10.11.1980
Neðri deild: 13. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 588 í B-deild Alþingistíðinda. (411)

72. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Flm. (Birgir Ísl. Gunnarsson):

Herra forseti. Við tveir þm., ég og hv. 7. landsk. þm., Halldór Blöndal, flytjum á þskj. 78 frv. til laga sem felur í sér breyt. á þeim lögum um tekju- og eignarskatt sem samþ. voru á Alþ. í febr. s.l., þ.e. því ákvæði, að heimild til að draga vexti frá tekjum, áður en álagning fer fram, var minnkuð verulega. Vaxtafjárhæðin er í frv. hækkuð úr 1.5 millj. kr. fyrir einstakling í 4 millj. kr. og tvöfalt hærri upphæð fyrir hjón. Þá gerir frv. ráð fyrir að fella niður skilyrði sem lögin frá því í febr. hafa að geyma, eins og ég mun nánar skýra hér á eftir.

Í marga áratugi hefur það ákvæði verið í skattalögum, að skattgreiðendur gætu dregið frá tekjum sínum vexti sem þeir hafa greitt á árinu. Ákvæði þetta var sett inn í skattalög fyrst og fremst til að auðvelda húsbyggjendum það mikla átak sem það er að eignast eigið húsnæði. Þetta var eitt af hjálpartækjum þjóðfélagsins til að örva fólk til að eignast eigin íbúð.

Það er eitt af sérkennum íslensks þjóðfélags, hve íbúðaeign er almenn hér á landi. Yfir 90% íbúða í Reykjavík, svo að dæmi sé tekið þaðan, eru í eigu þeirra fjölskyldna sem í þeim búa, og víða um land er þessi tala 100%.

Ákvæði um vaxtafrádrátt við skattlagningu hefur aðstoðað ófáa yngri sem eldri við að eignast húsnæði. Með því ákvæði hefur þjóðfélagið létt skattabyrðina á því erfiða tímabili þegar greiðslur eru þyngstar vegna íbúðaröflunar.

Það skilyrði hefur að vísu ekki verið í lögum, að lánin séu notuð til öflunar húsnæðis, þannig að önnur lán, sem almenningur tekur, hafa einnig fallið hér undir. Það hefur að sjálfsögðu komið sér vel þegar fólk þarf að taka lán vegna ákveðinna þarfa, t.d. sjúkdóma, skyndilegra áfalla af einhverjum ástæðum og þar fram eftir götunum.

Þetta ákvæði var stundum gagnrýnt fyrir að það kæmi sérstaklega til góða svonefndum skuldakóngum, en þá er átt við menn sem hafa sérstaka aðstöðu til að afla sér mikilla lána til að auka eignir sínar og láta síðan verðbólguna vinna með sér til óeðlilegrar eignaaukningar. Vafalaust eru dæmi um slíkt, og ég vil taka fram að ég hef enga sérstaka samúð með slíkum mönnum. Ef á heildina er litið er það þó allur almenningur sem hér hefur notið góðs af. Þó að einhverjum hafi tekist að spila á kerfið eru það ekki rök fyrir því að leggja kerfið niður eða takmarka það svo sem gert er ráð fyrir í núgildandi lögum um þetta efni. Þó að vitað sé að einhver brögð eru að því að almannatryggingakerfið sé misnotað, að einhverjir geri sér leik að því að spila á það, dettur engum í hug að leggja niður almannatryggingar, svo dæmi sé tekið af öðru sviði þjóðfélagsins.

Þessari áratugagömlu reglu um ótakmarkaðan vaxtafrádrátt, reglu sem hefur skapað sér hefð í hugum fólks, var breytt með þeim lögum sem sett voru hér á Alþ. í febr. s.l., og þessi nýja regla á að koma til framkvæmda við álagningu á næsta ári þegar lagt verður á tekjur þessa árs.

Til að glöggva sig aðeins á því, hver voru meginrökin fyrir þessari nýju reglu, vil ég — með leyfi forseta — lesa upp úr grg. þeirri sem fylgdi frv. þar sem fjallað er um þetta atriði, en þar segir:

„Með lögum nr. 40/1978 var lagt til að verulegar breytingar yrðu varðandi verðbreytingar í atvinnurekstri, en hins vegar voru ekki verulegar breytingar á fjármagnstekjum og kostnaði manna utan atvinnurekstrar. Þar skyldu vaxtagjöld frádráttarbær að fullu, en vaxtatekjur .að fullu skattskyldar með mikilvægri undantekningu varðandi sparifé. Af þessu leiðir gífurlegt ósamræmi milli einstaklinga utan rekstrar og aðila í atvinnurekstri.

