06.05.1981
Efri deild: 92. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 4018 í B-deild Alþingistíðinda. (4102)

308. mál, lyfjadreifing

Félmrh. (Svavar Gestsson):

Herra forseti: Ég vil leyfa mér að þakka hv. deild fyrir að efna til fundar núna síðdegis til að fjalla um þetta mál. Ég vil einnig leyfa mér að þakka þeim sem sitja hér á pöllunum og hafa setið hér í allan dag undir fróðlegum umræðum um atvinnumál: stálbræðslu, steinullarverksmiðju o. fl. Vafalaust hefur það verið gagnlegt fyrir þá, þó að ég geri ráð fyrir að þeir hafi í rauninni beðið eftir umræðu um þetta frv. til l. um lyfjadreifingu.

Eins og kunnugt er var lagt fyrir hér á Alþingi vorið 1979 frv. til l. um lyfjadreifingu. Þetta frv. var síðan endurflutt á þinginu 1979–1980 af þáv. hæstv. heilbr.- og trmrh., Magnúsi H. Magnússyni, og á þingfundi hér í Ed. fyrir nákvæmlega tveimur árum, 8. maí 1979, gerði hann mjög ítarlega grein fyrir því frv. sem þá lá fyrir og hafði verið samið af nefnd undir forustu Almars Grímssonar deildarstjóra í heilbr.- og trmrn. Þessi nefnd hafði unnið þá nokkra hríð og náð samkomulagi um ýmis meginatriði þessa frv. Um önnur atriði var að vísu nokkur ágreiningur, en frv. var flutt í þeirri mynd, sem þá lá fyrir, og þar voru mörkuð, þrátt fyrir ágreining í þessum málum, ýmis mjög mikilvæg stefnuatriði varðandi lyfjadreifingu hér í landinu.

Það er mín skoðun, að fyrst og fremst sé eðlilegt að lyfjadreifing sé í raun og veru á vegum heilbrigðisþjónustunnar; hinnar opinberu heilbrigðisþjónustu. Ástæðurnar til þess eru margar, sem ég ætla ekki að tíunda hér, en ein ástæðan er að mínu mati sú, að það er óeðlilegt að persónuleg einkagróðasjónarmið geti ráðið því, hversu er farið með lyfjaverslun hér í landinu, þennan mikilvæga þátt heilbrigðisþjónustunnar. Ég er þess vegna þeirrar skoðunar og minn flokkur, að það væri eðlilegast að standa þannig að málum að lyfjaverslunin öll væri á vegum opinberra aðila, þeirra sömu og fara með heilbrigðismálastjórnina í landinu. Um þetta sjónarmið mitt og Alþb. er hins vegar ekkert samkomulag hér á hv. Alþingi og í núv. ríkisstj. er því ekki að heilsa heldur. Ég tel hins vegar að það sé engu að síður verulegur ávinningur að því að ná fram ýmsum þeim atriðum sem eru í því frv. sem hér liggur fyrir og hefur nú verið flutt af mér og hæstv. núv. ríkisstj.

Ég sé ekki ástæðu til að fara ítarlega út í þetta frv. eins og það liggur hér fyrir. Menn þekkja hinn almenna rökstuðning sem fluttur hefur verið fyrir frv. Áður hefur verið gerð grein fyrir honum hér á hv. Alþingi.

Eftir að núv. ríkisstj. kom til valda á árinu 1980, 8. febr., var fljótlega ákveðið að setja á laggirnar samstarfsnefnd stjórnaraðilanna um endurskoðun á því frv. sem undirbúið hafði verið á árunum 1978–79. Þessi endurskoðun var unnin af þriggja manna nefnd trúnaðarmanna stjórnarflokkanna sem allir eiga sæti í heilbr.- og trn. hv. Alþingis. Í nefndinni áttu sæti Guðmundur G. Þórarinsson alþm., Helgi Seljan alþm. og Pálmi Jónsson ráðh. Á þessu stigi ætla ég að takmarka mig við það að gera grein fyrir helstu breytingum sem samstarfsnefnd ríkisstj. gerði og samþykktar voru í ríkisstj. á upphaflega frv., en breytingarnar er helst að finna í II., VIII. og X kafla frv.

