05.05.1981
Sameinað þing: 79. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 3954 í B-deild Alþingistíðinda. (4012)

268. mál, rekstrar- og afurðalán landbúnaðarins

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Eins og allir þm. mega sjá geisla bæði geðprýðin og stillingin af hv. þm. Ólafi Ragnari Grímssyni og fer mér nú ekki að verða um sel. Ef hann er svona álits þegar hann er geðprúður, hvernig skyldi hann þá verða ef honum rennur í brjóst einhver smáreiði?

Ég ætla bara, herra forseti, að koma því á framfæri, að það eru ekki stjórnmálaflokkar sem senda menn til þess að gefa þingnefndum umsagnir. Þangað koma menn annaðhvort beðnir af þingnefndunum sjálfum og formönnum nefndanna eða að eigin frumkvæði. Ég vil aðeins taka það fram, að prófessor Jónatan hafði gert okkur Alþfl.-mönnum viðvart um að hann áliti þessi tilteknu atriði frv. ekki samræmast stjórnarskrá, og mér er kunnugt um að hann hafi gert það sama við ýmsa núverandi stjórnarliða. En fyrst við erum að tala um afurða- og rekstrarlán, herra forseti, þá vek ég aðeins athygli manna á einhverjum ókyrrleika sem er nú yfir hv. þm. Ólafi Ragnari Grímssyni og öðrum Alþb.-mönnum. Það skyldi nú ekki vera að það stæði í þeim stóriðjufrv. hans Hjörleifs?