Slíkt ósamræmi er mjög óheppilegt og skapar tilhneigingu til millifærslu eigna og skulda. Það hefur þótt nauðsynlegt að finna leið til að afnema eða draga úr þessu ósamræmi. Til greina kemur að taka upp hliðstæðar reglur um einstaklinga og lagt er til að gildi um atvinnurekstur. Slík breyting hefði í för með sér geysilega róttækar breytingar á skattabyrði. Sérstaklega snertir slík breyting tilfinnanlega þá er bera mikil vaxtagjöld. Þótt áhrif breytinganna séu mikil í atvinnurekstri koma önnur ákvæði þar á móti. Þar má einkum nefna fyrningu af endurmetnu verði. Í frv. er lagt til að draga úr ósamræminu með öðrum hætti. Tekin er upp sú almenna regla að vaxtatekjur manna utan rekstrar komi ekki til skattlagningar með tilliti til þess að leyfilegir hámarksvextir viðhalda ekki raungildi eigna við núverandi ástand. Einnig er almenna reglan sú að vaxtagjöld verði á sama hátt ekki frádráttarbær. Afnám frádráttarins mundi hins vegar skapa gífurlega erfiðleika hjá þeim aðilum sem eru að komast yfir eigið húsnæði eða eiga það eftir. Hér er því lagt til, þrátt fyrir meginregluna, að vaxtagjöld verði frádráttarbær vegna öflunar eigin húsnæðis innan ákveðinna marka. Þau mörk eru að sjálfsögðu vandfundin. Við ákvörðun slíkra marka verður fyrst og fremst að hafa í huga þann hóp fólks sem verst er sett vegna öflunar eigin húsnæðis og koma þá m.a. eftirfarandi atriði til greina.“

Síðan er vikið í grg. að tegund lána og talað sérstaklega um fasteignatryggð lán og lausaskuldir. Þá er í grg. rætt um hámark vaxta- og verðtryggingarfrádráttar og rökstutt að eðlileg mörk séu þau sem síðan voru sett í lögin, 1.5 millj. hjá einstaklingi og 3 millj. hjá hjónum.

Ég ætla ekki að rekja frekar efni grg., en þar voru sem sagt tíunduð rökin fyrir sinni nýju lagareglu um frádrátt vaxta. Við skulum þá aðeins huga að reglunni eins og hún er núna eftir breytinguna frá því í febrúar, og rekja þá miklu galla sem á henni eru.

Fyrir utan það hámark, sem sett er á vaxtafjárhæðir og ég mun ræða nánar síðar, eru skilyrði sett:

Í fyrsta lagi skulu lánin sannanlega notuð til öflunar íbúðarhúsnæðis til eigin nota. Oft er auðvelt um slíka sönnun. Húsnæðismálastjórnarlán og lífeyrissjóðslán, sem tryggð eru með veði í nýrri eign, falla auðveldlega hér undir. Margs konar önnur lán, víxla, vaxtaaukalán, lán hjá einkaaðilum og fleira sem oft er í gangi lengi og oft framlengt með nýjum lánum, er erfitt að setja í fljótu bragði í tengsl við húsnæðisöflun. Lán til annarra þarfa falla hér utan við. Hvað með lán vegna skyndilegra efnahagslegra áfalla sem oft koma fyrir í fjölskyldum, t.d. sjúkdóma, læknisferða til útlanda o.s.frv.? Af hverju eiga þau ekki einnig að koma hér undir? Samkvæmt því frv., sem hér liggur fyrir, er það skilyrði fellt niður að sannanlega þurfi að vera um að ræða lán til öflunar húsnæðis. Ég tel að skattstofum sé fengið of mikið vald í þessu efni með því að meta hvort um slíkt lán sé að ræða eða ekki.

Í öðru lagi eru samkv. gildandi lögum núna mismunandi tímamörk eftir tegundum lána. Fasteignaveðskuldir eiga að vera til þriggja ára eða lengur. Undir það falla auðsjáanlega lán húsnæðismálastjórnar og lífeyrissjóða. Fasteignatryggð vísitölulán munu oftast vera til lengri tíma en þriggja ára. Hins vegar munu svonefnd vaxtaaukalán nú yfirleitt vera til styttri tíma en þriggja ára og það færist í vöxt að þau séu ekki fasteignaveðtryggð, heldur tryggð með sjálfskuldarábyrgð ábyrgðarmanna. Ef ekki er um að ræða fasteignaveðtryggð lán til þriggja ára eða lengur kemur hin reglan til. Samkvæmt henni er það skilyrði sett að vaxtagjöld samkvæmt þeim lánum sé aðeins heimilt að draga frá tekjum árið sem húsnæðið er keypt og næsta ár þar á eftir eða, ef um nýbyggingu er að ræða, á næstu fjórum árum talið frá og með því skattári sem bygging er hafin á. Undir þessa reglu kemur mikið af lánum sem almenningur tekur í sambandi við húsbyggingar. Þá má nefna víxillán, stóran hluta vaxtaaukalána og einkalán, t.d. innan fjölskyldu.

