05.05.1981
Sameinað þing: 79. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 3969 í B-deild Alþingistíðinda. (4034)

390. mál, björgunarlaun til varðskipa

Dómsmrh. (Friðjón Þórðarson):

Herra forseti. Fsp. þessi hljóðar svo:

„Hver eru heildarbjörgunarlaun varðskipa ríkisins á árunum 1979 og 1980 og hve hár hluti hefur komið í hlut eftirtalinna aðila: a) Landhelgissjóðs, b) Landhelgisgæslunnar sem útgerðaraðila, c) áhafna skipanna d) annarra?“

Svar: Samkv. upplýsingum Landhelgisgæslunnar hafa heildarbjörgunarlaun varðskipanna árin 1979 og 1980 orðið þessi: Árið 1979: 15 bjarganir, heildarbjörgunarlaun 120 millj. 265 þús. kr. Hlutur einstakra aðila: a) Hlutur Landhelgissjóðs 88 963 076 kr. b) Hlutur Landhelgisgæslunnar sem útgerðaraðila 1 647 567 kr. c) Hlutur áhafna skipanna 29 654 357 kr. d) Hlutur annarra 0.

Árið 1980: 5 bjarganir, heildarbjörgunarlaun 98.6 millj. kr. Hlutur einstakra aðila: a) Hlutur Landhelgissjóðs 71 101 930 kr. b) Hlutur Landhelgisgæslunnar sem útgerðaraðila 3 837 426 kr. c) Hlutur áhafna skipanna 23 700 644 kr. d) Hlutur annarra 0.

Allar fjárhæðir eru í gkr.

Til skýringar á skiptingu björgunarlaunanna skal þetta tekið fram:

1. Hlutur Landhelgisgæslunnar sem útgerðaraðila er ýmis útlagður kostnaður við björgunina, eins og kafaralaun og tjón vegna tapaðra eða skemmdra bjargtækja og persónulegra muna. Dregst þessi kostnaður frá umsömdum eða tildæmdum björgunarlaunum áður en til skipta kemur.

2. Eftirstöðvar skiptast þannig, að Landhelgissjóður hlýtur 3/4 hluta, en 1/4 hluti gengur til áhafnar og skiptist milli einstakra skipverja í hlutfalli við föst mánaðarlaun þeirra.

3. Af hálfu Landhelgisgæslunnar hafa engar aðrar greiðslur verið inntar af hendi.

Þess er vænst, að þessar upplýsingar séu fullnægjandi svar við fsp.