Í frv. er kveðið á um staðarval og stofnun lyfjabúða og lyfjaútibúa og að þar um skuli setja reglugerð sem taki mið af skiptingu landsins í héruð, sbr. ákvæði laga um heilbrigðisþjónustu, nr. 57/1978, en ekki setjast með lögum, eins og gert var ráð fyrir með fyrra frv. Á þennan hátt skapast meira svigrúm hvað varðar t. d. stofnun eða flutning lyfjabúðar eða undirstofnunar lyfjabúðar í heilsugæslustöð eða á annan vettvang. Á þennan hátt er lögð áhersla á samræmingu með hliðsjón af þeim lögum sem gilda um heilbrigðisþjónustuna almennt, þ. e. lögum nr. 57/1978, en læknishéraðaskipan samkvæmt henni er í samræmi við kjördæmaskipan, fræðsluhéraðaskipan og skipan þjónustusvæða samkvæmt lögum nr. 77/1979, um aðstoð við þroskahefta.

Það skal sérstaklega undirstrikað hér, að með þessu er stefnt að því, að lyfsala fari úr höndum lækna, en eins og kunnugt er hafa læknar að verulegu leyti annast lyfjasölu á vissum stöðum í strjálbýli, þ. e. þar sem lyfjasala eða lyfjaútibú hefur ekki verið til. Í fyrra frv. var hins vegar gert ráð fyrir því, að lyfjasala færi alfarið úr höndum lækna, en ekki, eins og hér er gert ráð fyrir, að stefnt skuli að því. Það er augljóst að slík lyfjasala hefur verið neyðarúrræði víðast hvar, en þó munu finnast mjög fámenn héruð þar sem tekjur af lyfsölu hafa hugsanlega haft mikilvæg áhrif á það að læknar fáist þar til starfa. Slíkt verður þó að teljast mjög óæskilegt á alla lund, enda hreinasta neyðarúrræði og ekkert annað.

Í heilbrigðisþjónustulögum eru ákvæði þess efnis, að lyfjaútibú og lyfjaútsölur eða lyfjaforði sé í heilsugæslustöðvum ef ekki er lyfjabúð á staðnum. Jafnframt eru ákvæði þess efnis, að ráðh. geti ákveðið að lyfjabúð verði í heilsugæslustöð. Á það skal bent vegna tengsla lyfjabúða og heilsugæslustöðva, að mjög æskilegt er og í mörgum tilvikum nauðsynlegt, ef annar kostur er ekki betri, að lyfjabúð sé í heilsugæslustöð. Það hefur hins vegar þann annmarka að auka að sjálfsögðu byggingarkostnað heilsugæslustöðvar, og þykir því rétt að tekið verði til athugunar hvert einstakt tilvik og nánari ákvæði þar að lútandi verði sett með reglugerð.

Nokkur helstu nýmæli frv. varða lyfjaþjónustu á sjúkrahúsum. Það er augljóst að eftirlit lyfjafræðinga með öflun lyfja og varðveislu og notkun þeirra á sjúkrahúsum er mjög mikilvægt og skiptir ekki máli hvort um er að ræða faglegt eftirlit eða eftirlit í hagræðingarskyni. Vegna þessa hafa verið sett mjög ákveðin fyrirmæli um störf þeirra við hin deildaskiptu sjúkrahús. Þess vegna er gert ráð fyrir að á þessum sjúkrahúsum starfi svonefnt sjúkrahúsapótek sem geti öðlast heimild til að afhenda sjúklingum, er ekki liggja á sjúkrahúsum, sérstök lyf sem einungis má nota á sjúkrahúsum. Slík heimildarákvæði er mjög mikilvægt þar sem í reynd er óheimilt að afhenda slík lyf til notkunar handa öðrum sjúklingum en þeim sem liggja á sjúkrahúsum. Enn fremur er opnaður sá möguleiki, að Lyfjaverslun ríkisins geti afgreitt öll algengustu lyf beint til deilda sjúkrahúss ef henta þykir. Slíkt á ekki að raska stöðu sjúkrahúsapóteks, en er fyrst og fremst ætlað að vera til hagræðingar í innkaupum og í framkvæmd allri.

