05.05.1981
Sameinað þing: 80. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 3993 í B-deild Alþingistíðinda. (4070)

299. mál, efling almannavarna

Flm. (Friðrik Sophusson):

Herra forseti. Ég hef ásamt hv, þm. Helga Seljan, Eiði Guðnasyni og Guðmundi Bjarnasyni leyft mér að flytja á þskj. 640 till. til þál. um eflingu almannavarna. Það má segja að hugmyndin um að flytja þessa till. hafi fæðst þegar fjvn.- menn í boði Almannavarna ríkisins skoðuðu tækjakost og birgðir Almannavarna og kynntust því þá, hve erfitt það getur verið að halda vakandi skilningi þjóðarinnar á nauðsyn þess, að Almannavarnir séu ætíð virkar og í viðbragðsstöðu.

Þessi till. er á þá leið, að Alþingi feli ríkisstj. að gera áætlun um eflingu almannavarna í landinu, og eru talin upp sjö atriði:

1) Almannavarnir ríkisins verði efldar og þeim tryggður nægur mannafli til að annast aðalverkefni í almannavörnum, en það eru upplýsingastarfsemi, skipulagsmál, áhættumat svokallað, fræðslu- og þjálfunarmál og birgðahald.

2) Þjálfaðir verði umsjónarmenn almannavarna í hverju umdæmi landsins er verði fulltrúar Almannavarna ríkisins í viðkomandi umdæmum. — Hér er verið að fjalla um að styrkja tengslin á milli Almannavarna ríkisins og almannavarnanefndanna í hverju umdæmi og hverju sveitarfélagi og hafa í viðbragðsstöðu þær nefndir þannig að þær geti hafið störf strax og nauðsyn ber til.

3) Komið verði á fót birgðastöðvum almannavarna í hverju umdæmi landsins fyrir neyðarbirgðir á sviði slysahjálpar, vistunar heimilislausra, fjarskipta og neyðarlýsingar.

4) Lokið verði við uppsetningu á viðvörunar- og fjarskiptakerfi Almannavarna ríkisins. Nú er unnið að því að radíóvæða Snæfellsnes, Norðurland og Suðurland allt til Hafnar í Hornafirði, en ljúka þarf því að gera þetta kerfi, þetta öryggiskerfi almannavarna, að kerfi sem nær til allra landsmanna sem allra fyrst.

5) Með aðstoð ríkisfjölmiðlanna verði skipulögð almenningsfræðsla um varnir gegn náttúruhamförum og annarri vá. Það er nú til sérstakur samningur við Ríkisútvarpið um hvernig skuli fara með þegar vá ber að höndum, en minna er hins vegar hugsað um að undirbúa fólk þess á milli. Þarna er um það að ræða, að með skipulögðum hætti verði unnið að slíkri almenningsfræðslu með tilstuðlan Ríkisútvarpsins.

6) Starfs- og hjálparlið Almannavarna verði þjálfað á kerfisbundinn hátt samkvæmt nánari áætlun þar að lútandi. — Hér er átt fyrst og fremst við þá sem beinlínis lúta stjórn Almannavarna, en enn fremur kemur til greina að þessi þjálfun nái til björgunarsveitanna sem vinna við hliðina á og undir stjórn Almannavarna í vissum tilvikum.

Í sjöunda og síðasta lagi, sem upp er talið, verði lögin endurskoðuð og þó einkum og sér í lagi þau ákvæði sem fjalla um verkefna- og kostnaðarskiptingu ríkis og sveitarfélaga vegna almannavarna. Núgildandi lagaákvæði um skiptingu kostnaðar vegna almannavarna valda miklum vanda í framkvæmd og hamla gegn æskilegri þróun. Núverandi fyrirkomulag gerir ráð fyrir að ríkissjóður beri allan kostnað vegna almannavarna í héruðum, en geti krafið sveitarsjóð um helming kostnaðar og þriðjung í undantekningartilvikum. Hins vegar hafa almannavarnanefndirnar framkvæmdina með höndum, en skortir tíðum fjármagn. Nauðsynlegt er að endurskoða lögin um verkefna- og kostnaðarskiptinguna í þessum efnum og stefna að því, að sveitarfélög kosti sinn hluta að fullu og ríkissjóður greiði sömuleiðis sinn skerf þannig að skiptingin verði skýrari.

Þess skal getið, að í lok grg. þáltill. er villa. Þar stendur í þriðju linu neðan frá: „um hlutverkaskipti“, en á auðvitað að vera „verkefna- og kostnaðarskiptingu“.

Það er út af fyrir sig óþarfi að fara mörgum orðum um þessa till. sem flutt er af þm. úr öllum stjórnmálaflokkum. Flm. hafa haft samráð við Almannavarnir ríkisins og þá einkum Guðjón Petersen forstjóra Almannavarna.

Það er ljóst að almannavarnir verða aldrei skipulagðar í eitt skipti fyrir öll. Þess vegna er að áliti flm. nauðsynlegt að gera úttekt og áætlanir og setja Almannavörnum ríkisins skýr markmið. Hér er um nokkurs konar tryggingu að ræða fyrir þjóðina. Það er að vísu oft erfitt að skapa skilning á nauðsyn slíkrar tryggingar þegar atburðir, sem að höndum getur borið, virðast vera órafjarri. En yfirleitt er það þannig, að þegar eitthvað gerist sem reynir verulega á þolrifin í landsmönnum, t. d. náttúruhamfarir, þá er oftast skammast yfir því, að ekki skuli hafa verið gerðar betri og meiri fyrirbyggjandi ráðstafanir.

Í þessari þáltill. er ekki fjallað um björgunarsveitirnar sem slíkar, t. d. björgunarsveitir Slysavarnafélagsins, hjálparsveitir skáta, flugbjörgunarsveitir og slíka aðila. Þetta eru sveitir sem hafa lagt fram gífurlegt starf og spara ríkinu gífurlega fjármuni með framlagi sjálfboðaliða sem starfa í þessum sveitum. Það kemur að sjálfsögðu til greina að þjálfun þeirra verði meira á vegum Almannavarna en hingað til, en auðvitað verður þá að leita samkomulags við forustumenn þessara hjálparsveita. Enn fremur er hugsanlegt að teknar verði inn í viðlagatryggingu með einhverjum hætti greiðslur til slíkra sveita og þá einkum og sér í lagi til þjálfunar og þess sem þessar sveitir eiga sameiginlegt. En það er eðlilegt að nokkur samkeppni ríki á milli sveitanna og þess vegna er erfitt að koma við meiri sameiginlegri þjónustu á þeirra vegum. Hitt er svo annað mál, að þegar slys ber að höndum og nota þarf aðstoð þessara sveita vinna þær yfirleitt saman eins og ein vél og þá er treyst á að Almannavarnir ríkisins samhæfi störf sveitanna sem allra best.

Að öðru leyti, herra forseti, vil ég vísa til grg. Þar kemur fram hver séu helstu störf Almannavarna ríkisins, hve margar almannavarnanefndir eru starfandi í landinu og ýmsar fleiri upplýsingar sem óþarfi er að tíunda hér frekar. Ég vænti þess, að hv. þm. sýni þessu máli stuðning og skilning og að loknum fyrri hl. umr. verði málinu vísað til allshn. til skoðunar. Kæmi þá vissulega til greina að hún kallaði á sinn fund fulltrúa Almannavarna ríkisins til þess að ræða málefni þeirra.