06.05.1981
Efri deild: 92. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 4016 í B-deild Alþingistíðinda. (4098)

314. mál, stálbræðsla

Þorv. Garðar Kristjánsson:

Herra forseti. Hæstv. iðnrh. sagði þegar frv. það, sem við ræðum hér um, var tekið til umr. áðan: Allt er þá þrennt er. — Það kann að vera að það sé í dag, en mikið vatn á eftir að renna til sjávar í stóriðjumálunum áður en við getum látið staðar numið. Það breytir hins vegar ekki því, að um hið merkilegasta mál að ræða þar sem er þetta frv. til l. um stálbræðslu.

Ég ætla ekki að fara að ræða hér um rekstur þessa félags eða athuganir þær sem fram hafa farið og frv. byggist á, enda hefur hæstv. ráðh. gert það, en þetta mál kemur til meðferðar iðnn., eins og tvö frv. sem við höfum rætt áður í dag.

Ég vil segja það, að það er að sjálfsögðu mjög miður hve seint þessi frv. ber að, en þó að svo sé vil ég lýsa yfir fyrir hönd okkar sjálfstæðismanna að við munum að sjálfsögðu ekki leggja neinn þröskuld í veg fyrir framgang þessa máls á þinginu, þó að við væntum þess, að okkur gefist tækifæri til að athuga það með eðlilegri kostgæfni í nefnd.

Þetta frv. er að því leyti, virðist mér, frábrugðið hinum tveim, sem við höfum verið að ræða, að samkvæmt frv. er ekki gert ráð fyrir neinni beinni forustu ríkisins varðandi þetta mál. Þetta frv. fjallar einfaldlega um það, að ríkinu sé heimilt að eiga allt að 40% af hlutafé félagsins og leggja fram fé í því skyni, veita tilteknar ábyrgðir og fella niður aðflutnings- og sölugjöld af vélum, eins og tekið er fram í 2. gr. frv.

En ég vil aðeins nú við 1. umr. koma að 3. gr, frv. Ég vék lítillega að hliðstæðri grein í frv. sem við ræddum fyrr í dag, en ég hnýt um orðalag í aths. við 3. gr. frv. þar segir: „Ekki er talin ástæða til að leggja hömlur á tölu stofnenda eða hluthafa í félaginu, m. a. með hliðsjón af aðild ríkisins að því.“ — Ég leyfi mér að spyrja: Hvers vegna eru menn að gera því skóna að það gæti verið ástæða til að leggja einhverjar hömlur á hlutafjársöfnun? Ég spyr: Hvernig stendur á ákvæðinu í 3. gr. þar sem talað er um frávik frá lögum um hlutafélög varðandi tölu stofnenda og tölu hluthafa? Hvernig stendur á þessu með tilliti til þess, sem upplýst er, að það hefur farið fram almennt útboð eða fer fram almennt útboð á hlutafé? Ég geri ráð fyrir að þarna verði margir hluthafar. En frá hverju er frávikið samkvæmt 3. gr.? Það er frávik frá því, að það þurfi að vera minnst fimm stofnendur og það þurfi að vera minnst fimm hluthafar. Er þetta ekki óþarfi? Hvaða tilgangi þjónar það að vera að binda í lögum frávik frá þessu? Kemur nokkrum í hug, eða kemur hæstv. ráðh. í hug, að það verði færri en fimm aðilar sem eftir almennt hlutafjárútboð verða aðilar að þessu fyrirtæki?

Í þeirri mgr. 3. gr. hlutafjárlaganna, sem vitnað er í, er líka fjallað um annað atriði. Ef það er það sem við er átt segir þar, að „meiri hluti stofnenda skal hafa haft heimilisfesti hér á landi í minnst tvö ár.“ Það er vísað til þessa ákvæðis líka. Mér er spurn: Hvernig stendur á þessu? Er nokkur ástæða til að lögfesta þetta frv. með slíku ákvæði sem felst í 3. gr. frv.? En hæstv. ráðh. getur kannske gefið skýringu á því, hvernig stendur á að ákvæðin komu inn í þetta frv.