Þá er enn fremur lagt til að lögfest verði stofnun sérstakrar samstarfsnefndar þeirra aðila sem hafa með þjónustu sjúkrahúsa og lyfjadreifingu á þeim að gera. Er þessari nefnd ætlað að leita samræmingar í innkaupum á lyfjum, lyfjagögnum, hjúkrunar- og sjúkrahúsgögnum í hagkvæmniskyni. — Hér er um mikilvægt stefnuákvæði að ræða sem stefnir vonandi að víðtækara innkaupasamstarfi sjúkrahúsa hér í landinu en verið hefur.

Sérstakur kafli í þessu frv. — og það er breyting frá hinu upphaflega frv. — snertir dýralyf. Er lagt til að Tilraunastöð Háskólans í meinafræði að Keldum haldi þeim starfsháttum sem tíðkast hafa hingað til, þ. e. að selja framleiðslu sína og innflutt ormalyf í heildsölu til dýralækna og lyfjabúða og ef aðstæður krefja í smásölu beint til bænda. Á þessu sviði hafa skapast vissir starfshættir sem ekki varð samkomulag um að breyta á þessu stigi málsins.

Þá er gert ráð fyrir því í frv. þessu að setja þá kvöð á lyfjabúðir og lyfjaútibú að hafa á boðstólum þau dýralyf sem almennt eru notuð í viðkomandi umdæmi og að lyfjabúðum og lyfjaútibúum sé heimilt að sjá dýralæknum gegn ákveðinni þóknun fyrir þeim lyfjum sem þeir þurfa að selja í vitjunum. Á hinn bóginn er algjörlega tekið fyrir sölu annarra en Tilraunastöðvarinnar, lyfjabúða og lyfjaútibúa og dýralækna á dýralyfjum.

Þá skal þess getið, að mjög mikilsvert hefur þótt að tryggja stöðu Lyfjaverslunar ríkisins sem innkaupa- og dreifingaraðila fyrir sjúkrahús ríkisins og sveitarfélaga auk dvalarheimila fyrir aldraða. Verði þetta frv. að lögum óbreytt ætti hagsmunum Lyfjaverslunar ríkisins að þessu leyti að vera allvel borgið.

Lyfjaverslun ríkisins er lyfjagerð og lyfjaheildsala í senn og má þannig telja hana samkeppnisaðila við einkafyrirtæki í þessari atvinnugrein. Í reynd hefur hún hins vegar fyrst og fremst verið þjónustuaðili við sjúkrahúsin og er það hlutverk hennar sérstaklega undirstrikað í þessu frv. og til þess ætlast að svo verði áfram.

Ég vil sérstaklega geta þess, að á árinu 1973 lagði þáv. hæstv. heilbr.- og trmrh. Magnús Kjartansson, fram frv. á Alþingi um stofnun Lyfjastofnunar ríkisins. Tók frv. þetta fyrst og fremst mið af því, að ríkið tæki að sér að öllu leyti innflutning og heildsölu lyfja. Þrátt fyrir góð áform tókst ekki pólitísk samstaða um slíkt fyrirkomulag og hefur slíkt frv. ekki verið lagt fram aftur.

Í því frv., sem ég mæli hér fyrir, er lagt til að Lyfjaverslun ríkisins verði stjórnunarlega sett undir heilbr.- og trmrn., enda er hér óumdeilanlega um að ræða mikilvægan hlekk í þjónustu við heilbrigðisstofnanir í landinu. Með tilliti til fyrri tengsla Lyfjaverslunar ríkisins við fjmrn. og Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins er talið rétt að einn þriggja stjórnarmanna Lyfjaverslunar ríkisins verði tilnefndur af fjmrn. og heimilt verði að reka stofnunina um sinn í tengslum við Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins.

