05.05.1981
Sameinað þing: 79. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 3955 í B-deild Alþingistíðinda. (4015)

268. mál, rekstrar- og afurðalán landbúnaðarins

Pétur Sigurðsson:

Herra forseti. Þessi umr. hefur beinst í alleinkennilega átt. En það, sem vekur mesta furðu mína, er að hæstv. viðskrh. skuli ekki standa upp og svara þeirri spurningu sem hér var beint til hans, hvort hann og þá jafnframt aðrir hæstv. ráðherrar ríkisstj. taki yfirleitt tillit til meirihlutavilja þingsins. Það, sem að baki spurningu hv. þm. Eyjólfs Konráðs lá, var auðvitað vilji Alþingis Íslendinga. En það hefur réttilega verið bent hér á að sú mótun vinstri flokkanna, sem hafa verið við stjórn landsins á síðustu misserum, að flytja til framkvæmdavaldsins vald Alþingis, hafi orðið til þess, að vandaðir vísindamenn í lögum eru farnir að veita þessu athygli og eru farnir að vara þingnefndir við. Það er ekki aðeins í þessari hv. nefnd sem hér var vitnað til áðan, að þetta hefur gerst, heldur hefur þetta líka gerst í fleiri þingnefndum og í fleiri málum, að varað hefur verið við því, að frumvörp og brbl. ríkisstj. væru farin að brjóta sjálfa stjórnarskrá íslenska lýðveldisins.

Ummæli hv. þm. Ólafs Ragnars Grímssonar og prófessors við Háskólann munu að sjálfsögðu gera það að verkum, að innan Háskóla Íslands hlýtur að koma upp sú krafa, að þessi hv. prófessor segi af sér störfum þar þegar hann ber samstarfsmanni sínum á brýn að hann sé sendimaður sem taki við fyrirskipunum stjórnmálamanna og komi með þær fyrirskipanir í sínu nafni og þá um leið stofnunarinnar, Háskóla Íslands, inn í þingnefndir Alþingis. Þetta er auðvitað langt fyrir neðan soramark, en það er eðlilegt að þessi hv. þm. hafi þessi orð um prófessor Jónatan Þórmundsson. Prófessor Jónatan vildi nefnilega aldrei stansa við á Möðruvöllum. (Gripið fram í.) Mér finnst málið alveg gefið, að það, sem stundum virðist æsingaumræður hjá öðrum, er hjá þessum hv. þm. þegar hann er hvað rólegastur, þá er honum hvað mest niðri fyrir. Og það, sem kom fram í lýsingu hans á sjálfum sér á þessum umrædda nefndafundi í Ed., þegar hann sat þar rauður og þrútinn og mátti vart mæla meðan prófessor Jónatan tók í hann og aðra stjórnarþm., það var af því að hann var nærri því að springa, ekki af vonsku, heldur vegna þess að hann mátti vart vatni halda af aðdáun sinni á hæstv. forsrh. Íslands.