05.05.1981
Sameinað þing: 79. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 3958 í B-deild Alþingistíðinda. (4021)

223. mál, fyrirmæli Ríkisbókhalds

Fyrirspyrjandi (Eiður Guðnason):

Herra forseti. Ég hef leyft mér fyrir alllöngu að bera fram á þskj. 439 fsp. til hæstv. fjmrh. um það, hvar eigi stoð í lögum sú ákvörðun Ríkisbókhalds að ekki skuli nota aura í tilteknum greiðslum á vegum ríkisins. Nokkru fyrir áramótin síðustu, í tengslum við myntbreytinguna, var samþykkt hér á hinu háa Alþingi frv. til l. um minnstu mynteiningu við álagningu og innheimtu opinberra gjalda. Þar segir svo í 1. gr., með leyfi forseta:

„Allir skattar og opinber gjöld svo og greiðslur til opinberra aðila fyrir hvers konar leyfisbréf, skírteini, skráningar og vottorð, hvort sem þær eru innheimtar samkv. aukatekjulögum eða öðrum heimildum, skulu lögð á í heilum krónum þannig að lægri fjárhæð en 50 aura skal færa niður í næstu heilu krónu, en 50 aura eða hærri fjárhæð skal hækka upp í næstu hellu krónu.“

Í aths. við þetta stjfrv. segir að fyrirsjáanlegt sé að breytingar á verðgildi íslensks gjaldmiðils muni að óbreyttum lögum hafa í för með sér veruleg vandkvæði við álagningu og innheimtu opinberra gjalda. Síðan segir að með tilkomu aura og þar af leiðandi kommu í fjárhæðum verði óhjákvæmilegt að endurskipuleggja allt tölvubókhaldskerfi ríkisins ef ekki verði gripið til sérstakra ráðstafana, þess vegna sé lagt til að álagning, innheimta og greiðslur opinberra gjalda skuli fara fram í heilum krónum frá og með 1. jan.

Í þessu frv., sem ég hef nú vitnað til, er eingöngu fjallað um álagningu og innheimtu opinberra gjalda og greiðslur til opinberra aðila fyrir nánar tiltekin atriði. En síðan þessi lög voru samþykkt hefur það gerst, að Ríkisbókhaldið á vegum fjmrn. hefur sent úr umburðarbréf um greiðslumeðferð gjaldkera ríkisins vegna gjaldmiðilsbreytingarinnar. Þar segir m. a. í þessu bréfi frá Ríkisbókhaldi:

„Samkv. frv. til l. um minnstu mynteiningu við álagningu og innheimtu opinberra gjalda á m. a. að afgreiða tilteknar kröfur í heilum krónum, en ekki með aurum.“ Síðan segir: „Auk framangreindra reglna, sem frv. gerir ráð fyrir að gildi frá og með 1. jan. 1981, hefur verið ákveðið að nota ekki aura í greiðslum af hálfu ríkisins í eftirfarandi tilvikum“ — og síðan er það talið upp: uppgjör launa, greiðsla tryggingabóta, greiðslur með tékkum sem unnir eru í tengslum við úrvinnslu í fylgiskjalakerfi í tölvubókhaldskerfi Ríkisbókhalds — og enn fremur segir: „Ríkisbókhald telur jafnframt nauðsynlegt að aðrar tékkagreiðslur af hálfu ríkisins séu eingöngu í heilum krónum.“

Spurt er um það, hvar eigi stoð í lögum þessi ákvörðun Ríkisbókhaldsins. Raunar væri rétt að bæta við þeirri spurningu, fyrst þetta er afstaða Ríkisbókhalds og þar með fjmrn.: Hvers vegna í ósköpunum er þá yfirleitt verið að hafa fyrir því að slá aura ef ríkið ætlar ekki að nota aura í viðskiptum sínum við þegnana? Hvers vegna er þá ætlast til að almenningur geri það og hvers vegna var þá krónan ein ekki látin duga? Því er meginspurning mín sú, hvar þessi ákvörðun Ríkisbókhalds hafi stoð í lögum og þar með fjmrn. þar sem segir: „Auk þess hefur verið ákveðið.“ Ef hægt er að gera þetta með einfaldri ákvörðun Ríkisbókhalds, hvers vegna þurfti þá lagaheimild varðandi álagningu opinberra gjalda. Það hefði eftir þessu verið nóg að Ríkisbókhald eða fjmrh. eða fjmrn. tæki einfalda ákvörðun um að nota ekki aura. En nú er það ekki svo,hjá gjaldkerum þeirra stofnana sem hér um ræðir, að aurar séu ekki notaðir, heldur verða gjaldkerar þessara stofnana að færa sérstaka aurareikninga. Hér er því síður en svo um einföldun að ræða. Og auðvitað er fráleitt og fjarri öllu lagi að þegar þessi myntbreyting á sér stað og aurar fá aftur margfalt gildi skuli ríkið hreinlega ákveða að nota þá ekki. Maður, sem sendir ríkissjóði reikning upp á 100.45 kr. — 45 gamlar krónur — fær einfaldlega ávísun til baka upp á 100 kr. Ríkið kýs að borga ekki þessa 45 aura. Ég efast satt að segja um að þessi greiðsluaðferð hafi stoð í lögum.