06.05.1981
Efri deild: 92. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 4008 í B-deild Alþingistíðinda. (4093)

313. mál, steinullarverksmiðja

Þorv. Garðar Kristjánsson:

Herra forseti. Það er eins með þetta frv. og það sem við vorum að ræða hér áður, að ég vil lýsa ánægju minni yfir því, að það er fram komið. Hér er um merkilegt mál að ræða, það orkar ekki tvímælis. Það er líka mjög ánægjulegt að slíkur áhugi skuli hafa verið á þessu máli að stofnuð hafi verið félög til að vinna að því bæði norðanlands og sunnan. Ég á við Steinullarfélagið á Sauðárkróki og starfsemi Jarðefnaiðnaðar í Suðurlandskjördæmi.

Nú liggur málið þannig fyrir, að talið er nauðsynlegt að ríkisvaldið komi þar inn í, og skal ég ekki finna að því, en ég vildi aðeins koma inn á það núna við 1. umr., með hverjum hætti það er hugsað. Mér virðist að eins og frv. er, sé gert ráð fyrir að frumkvæði í þessum málum sé ekki lengur í höndum þeirra félaga sem hafa sýnt áhuga og unnið að undirbúningi þessa máls, heldur sé gert ráð fyrir að nú sé frumkvæðin og forusta í þessum efnum hjá ríkinu. Það þarf ekki að fara saman, að ríkið gegni alfarið slíku forustuhlutverki, og svo hins vegar, að það leggi fram aðstoð við stofnun þessara fyrirtækja eða fyrirtækis á þann veg að leggja fram verulegt fjármagn í hlutafé, eins og hér er gert ráð fyrir. Ég hnýt um þetta þegar ég les 2. gr. frv. því að þar segir: „Til samvinnu um stofnun eða starfrækslu hlutafélags samkv. 1. gr. er ríkisstj. heimilt að kveðja aðila, sem áhuga hafa á málinu.“ — Mér virðist þetta benda til þess, að gert sé ráð fyrir að ríkisvaldið hafi forustu í þessu, en ekki þau félög sem hér hafa komið við sögu áður. Ég vil spyrja hæstv. ráðh. um þetta. Ég hafði látið mér detta í hug að það gæti verið að þau félög, sem hafa unnið að þessu áður, hefðu líka möguleika til þess að leita eftir víðtækari þátttöku í þessari verksmiðju en nú er. M. ö. o.: Hvernig er gert ráð fyrir að verði gengið til verks í þessu efni?