05.05.1981
Sameinað þing: 80. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 3985 í B-deild Alþingistíðinda. (4057)

260. mál, veðurfregnir

Dómsmrh. (Friðjón Þórðarson):

Herra forseti. Ég ætla að leyfa mér að segja örfá orð um þessa þáltill. Allir vita að hér er fjallað um málefni sem landsmenn varðar mjög miklu, hvort sem þeir búa í sveit eða við sjó, sjómenn, ferðamenn og fleiri.

Við vitum öll að þeir, sem hafa iðkað þessi fræði á undanförnum árum og miðlað okkur af sinni þekkingu og reynslu, hafa unnið mjög merkilegt starf. Og ekki vildum við missa veðurfregnirnar úr okkar daglegu fréttum. Það er deginum ljósara, að með aukinni menntun og vaxandi þekkingu veðurfræðinga og fjölgun athugana verða spár áreiðanlegri þannig að þeim er betur treystandi. Þannig þurfa þær að vera.

Það er vikið að því í grg., að telja verði að veðurathugunarstöðvar hér á landi séu nægilega margar. Ég er varla dómbær á þá hluti. Þó má vel vera að þetta sé rétt. Ég hygg þó að það þurfi að halda áfram þessum athugunum um landið, jafnvel þó að veðurfræðingar geti í auknum mæli stuðst við myndir gervihnatta og annað þess háttar sem vísindin hafa að bjóða.

Í Stykkishólmi hafa verið gerðar veðurathuganir samfellt frá árinu 1845, ef ég man rétt. Það mun vera lengsta samfelld veðurathugun hér á landi og jafnvel þó víðar sé leitað. (StJ: Hafa menn komist að einhverjum niðurstöðum?) Það er sjálfsagt hægt að lesa ýmislegt út úr þeim fræðum sem þar eru. Ég held að varla sé hægt að vefengja að þetta hafi nokkurt gildi. En svo bar við fyrir tveim árum eða svo að tveir veðurathugunartímar voru felldir niður, kl. 3 og 6 að nóttu. Ég man að sjómenn þar um slóðir söknuðu þess eða gerðu athugasemdir við það að veðurathugunum var hætt, a. m. k. kl. 6 að morgni. Það, sem ég vil benda á, er þetta, að þó að nauðsynlegt sé að gæta ýtrasta sparnaðar í opinberri þjónustu, jafnt á þessu sviði sem öðrum, má auðvitað ekki skera svo við nögl að til mikils baga sé. Ég vona að bæði þessari gömlu stöð í Stykkishólmi og öðrum slíkum stöðvum verði í framtíðinni gert a. m. k. kleift að sinna því hlutverki sem þær hafa gegnt, að ég ætla, nokkuð vel á undanförnum árum og þeim verði ekki í því efni skorinn of þröngur stakkur.