værum við að dæla beinum styrkjum af þeim tekjum, sem inn kæmu inn í viðkomandi grein. Það er samkvæmt túlkun í þeim samningum óheimilt og siðabrot, að mér skilst. Við höfum a.m.k. fengið að heyra það, við sem í þessum málum höfum unnið.

Ég vil í því sambandi nefna þegar Alþfl. stjórnin sáluga vann það óhappaverk — eitt af mörgum — að breyta tillögum varðandi ráðstöfun á aðlögunargjaldi ársins 1979 og í stað þess að verja þeim tekjum til almennra undirstöðuverkefna í iðnþróun, til stuðnings við slíkt verkefni, var brugðið á það ráð að úthluta því fjármagni til fyrirtækja beint í kassann sem eins konar rekstrarstyrkjum. Ég gæti útvegað hv. þm. Ragnhildi Helgadóttur bréf sem bárust í framhaldi af þessu frá Fríverslunarsamtökum Evrópu þar sem aðgerðum Alþfl.stjórnarinnar var mótmælt kröftuglega. Þær minntu reyndar nokkuð á fleira af skyldu tagi sem sú ríkisstj. stóð fyrir skömmu fyrir kosningarnar í des. 1979 í sambandi við afsal fríðinda, að mig minnir, til þeirra sem ríkisstj. skipuðu. Þarna var sem sagt um glaðning að ræða, eins konar jólagjöf í kassann til íslenskra iðnfyrirtækja sem vissulega voru mörg hver sjálfsagt ekkert ofhaldin þá og tóku fagnandi við meðgjöf á þessum tíma. Þessari stefnu var breytt á yfirstandandi ári þannig að þarna var um tímabundið frávik frá þeirri stefnu að ræða sem lá til grundvallar þegar aðlögunargjaldið var á sett. En einmitt þessi flumbrugangur Alþfl.-stjórnarinnar hefur að mati viðskrn. nú valdið því, að mér heyrist, að hæstv. viðskrh. treystir sér illa til að fylgja fram tillögum sem ég hef borið fram um að framlengja þetta aðlögunargjald, þó í breyttu formi, með því að lækka það í þrepum og láta það renna út við lok ársins 1982. Ég vil þó enn vænta þess, að á því máli verði tekið, því að það er mín skoðun að það mál sé hægt að sækja og vinna gagnvart þeim samtökum, sem við eigum þarna aðild að, og það sé bæði nauðsynlegt og réttmætt að láta á það reyna.

Við eigum ekki að vera svo lítilþægir og feimnir í sambandi við þátttöku okkar í alþjóðasamstarfi að við hagnýtum okkur ekki þær heimildir sem slíkir samningar veita íslenskum stjórnvöldum til svigrúms og stuðningsaðgerða við atvinnulíf í landinu, sem mætir nú og hefur verið að mæta á liðnum árum nýjum og erfiðum aðstæðum. Það er mín skoðun, að íslensk stjórnvöld hafi á þeim tíma, sem liðinn er frá því að ákvörðun var tekin um aðild að EFTA, ekki stutt svo við bakið á íslenskri iðnþróun sem vera skyldi. Þar hefur að vísu verið reynt að bæta úr með ýmsum hætti á liðnum misserum, um það leyti sem þessi tíu ára aðlögunartími var að renna út, og ég tel að sitthvað hafi þar áunnist, en það þarf betur að gera í þessum efnum. Það er ekki von til þess, að sú eðlilega krafa og óskir, sem heyrast hér oft í þinginu, um iðnþróun í landinu, og ekki bara á þéttbýlissvæðinu við Faxaflóa, heldur um land allt, verði að veruleika nema pólitískur skilningur fáist á þeim þörfum og aðstæðum sem skapa þarf iðnaði í landinu til þess að hann nái að vaxa, — aðstæðum sem séu a.m.k. ekki lakari en öðrum atvinnuvegum eru búnar. En það þarf vissulega fleira að koma til en aðbúnaður stjórnvalda. Það þarf að sjálfsögðu að koma til áhugi og átaka af hálfu þeirra, sem í iðnrekstri standa, og stórhugur til þess að færast eitthvað í fang og reyna að ná þeim árangri sem frekast er unnt á þessu sviði.

