05.05.1981
Sameinað þing: 79. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 3968 í B-deild Alþingistíðinda. (4032)

273. mál, tæknisafn

Birgir Ísl. Gunnarsson:

Herra forseti. Þó að þetta sé ekki eitt af þeim stærri málum, sem við fáum til meðferðar hér á hv. Alþingi, þá er hreyft hér mjög merku máli. Ég fagna því sérstaklega, að hæstv. menntmrh. hefur gefið yfirlýsingu um það hér, að hann muni beita sér fyrir því að stofnuð verði sérstök tækniminjadeild við Þjóðminjasafnið.

Ástæðan fyrir því, að ég vil segja örfá orð í þessu sambandi, er sú, að jafnframt því sem ákvörðun þarf að taka um stofnun slíks safns eða slíkrar deildar þarf að taka ákvörðun um staðsetningu. Nú er staðsetning að sjálfsögðu sjálfstætt mál, en ég hygg þó að um það þyrftu ekki að vera miklar deilur, að eðlilegt væri að slíkt safn væri staðsett hér í Reykjavík og til þess eru ýmsar ástæður. Þeir skólar t. d., sem mest mundu nota slíkt safn, eru flestir staðsettir hér, auk þess sem flestir mundu þá geta notið safnsins. Í Ártúnsholti svokölluðu er reyndar þegar kominn nokkur vísir að slíku safni í tengslum við Árbæjarsafn. Þar er núna geymd tiltölulega nýuppgerð fyrsta og síðasta eimreið sem hér var notuð á landinu. Þar eru enn fremur fyrstu tæki til gatnagerðar geymd, sum nýuppgerð, og þar mætti áfram telja.

Um skipulag þessa svæðis hefur nokkuð verið deilt á undanförnum vikum og tekin ákvörðun um það í borgarstjórn að leggja þetta svæði að miklu leyti undir íbúðarbyggð. Hins vegar höfum við sumir talið eðlilegt að ætla að skipulagi tæknisafni þarna stað. Ég vil líka benda á í þessu sambandi að þarna er á næstu grösum Elliðaárstöðin sú gamla rafstöð sem enn er í fullu gildi. Hins vegar hefur að okkar mati ekki verið nægilega vel séð fyrir því í þessum skipulagshugmyndum, að þetta safn gæti verið þarna til frambúðar með eðlilegum vaxtarmöguleikum, enda má segja að um það hafi ekki komið nein formleg ósk eða formleg beiðni að ætlað væri land fyrir slíkt safn á þessum stað. Þess vegna vil ég koma því á framfæri við hæstv. menntmrh. — og ég veit að þjóðminjavörður er áhugamaður um það líka — að þessi staðsetning gæti náð fram að ganga, að sem allra fyrst yrði af hálfu ríkisins reynt að tryggja nægilega stórt landssvæði á þessum slóðum undir slíkt safn. Þó að tekin hafi verið ákvörðun um notkun þessa lands nú í grófum dráttum er enn fullur möguleiki á því að skipuleggja það þannig að tæknisafn gæti verið staðsett þarna með þeim vaxtarmöguleikum sem þarf.