06.05.1981
Efri deild: 92. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 4017 í B-deild Alþingistíðinda. (4099)

314. mál, stálbræðsla

Kjartan Jóhannsson:

Herra forseti. Hér er um að ræða mál sem hefur verið lengi til umræðu og hefur þvælst fyrir mönnum líklega í u. þ. b. áratug og menn hafa átt erfitt með að gera upp við sig. Auðvitað er það svo í þessu máli, að menn verða að ákveða hvort þeir ætla að hrökkva eða stökkva. Ég held að það sé alveg ljóst að hér er um að ræða fyrirtæki af því tagi að menn verða að gera það upp við sig hvers konar áhættu þeir séu reiðubúnir að taka.

Það er auðvitað atvinnulega séð og að því er varðar alla iðnþróun ákaflega áhugavert fyrir okkur Íslendinga að geta framleitt steypustyrktarstál hér á landi með þeim hætti sem hér er gert ráð fyrir. Ég held að það sé líka ljóst, að það verður vitaskuld ekki gert með öllu áhættulaust frekar en yfirleitt gildir um annan atvinnurekstur. Kannske er áhættan meiri í þessu en í ýmsu öðru vegna þess, hversu verulegar sveiflur eru á stálmarkaði frá ári til árs, eins og ljóslega kemur fram í þeim gögnum sem hér eru lögð fram.

Ég tel, að það hafi verið unnið það vel og lengi að undirbúningi þessa frv. að það eigi væntanlega ekki að vera neitt því til fyrirstöðu að taka þetta mál til afgreiðstu, og ég ítreka, að hér er um mjög áhugavert málefni að ræða. Við Alþfl.-menn munum greiða fyrir því, að þetta frv. geti fengið góða og skjóta meðferð í n., og ég ætla að vona að hér sé einmitt á ferðinni enn eitt iðnaðartækifærið sem muni reynast hagstætt fyrir okkur Íslendinga.