05.05.1981
Sameinað þing: 80. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 3987 í B-deild Alþingistíðinda. (4060)

121. mál, geðheilbrigðismál

Frsm. (Guðrún Helgadóttir):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir nál. allshn. Sþ. um till. til þál. um geðheilbrigðismál, skipulag og úrbætur. Þáltill. svipaðs efnis var flutt á síðasta þingi, en náði þá ekki afgreiðslu. Nefndin hefur fjallað um till., sem er í mörgum liðum, og orðið ásátt um að mæla með samþykkt hennar með þeirri breytingu sem liggur fyrir á þskj. 623. Nefndin hefur fengið umsagnir geðdeildar Landspítalans, Endurhæfingarráðs, Geðverndarfélags Íslands, heilbr.- og trmrn. og landlæknis. Þess skal og getið, að þáltill. þessi var gerð í samvinnu við Geðhjálp, félag geðsjúklinga, aðstandenda þeirra og velunnara.

Nefndinni þótti hins vegar ástæðulaust — þar sem hér er fjallað um að Alþingi skori á ríkisstj. að skipa nefnd til að taka þessi mál til gagngerrar endurskoðunar — að binda hendur þeirrar nefndar á nokkurn hátt við ákveðin atriði öðrum fremur og stytti því þáltill. verulega. Hún hljóðar nú eins og sjá má á þskj. 623.

Nefndin er sammála um, að þessi mál þurfi mjög gagngera endurskoðun, og vill eindregið mæla með því, að þessi till. verði samþykkt eins og hún lítur út nú, þar sem nauðsynlegt sé að vinda bráðan bug að því að koma þessum málum í skipulegt horf. Við gerum ráð fyrir að þessari endurskoðun verði lokið fyrir árslok 1981.

Það þarf ekki að fara mörgum orðum um ástand þessara mála hér hjá okkur. Við höfum daglega fyrir okkur dagblöðin sem skýra okkur frá því, að fársjúkt fólk sitji í fangelsum landsins vegna þess að ekki er tækifæri til þess að veita því þá sjúkrahúsþjónustu sem nauðsynleg er. Og margir munu þekkja þau vandræði sem stafa af því, að engin eða nær engin skyndilæknisaðstoð til handa hinum geðsjúku fyrirfinnst, varla í Reykjavík, hvað þá annars staðar á landinu. Ég mun því ekki eyða tíma hv. Sþ. að þessu sinni til að fjalla um þessi mál, um þau mætti margt segja, en vil fyrir hönd allshn. mæla með að till. verði samþykkt með þeirri breytingu sem liggur fyrir á þskj. 623.