05.05.1981
Sameinað þing: 80. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 3989 í B-deild Alþingistíðinda. (4063)

284. mál, fiskiræktar- og veiðimál

Páll Pétursson:

Herra forseti. Ég lít svo á, að þessi till. sé góðra gjalda verð, og vil þakka flm. fyrir að koma fram með hana. Við eigum mikið verk að vinna á þessu sviði og það er gott að minna á þetta málefni. Það er rétt, sem 1. flm. tók fram, að fleiri svona mál hafa verið á ferðinni hér í þinginu, og það er ekki óeðlilegt þar sem við eigum þarna stórkostlega möguleika ónotaða. Unnið hefur verið mikið brautryðjendastarf nú þegar í þessum málum. Ég vil nefna hið mikla starf sem unnið hefur verið á vegum Veiðimálastofnunar, og ég vil taka undir það, að nauðsynlegt er að efla það, m. a. með því að dreifa fiskifræðingum um landið og setja upp útibú, eins og nokkuð hefur verið byrjað á. Ég held að það séu a. m. k. tvö útibú komin frá Veiðimálastofnun. Ég legg áherslu á að það er eðlilegt að Veiðimálastofnun hafi með þessi mál að gera og hafi á þeim stjórn.

Hvað viðkemur þriðja atriðinu í þessari þáltill., að komið verði á samræmingu í fjárveitingum til fiskræktarmála og Fiskræktarsjóður verði efldur svo að hann verði fær um að styrkja framkvæmdir við fiskrækt og fiskeldi í stórauknum mæli, þá vil ég taka undir það sérstaklega. Fiskræktarsjóður er bráðnauðsynleg stofnun, en því miður er hann ákaflega fjárvana. Er mjög brýnt að bæta úr því.

Það er hins vegar ekkert einfalt mál hvað beri að gera, því að þarfirnar eru víða og margir um það fjármagn sem laust er. Ég á sæti í nefnd sem er að endurskoða laxveiðilögin. Við erum búnir að vinna þar töluvert starf, en eigum þó mikið óunnið. Og eitt af því, sem við höfum fjallað um og eigum þó eftir að fjalla meira um, er Fiskræktarsjóður. Við erum allir sammála, sem sitjum í þessari nefnd, um nauðsyn þess að skapa honum viðunandi tekjur. En það er flísin sem við rís, á hvern hátt það er gert. Sumar þjóðir hafa farið á þá braut að láta vatnsaflsvirkjanir leggja fé til fiskræktarmála. Mér fyndist vel geta komið til mála að skattleggja orkuöflunarfyrirtækin til fiskræktar, eins og t. d. Svíar gera.

Ég vil ekki orðlengja þetta meira, heldur einungis lýsa stuðningi mínum við þessa till. og þakka flm. fyrir að minna á þetta málefni.