05.05.1981
Sameinað þing: 80. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 3993 í B-deild Alþingistíðinda. (4068)

280. mál, stóriðjumál

Páll Pétursson:

Herra forseti. Það er óþarfi fyrir þm. að hrökkva við þó að ég óski eftir að till. fái þinglega meðferð. Till. á að fá samkvæmt úrskurði forseta tvær umr. vegna þess að hún felur í sér útgjöld. Og ég lít svo á, að það sé hárréttur úrskurður hjá hæstv. forseta, eins og hans var von og vísa. Eins og ég sagði áðan er það alls ekki meining mín að tefja þessar till. á nokkurn hátt. Ég mun ekki óska eftir að sérfræðingar verði kallaðir á fund nefndarinnar ellegar að umsagna verði leitað um till., vegna þess að það starf hefur allt nú þegar verið unnið. Við höfum umsagnir og vitnisburði fróðra manna í huga og þess vegna þarf meðferðin í nefndinni ekki mín vegna að taka langan tíma.

Það er alveg óþarfi af hv. þm. Birgi Ísl. Gunnarssyni að gera því skóna að til þess gæti komið eða að það sé ætlun okkar að stöðva afgreiðslu þessarar till. Þó að við ætlum ekki að samþykkja hana kemur hún að sjálfsögðu til afgreiðslu. Og ég ætla nú að biðja hann þess lengstra orða að fara ekki að velta því fyrir sér, að hér geti ekki tekist góð samvinna með stjórn og stjórnarandstöðu um skipuleg og skikkanleg þinglok í vor.