05.05.1981
Sameinað þing: 79. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 3955 í B-deild Alþingistíðinda. (4016)

268. mál, rekstrar- og afurðalán landbúnaðarins

Viðskrh. (Tómas Árnason):

Herra forseti. Umr. um þessa fsp. og svari við henni hefur nú verið drepið nokkuð á dreif og rætt um ýmsa aðra hluti. Ég skal ekki gera það að umræðuefni að öðru leyti en því, að ég er þeirrar skoðunar, að stjórnarskrá hafi ekki verið brotin með setningu umræddra laga. En um það er deilt og er þá ekki annað en að bera það undir dómstóla og láta þá dæma um það, hvort stjórnarskrá hefur verið brotin. Ef þeir komast að þeirri niðurstöðu, þá er náttúrulega greinin lögleysa. Ef þeir komast hins vegar að þeirri niðurstöðu, að svo hafi ekki verið, þá standa lögin. Þarna er opinn möguleiki til að binda endi á þessa deilu.

Hv. þm. Árni Gunnarsson gerði í stuttu og glöggu máli grein fyrir þeim viðhorfum sem komu fram í nefndinni sem fjallaði sérstaklega um þetta mál. Það er ákaflega eðlilegt að svona mál sé borið undir bankana vegna þess að þeir eru þær stofnanir sem fjalla um þessi lánamál. Það er ákaflega eðlilegt. Og mér finnst alveg út í hött að tala um að menn velji á milli þess að hlýða fyrirmælum Alþingis og Seðlabankans í þessu máli.

Ég skal svara þeirri fsp., sem hv. þm. Sverrir Hermannsson bar upp hér áðan, stutt og laggott þannig, að auðvitað á ríkisstj. að framfylgja fyrirmælum Alþingis. Það er engin spurning um það í mínum huga. En það getur verið misjafnlega auðvelt. Það getur legið misjafnlega beint fyrir að gera það því að þessi fyrirmæli eru alla vega eins og þm. þekkja.

Ég vil aðeins endurtaka það sem ég sagði áður, að ég vinn að því, og mun áfram vinna að því að framkvæma þessa þál. þannig að tryggja megi að tilgangi hennar verði náð. Það vil ég endurtaka og undirstrika. Ég hef sagt hér áður að það hefur verið bent á leið til þess sem margir telja að sé fullkomlega fær og muni þýða framkvæmd tillögunnar í reynd. Og ég vil endurtaka þetta, að ég mun vinna þannig að þessu máli. Hv. þm. verður svo sennilega í þriðja sinn að spyrja, kannske á næsta þingi, hvernig hafi miðað í þessu máli.