05.05.1981
Sameinað þing: 79. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 3962 í B-deild Alþingistíðinda. (4025)

389. mál, fréttasendingar til skipa

Menntmrh. (Ingvar Gíslason):

Herra forseti. 1. liður fsp. er um það, hver sé kostnaður Ríkisútvarpsins vegna morsefréttasendinga til skipa árið 1979 og 1980, og síðan er 2. liðurinn um hver launakostnaðurinn vegna þessarar þjónustu hafi verið og hvernig hann skiptist á milli deilda og í þriðja lagi hver sé áætlaður kostnaður af stuttbylgjusendingum frétta á þessu ári.

Ég skal nú svara þessum spurningum bara til að byrja með alveg beint eins og málið liggur fyrir tölulega. Hvað 1. liðinn snertir, um það hver kostnaður Ríkisútvarpsins vegna þessara sendinga hafi verið, þ. e. til skipanna, 1979 og 1980, þá er svarið, að árið 1979 var þessi kostnaður alls 1 494 297 kr., en árið 1980 var þessi kostnaður 3 522 805 kr.

Um 2. liðinn, hver launakostnaðurinn hafi verið vegna þessarar þjónustu hjá Ríkisútvarpinu, er því til að svara, að 1978 var launakostnaðurinn 1 193 759 kr., en 1980 var þessi launakostnaður 522 805 kr.

Og svo er þriðji liðurinn, það er auðvelt að svara honum, hver væri áætlaður kostnaður við stuttbylgjusendingar frétta árið 1981. Svarið er einfaldlega: Það er áætlað 12 millj. gkr. eða 120 þús. nýkr.

Það, sem ég hef nú sagt hér og lesið upp, eru raunverulegar tölur um útgjöld Ríkisútvarpsins af sendingum frétta til skipa á morsi og áætlaðar tölur vegna stuttbylgjuútvarps á þessu ári. Að því leyti til má segja að svarað hafi verið fsp, hv. þm. eins og þær liggja fyrir. En ég vil taka það fram, að málið er ekki svona einfalt, og það veit ég að hv. fyrirspyrjendur vita einnig.

Menn taka vafalaust eftir því, að morsesendingarkostnaðurinn fyrir árin 1979 og 1980 er ekki hár í tölum talið ef lítið er á þessar upphæðir sem ég var að nefna. En hér liggur miklu meira á bak við. Ég vil benda á það, að sá kostnaður, sem ég var að telja upp, er nær eingöngu launakostnaður á fréttastofu við að semja fréttir og skrifa þær á telexstrimil til sendingar upp í Gufunes. Hins vegar kemur ekki fram í þessum tölum neinn verulegur kostnaður við morsesendingarnar frá loftskeytastöðinni í Gufunesi, einfaldlega vegna þess að Ríkisútvarpið hefur á þessu tímabili, sem um er spurt, aðeins greitt Landssímanum 300 þús. gkr. fyrir þessi störf, þ. e. einn mánaðarreikning fyrir þessa þjónustu á árinu 1979, fyrir janúarmánuð 1979. Þess vegna verða þessar tölur svona lágar. Síðan hafa staðið deilur um þessi gjöld milli Ríkisútvarpsins og Landssímans.

Í byrjun árs 1979 stórhækkaði Landssíminn gjald fyrir þá þjónustu við sjómenn að senda fréttir útvarpsins á morse um Gufunesradíó. Þessu vildi útvarpið ekki una.

Því voru morsesendingar frétta frá Gufunesi ærið slitróttar á árinu 1979, þ. e. framan af árinu. Þessar sendingar hófust aftur reglubundið, en þó miklu færri en áður, að ég hygg, 15. ágúst 1979. Þáv. menntmrh., Ragnar Arnalds, sem jafnframt var samgrh. og fór því með yfirstjórn beggja þeirra stofnana, Ríkisútvarpsins og Landssímans, sem áttu í deilum, ákvað að morsesendingarnar skyldu halda áfram frá Gufunesi og að gjaldið yrði innheimt hjá útgerðum skipanna sem í hlut áttu. Þannig stóðu þessi mál fram til 1. des. á síðasta ári, að Ríkisútvarpið lét fréttastofu sína semja fréttir og þær voru morsaðar út í Gufunesi á vegum Landssímans. Hins vegar fór svo að útgerðaraðilar neituðu með öllu að greiða loftskeytakostnaðinn. Þá stöðvaði Landssíminn sendingarnar 1. des. 1980 og þannig standa sakir nú.

Ég hlýt að benda á það, að Ríkisútvarpið stöðvaði ekki þessar fréttasendingar 1. des. Það gerði Landssíminn sem rekur Gufunesradíó. Ríkisútvarpið stóð við sínar skyldur samkv. því fyrirkomulagi sem þáv. menntmrh. og samgrh. kom á 15. ágúst 1979. Og það mun ekki standa á því af minni hálfu, að fréttastofu útvarpsins verði áfram falið að sjá um samningu frétta til sendingar um Gufunesradíó til skipa sem hafa loftskeytabúnað. Ég tel hins vegar ekki ótvíræða skyldu Ríkisútvarpsins að taka þátt í beinum útsendingarkostnaði frá Gufunesstöðinni á hverju sem gengur.

Ég vil geta þess, að fulltrúar Farmanná- og fiskimannasambands Íslands og Félags ísl. loftskeytamanna hafa nýlega rætt þessi mál við mig. Ég gerði þeim grein fyrir því, að Ríkisútvarpið ræki ekki útvarpsstöð í Gufunesi, heldur væri það Landssíminn sem ræki þar loftskeytastöð, þ. e. fjarskiptamiðstöð við skip sem hafa loftskeytaútbúnað. Ég skýrði þeim frá því, að ég teldi að um fréttasendingar til skipa gegnum Gufunesradíó ætti að vera samvinna milli Ríkisútvarpsins og Landssímans sem reist væri á þeirri verkaskiptingu að Ríkisútvarpið léti semja fréttirnar og senda þær á fjarrita upp í Gufunes og greiddi þann kostnað sem því fylgdi, en síðan tæki Landssíminn að sér að senda fréttirnar út gegnum Gufunesradíó og stæði undir kostnaði þannig að hann væri Ríkisútvarpinu óviðkomandi. Ég tel þessa verkaskiptingu eðlilega og er fús til að vinna að lausn þessa deilumáls á þeim grundvelli. — Vegna þessarar fsp. vildi ég láta þetta koma sérstaklega fram, vegna þess að það er nauðsynlegt til skýringar á þeim svörum sem ég hef gefið beint við fsp. hv. þm.

Ég skil vel afstöðu sjómanna í þessu máli. Ég skil vel óskir þeirra og kröfur um að fá daglegt fréttayfirlit sent frá Gufunesradíói í formi morseskeyta. En það er ekki sanngjarnt né eðlilegt að Ríkisútvarpið greiði allan kostnað við þessar sendingar. Þar verða fleiri aðilar að koma til. Fjárhagur Ríkisútvarpsins um þessar mundir leyfir ekki hvað sem er í rekstrarútgjöldum og aukaverkum eins og öllum er vel kunnugt.