05.05.1981
Sameinað þing: 79. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 3963 í B-deild Alþingistíðinda. (4026)

389. mál, fréttasendingar til skipa

Fyrirspyrjandi (Pétur Sigurðsson):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. menntmrh. fyrir mjög greinagóð svör. Að sjálfsögðu var ekki ætlan okkar fyrirspyrjenda með þessum fsp. okkar að efna á einn eða annan hátt til neinna deilna við hann um þessi mál. Og ég endurtek þakkir mínar einmitt vegna þess að hæstv. ráðh. virðist hafa sett sig vel inn í málin og er búinn að gera sér fulla grein fyrir því, í hverju vandinn liggur og jafnvel hvernig megi leysa hann.

En þarna kemur enn einu sinni upp sú staðreynd sem við hér á Alþingi verðum að horfast í augu við, að einstakar opinberar stofnanir eru orðnar með mikið sjálfræði í þjóðfélaginu, það er búið að flytja það mikið vald til þeirra, — á sama hátt og ráðherrar óska og stefna að því að flutt sé vald til þeirra frá Alþingi og jafnvel notuð til þess hin ólíklegustu tækifæri, — að ég held að Alþingi ætti að staldra nokkuð við og hugsa sinn gang næst þegar mál þessara stofnana koma upp. Og nú er ég að sjálfsögðu ekki að tala um Ríkisútvarpið, heldur um Landssíma Íslands. Þetta er ekki eina dæmið um að sú stofnun hafi gert íslenskri sjómannastétt og útgerðarmönnum lífið frekar leitt.

Ég minnist þess samt sem áður — og það er náttúrlega það hlálega fyrir okkur sem höfum verið að spyrjast fyrir um þetta mál og ræða það hér á Alþingi — að forsenda breytinganna var sú, að það væri verið að spara. Það kemur hins vegar í ljós, að þessi sparnaður er fólginn í því að farið er úr rúmlega 3 millj. gkr. kostnaði upp í 12 millj. gkr. kostnað. Það er nú sparnaðurinn. Og ósköp hlýtur það að vera öfugsnúið fyrir þá menn sem hafa á undanförnum árum verið að tala um láglaunafólk og bætt kjör láglaunafólks í landinu. Það kemur í ljós og vekur furðu að sá örstutti tími, sem hlýtur að fara í vinnu við að vélrita inn á telexstrimil þær stuttu fréttir sem sendar eru, skuli virkilega geta kostað á fjórðu millj. kr. árið 1980 hjá Ríkisútvarpinu.

Ég skal ekki hafa fleiri orð um þetta að sinni. En ég geri ráð fyrir að það verði fleiri þm. en ég sem hugsi til þess á næsta hausti að gera einhverjar ráðstafanir hér úr þingsölum svo að þessu verði breytt í þann farveg sem verið hefur, þannig að þessi hópur manna, sem gegnir sínum störfum við þau skilyrði að geta ekki neinar fréttir haft héðan að heiman, eigi þess kost í framtíðinni. Og í mesta bróðerni vil ég benda hæstv. menntmrh. á að næst þegar hæstv. ríkisstj. gengur í brbl.-ham er tilvalið tækifæri fyrir hann að beita sér fyrir því með brbl., að úr þessu máli verði bætt.