10.11.1980
Neðri deild: 13. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 582 í B-deild Alþingistíðinda. (406)

47. mál, niðurfelling á opinberum gjöldum barna 1980

Flm. (Halldór Blöndal):

Herra forseti. Ég vil aðeins vekja athygli á þrem höfuðatriðum þessa máls.

Hæstv. fjmrh. sagði í ræðu sinni að auðvitað hefði þessi skattlagning, barnaskattlagningin, þurft að eiga sér stað ásamt annarri skattlagningu á miðju sumri, og hann tók undir að óheppilegt væri að hún skyldi hafa orðið svo síðla sumars. Þar með viðurkennir hann í raun það höfuðatriði míns máls, að hér hafi mistök átt sér stað, og það er mín skoðun, að ef mistök eigi sér stað sé nauðsynlegt að reyna að leiðrétta þau.

Hv. 3. þm. Austurl., Halldór Ásgrímsson, lagði á það áherslu í ræðu sinni að sér fyndist litlu máli skipta tekjuþörf ríkisins í þessu sambandi. Það er ekki lítið atriði, en á hinn bóginn hygg ég að þótt þessar fjárhæðir skipti ríkið ekki miklu geti það í einstökum tilvikum skipt heimilin mjög miklu.

Að síðustu vil ég svo minna á það, að í „Beinni línu“ komst hæstv. forsrh svo að orði fyrir skömmu, með leyfi hæstv. forseta:

„Varðandi barnaskattana, þá var sem sagt gerð sú breyting með þessum skattalögum frá 1978 að leggja ekki tekjur barnanna við tekjur foreldra, heldur skattleggja þau sérstaklega. Þó að sums staðar hafi verið gefið í skyn, eins og t.d. á Alþ. í dag, að þetta sé skattastefna núv. ríkisstj. sem komi fram í þessu, þá er þetta alrangt. Núv. ríkisstj. hefur ekki komið þessu á. Þetta eru skattalögin frá 1978. Þetta ákvæði um barnaskattana verður auðvitað að endurskoða og því verður að breyta.“

Svo mörg voru þau orð. Þar sem hæstv. forsrh. hefur láðst að leggja fram frv. í samræmi við skoðun sína og orð um að barnaskattarnir verði lagðir niður á þessu ári hef ég gert það í hans stað, tekið af honum ómakið. Ég vænti þess, að hann og ríkisstj. hans sjái sér fært að láta málið fá skjóta og góða meðferð á Alþingi.

Ég vil svo, herra forseti, leggja til að þessu frv. verði vísað til fjh.- og viðskn.