05.05.1981
Sameinað þing: 80. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 3986 í B-deild Alþingistíðinda. (4058)

260. mál, veðurfregnir

Stefán Jónsson:

Herra forseti. Að vísu tók hv. 1. flm., Pétur Sigurðsson, af mér að verulegu leyti ómakið um fyrirvara til leiðréttingar á misskilningi í sambandi við flutning þessarar till. til þál. Það kom mér svo sem honum allmjög á óvart að hv. þm. skyldu misskilja þessa till. Ég aðhyllist fremur þá skoðun, að ástæðan fyrir því, hversu erfiðlega sumum þeirra hefur gengið að tengja tillgr. grunnhugsun grg. sé sú, að þeir hafi ekki lesið grg. nógu ítarlega. Ég er svo sem hv. frsm. efalaus um það, að meiri hluti þm. muni vilja standa að samþykkt tillgr. efnislega. En ef þeir menn, sem um þessi mál fjalla, ef starfsmenn Veðurstofunnar telja að eitthvað það felist í orðalagi eða setningaskipan sem hægt sé að túlka sem óréttmæta gagnrýni á þá eða vinnubrögð þeirra, þá er sjálfsagt að víkja slíku við. Og ég hefði meira en svo verið til viðtals um það, eins og ég réð af máli hv. þm. Péturs Sigurðssonar, að hann mundi einnig vera til viðtals um það með glöðu geði að taka þátt í því að endursemja tillgr. með tilliti til viðkvæmnisatriða. Ég er ekki þeirrar skoðunar, að slík atriði muni standa í vegi fyrir samþykkt tillögunnar.

Ég vil síðan leyfa mér að halda því fram, að við höfum í höndunum nú þegar nægilegar upplýsingar varðandi þá möguleika sem starfsemi Veðurstofunnar býður, verði hún sæmilega búin tækjum og — svo ég noti orðalag hæstv. dómsmrh. — verði ekki skornir við nögl fjármunir, nauðsynlegir fjármunir til þess að efla Veðurstofuna, heldur staðið að fjárveitingum með skynsamlegri rausn, að þá muni það fé renta sig.

Það kemur fram í sjálfri tillgr. hvað fyrst og fremst gerir þetta mál brýnt núna sem þar er um fjallað. Það er að því verði komið til leiðar á eðlilegan hátt, að megináhersla verði lögð á að bæta úr þeim tæknilegu annmörkum sem vera kunna á því að viðvörunum verði komið — ekki í tæka tíð, því e. t. v. verður það aldrei hægt í öllum tilfellum í tæka tíð, en með sem skjótustum hætti við þessum, ef svo má segja, þjóðlegu manndrápsveðrum sem skella á eins og hendi sé veifað — eins og það hefur verið orðað kynslóðum saman um slíkt veður við land hér. Fyrst og fremst hefur slíkt veður orðið sjómönnum okkar að fjörtjóni, en þess er skemmst að minnast að einnig þeir, sem á landi ferðast, eru í hættu fyrir slíkum veðrum.

Hér er hreint ekki gefið í skyn að starfsmenn Veðurstofunnar hafi ekki kappkostað þetta af fremsta megni. En á næstsíðasta Fiskiþingi, þar sem samþykkt var till. samhljóða þeirri sem hér er nú flutt á hv. Alþingi, voru flutt ærin rök fyrir því, að málum yrði komið fyrir í sambandi við veðurspár með þeim hætti sem hér greinir frá. Eftir því sem hér er best kunnugt hefur ríkt ágætt samstarf á milli Veðurstofunnar og Ríkisútvarpsins. Það hefur ekki verið undan neinu að kvarta um það. Það hefur æ verið hægt að láta rjúfa dagskrá ef með þurfti til að koma að aðvörun, ef menn töldu að um líf væri að tefla. Á slíku hefur ekki staðið.

Ég þarf tæpast að orðlengja það sem hv. þm. Pétur Sigurðsson sagði um þá möguleika sem við eigum á því í okkar veðrasama landi að bæta hag okkar með því að efla Veðurstofuna, sem nú getur ekki aðeins spáð um veður næstu klukkustunda og jafnvel sólarhringa, heldur á að geta — með því starfsliði sem þar er núna, ef því er séð fyrir sæmilegum tækjum og þeim fjármunum sem til þess þarf — á að geta sagt nokkuð fyrir auk þess um veðurfar fram í tímann landsmönnum til mikilla hagsbóta. Þetta er orðin gömul stofnun og vinsæl á landi hér. Veðurstofan hefur starfað hér frá því áður en veðurfræðin sem slík fékk nafn og átt vinsældum að fagna. Einn af fyrstu veðurfræðingunum okkar, sennilega sá fyrsti sem fékk starfsheitið veðurfræðingur, Jón Eyþórsson heitinn, mun hafa skilgreint fræðilega þetta fyrirbæri, sem kallast veður, í orði. Og skilgreining hans er nú notuð víða um heim. „Veður, það er daglegt viðmót náttúrunnar við menn og málleysingja,“ minnir mig að skilgreining hans á fyrirbærinu hafi verið.

Hvergi á byggðu bóli í lýðfrjálsu landi, þar sem mér er kunnugt um, er þetta viðmót náttúrunnar jafndyntótt og á okkar landi. Og óvíða hygg ég að alþýða manna eigi afkomu sína, og þó öllu fremur líf, eins undir því að vera æ við hinu versta búin.

Ég óska eftir því, að nefnd fjalli um þessa till., komi þessu þingmáli í það horf, eins og hv. þm. Pétur Sigurðsson orðaði það, að menn geti við orðalag unað, og að málið verði afgreitt á þessu þingi. Það er hyggja mín, að svo geti vel farið næsta vetur að athygli, sem við beindum að þessu máli núna, geti borgið mannslífum.