05.05.1981
Sameinað þing: 79. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 3969 í B-deild Alþingistíðinda. (4035)

390. mál, björgunarlaun til varðskipa

Fyrirspyrjandi (Pétur Sigurðsson):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. dómsmrh. fyrir svör hans. Að sjálfsögðu er þetta fullnægjandi svar sem gefur þm. fyrst og fremst upplýsingar um það, hvernig skiptingin er á þeim björgunarlaunum sem koma í hlut Landhelgisgæslunnar eða vegna starfa Landhelgisgæslunnar og sérstaklega skipanna. Hins vegar held ég að það vanti nokkru fyllri upplýsingar — ef hæstv. dómsmrh. hefði þær hjá sér — þ. e. annan kostnað en þann sem verður um borð í sjáfum skipunum, m. a. í sambandi við störf t. d. kafara, eins og hann benti réttilega á, og vegna tjóns sem menn, sem að þessu starfa, verða fyrir á munum sínum og fatnaði. Þá á ég við annan kostnað sem verður í stjórnstöðvum Landhelgisgæslunnar og í kringum hana, t. d. kostnað vegna innheimtu á þessum björgunarlaunum og málaferla vegna þeirra, en mér skilst að þau séu oft eða nær alfarið undanfari greiðslna. Ég held að það væri gott framlag, ef hæstv. dómsmrh. hefði einhverjar slíkar tölur í höndum og gæti upplýst hvaða aðili borgi það og hvernig, hvort það sé borgað af óskiptu áður en til skipta kemur.