Hv. þm. Sighvatur Björgvinsson vék hér að sælgætisiðnaðinum sérstaklega með hliðsjón af launakjörum og minntist á launakjör í framleiðsluiðnaði okkar í því sambandi. Það er ofur eðlilegt að það sé dregið fram, að mikið af framleiðsluiðnaði okkar býður nú alls ekki þau kjör sem þyrfti, ekki þau kjör sem raunverulega geta talist lífvænleg. En við eigum ekki alfarið að draga af því þá dóma, að við eigum að hverfa frá viðkomandi iðngreinum, við eigum að leggja upp laupana í þeim. Það getur vissulega orðið niðurstaðan ef þær ekki ná að þróast, auka framleiðni sína, bæta rekstraraðstæður og skila meira til skipta til þess fólks sem í framleiðslunni starfar. Sú fríverslun, sem við erum þátttakendur í, hlýtur auðvitað að knýja á um meiri og minni breytingar í sambandi við iðnrekstur okkar í landinu. Það getur ekki verið neitt sjónarmið út af fyrir sig, að það megi ekkert fyrirtæki fara á hausinn, leggja upp laupana, en það þarf þá jafnframt að stuðla að því, að annar rekstur geti komið í staðinn og það geti orðið eðlileg þróun á grunni þeirra greina, sem fyrir eru, jafnframt því sem við reynum að hlúa að og búa að nýiðnaði í landinu.

Það hefur verið rætt fyrr á þessu þingi um atvinnuþróun og þær hugmyndir sem Alþfl. hefur fram borið um stórfellt átak til aukningar á orkufrekum iðnaði á næstu árum, eins og mig minnir að það sé orðað í þáltill þeirra. Ég hef tekið þátt í umr. þar að lútandi og túlkað þau viðhorf að eðlilegt sé og sjálfsagt að við horfum á þróunarkosti á þessu sviði sem öðrum í atvinnulífi okkar, en við eigum að hugsa um íslenskt forræði og íslenskan atvinnurekstur í þeim greinum sem öðrum. En við eigum ekki að afskrifa þar með annan framleiðsluiðnað í landinu og líta svo til, að sú iðnþróun, sem hér eigi að verða, standi nær einvörðungu, ef dæma má af málflutningi þeirra sem fyrir stóriðjuátakinu tala hér, beinast að slíku. Þá erum við, að ég tel, með rangar áherslur. Ég hef þá trú, að það sé fjölmargur almennur framleiðsluiðnaður í landinu nú þegar, sem getur náð að þróast og skila mannsæmandi kjörum til þeirra sem við hann vinna, og auk þess ýmsar greinar sem eiga eftir að vaxa úr grasi á því sviði og veita atvinnu.

Herra forseti. Ég ætta ekki að orðlengja þetta frekar hér, en ég vænti þess, að það frv., sem hér er til umr., nái fram að ganga og menn átti sig á þeim forsendum sem þar liggja að baki og menn sýni hug til þess að nýta þær heimildir sem við höfum samkvæmt samningum um fríverslun til að gera iðngreinum okkar fært að bregðast við nýjum og skyndilegum aðstæðum, eins og um var að ræða þegar sælgætisiðnaðurinn átti í hlut. Hins vegar fer að því að koma að við verðum komnir út úr þessum farvegi. Það dregur að því að rök um aðlögun og aðlögunartíma bíta ekki, og ég býst ekki við að þau mál verði mörg af þessu tagi sem flutt verði í þinginu. Það eru fleiri málefni og vandi annarra iðngreina sem hafa komið til umræðu og verið talsvert um rædd, þ. á m. í íslenskum húsgagna- og innréttingaiðnaði, og þar hafa verið raddir um að reyna svipaða teið til tímabundinnar aðlögunar eins og hér er um að ræða. En ég er ekki viss um að það verði niðurstaða þeirra, sem þar eru þolendur mjög aukinnar samkeppni, að þeir óski eftir tímabundinni tollvernd af hálfu stjórnvalda. Þar er unnið að þróunarátaki sem talsverðar vonir eru bundnar við, og það þróunarátak er m.a. stutt af iðnþróunarfjármagni sem til ráðstöfunar er í krafti aðlögunargjalds sem á var lagt á síðasta ári.