Ég hef hér að framan farið nokkrum orðum um þær breytingar sem lagðar eru til í frv. þessu við fyrri frv., sem rækilega hafa verið kynnt hér á Alþingi, en ég hef ekki talið ástæðu til að fjalla að öðru leyti efnislega um frv. Þær breytingar, sem nú hafa verið gerðar af núverandi stjórnarffokkum, snerta, eins og fram hefur komið, fyrst og fremst staðarval og stofnun lyfjabúða, lyfjaþjónustu á sjúkrahúsum og stofnun sérstakra samstarfsnefnda þeirra aðila sem hafa með þjónustu við sjúkrahús og lyfjadreifingu að gera. Breytingarnar snerta dýralyf og afskipti Tilraunastöðvar Háskólans í meinafræði að Keldum af þessum málum og þær snerta Lyfjaverslun ríkisins. Reynt er að tryggja hagsmuni hennar vegna innkaupa erlendis frá betur en áður og jafnframt að hún verði sett undir stjórn heilbr. og trmrn. í stað fjmrn.

Ég vil einnig geta þess hér, herra forseti, að í frv. hafa læðst nokkrar minni háttar villur, en ég vil sérstaklega vekja athygli á 42. gr. frv. Þar er gert ráð fyrir að felldir verði úr gildi m. a. nokkrir kaflar lyfsölulaga nr. 30 frá 1963. Ég vil benda á það hér, og vænti þess að það verði leiðrétt við meðferð málsins á hv. Alþingi, að ætlast er til með þessu frv., verði það að lögum, að öll gildandi ákvæði lyfsölulaga nr. 30 1963 verði felld úr gildi, en ekki, eins og ætla mætti samkv. 62. gr. með samanburði á lögum nr. 49 1978, þ. e. lyfjalögum, og lögum um lyfjafræðinga frá 1978, að áfram skuli gilda nokkrir kaflar þessara laga.

Herra forseti. Ég vil leggja til, að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til hæstv. heilbr.- og trn. og 2. umr., og ég tek það fram, að það verður að fara eftir mati hv. nefndar og Alþingis hversu fram vindur um meðferð máls þessa á yfirstandandi þingi. Ég vil leggja á það þunga áherslu, að telji hv. þn. og hv. deild að ekki auðnist að afgreiða málið á þessu þingi, þá verði leitað rækilegrar umsagnar þegar og óskað eftir að það gerist þannig að þau mál verði unnt að taka til meðferðar í sumar og í haust svo að unnt verði að ganga frá málinu á næsta þingi þannig að þetta frv. um lyfjadreifingu verði að lögum.

Með þessu frv. er í raun og veru lokið endurskoðun gömlu lyfsölulaganna, nr. 30 frá 1963. Ný lög um lyfjafræðinga tóku gildi árið 1978, þ. e. lög nr. 35 frá 1978, og lyfjalögin nýju, nr. 49 frá 1978, öðluðust gildi hinn 1. jan. s. l. Með því að setja ný lög um lyfjadreifingu er í rauninni verið að ganga frá endurskoðun lyfjalaga hér í landinu, bæði að því er varðar lyfjafræðinga, lyfjalög almennt og lyfjadreifingu.

Ég tel, herra forseti, ekki ástæðu til að fara öllu fleiri orðum um þetta frv. Ég ítreka það persónulega sjónarmið mitt, að ég er þeirrar skoðunar að lyfjadreifing eigi að vera á höndum opinberra aðila og að lyfjadreifing eigi að tengjast hinni opinberu almennu heilbrigðisþjónustu, að annað sé í rauninni óeðlilegt miðað við allar aðstæður, m. a. líka vegna þess að ríkið sjálft og Tryggingastofnun ríkisins eru í rauninni einn stærsti kaupandi lyfja í landinu. Það eru milljarðar króna á ári hverju sem ríkið ver til lyfjakaupa og er því ekki óeðlilegt og einnig af öðrum almennum ástæðum að þetta sé á höndum ríkisins og hinna opinberu aðila. Um það er, eins og ég sagði hins vegar í upphafi máls míns, ekkert pólitískt samkomulag. Ég tel að þrátt fyrir allt sé þó með þessu frv. stigið mjög mikilvægt skref fram á við í þessum málum í þá átt að fella lyfjadreifinguna í landinu að hinni almennu heilbrigðisþjónustu. Það er grundvallaratriði þessa frv., sem ég vænti að hv. þd. taki vel eins og verið hefur um þau lyfjadreifingarfrv. sem hér hafa verið flutt áður, enda þótt þau hafi ekki náð lengra hér á Alþingi en raun ber vitni um.