Samkvæmt reglunni er um allt of stuttan tíma að ræða. Flestir, sem í húsbyggingum eða íbúðabyggingum standa, eru yfirleitt með slík lán í langan tíma eftir að kaup eru gerð eða bygging hófst. Við þekkjum öll hvernig þetta gengur fyrir sig. Menn taka skammtímalán á mörgum stöðum, nota eitt lánið til að greiða upp annað og þannig fram eftir götunum þangað til jafnvægi er komið á fjármálin að nýju. Það tekur oft mun lengri tíma en tvö eða fjögur ár, eftir því hvort um kaup eða sölu er að ræða, og það jafnvel þótt menn fái bæði húsnæðismálastjórnarlán og lífeyrissjóðslán. Tillagan samkvæmt frv. gerir ráð fyrir að þessi tímamörk falli niður.

Í þriðja lagi er það skilyrði sett, að frádráttur vegna vaxta megi aldrei fara yfir 1.5 millj. kr. hjá einstaklingi og 3 millj. kr. hjá hjónum. Ég tel að hér sé um of lága fjárhæð að ræða. Að vísu kemur 10% frádráttarreglan hér við sögu einnig, þ.e. að menn eiga að velja hvort þeir draga 10% frá tekjum sínum eða nýta vaxtafrádráttarheimildina, frádrátt vegna lífeyrissjóðs, iðgjalda stéttarfélaga, sjúkrasjóða, styrktarsjóða og iðgjald af lífsábyrgð. Í mörgum tilfellum mun vaxtabyrðin þó fara yfir bæði hámark laganna og 10% af tekjum í dag.

Við skulum aðeins athuga vaxtabyrði af nokkrum tegundum lána eins og þau tíðkast á lánamarkaðnum. Lífeyrissjóðslán: Nú eru kjör á lífeyrissjóðslánum allmismunandi eftir sjóðum og einnig eftir því, á hvaða tíma slík lán eru tekin. Ég skal nefna dæmi úr lífeyrissjóði sem ég þekki allvel til, þ.e. Lífeyrissjóði starfsmanna Reykjavíkurborgar, en þar mun vera í meginatriðum um að ræða sömu reglur og hjá Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins. Þar eru aðallega í gangi þrjár tegundir lána: Í fyrsta lagi eldri lán með bundna vexti frá 7% upp í 19%.

Þar er um að ræða tiltölulega lágar fjárhæðir sem skipta ekki verulegu máli í þessu sambandi. Í öðru lagi eru það lán sem veitt voru á árunum 1978 og 1979 og eru með hæstu lögleyfðu fasteignavöxtum, eins og þeir eru á hverjum tíma, en núna eru þeir 38%. Þessi lán voru að upphæð 1.5 millj. kr. til 2.3 millj. eftir því hvenær þau voru tekin á þessu tímabili. Ársvextir af þessum lánum eru því algengir á þessu ári allt að 874 þús. kr. af 2.3 millj. kr. lánum. Þriðja tegund lána frá þessum sjóði er lán frá árinu 1980 með 2% vöxtum, en fullri lánskjaravísitölu á vexti og afborganir eins og hún er á gjalddaga. Lánsfjárhæð er 4–6.5 millj. eftir því hvenær lánið er tekið. Þessi lán eru til 25 ára og vaxtaþátturinn fyrstu árin því ekki mjög þungbær, en þyngist þegar á líður.

Við skulum því næst athuga húsnæðismálastjórnarlánin en þau lán eru mjög mismunandi líka, bæði að því er fjárhæð snertir svo og vaxtakjör vegna þess að þau hafa verið að breytast í tímans rás. Ég skal nefna þrjú dæmi um lán, sem ég hef fengið hjá Húsnæðisstofnun ríkisins.

Það er í fyrsta lagi lán til nýbyggingar, veitt árið 1977, að fjárhæð 2.7 millj. kr. Vaxtagreiðslur og greiðslur vísitöluálags, eins og þær eru greiddar á gjalddaga í ár, eru: Vextir 243 þús., vísitöluálag 166 þús., samtals 409 þús. kr.

Í öðru lagi eru lán til kaupa á eldri íbúð, veitt 15. nóv. 1978, að upphæð 1.8 millj. kr. Gjalddagi er 15. nóv. 1980, vextir 170 þús., vísitöluálag 127 þús., samtals 297 þús. kr.

Í þriðja lagi er lán til nýbyggingar veitt 1978 að fjárhæð 3.6 millj. Gjalddagi var núna 1. maí 1980 og á þeim gjalddaga áttu menn að greiða í vexti 341 þús. og í vísitöluálag 182 þús. eða samtals 523 þús. kr.

Við skulum þá aðeins víkja að almennum bankalánum, en núna eiga menn aðallega kost á þrenns konar lánum.

Það eru í fyrsta lagi víxillán til fjögurra mánaða. Lengri tími mun almennt ekki tíðkast ef um víxillán er að ræða. Vextir eru 34%. Það er því fljótt að koma upp í háar tölur í ársvexti af víxlum. Af hverri millj. greiða menn sem sagt 340 þús. kr. í ársvexti.

Í öðru lagi eru það vaxtaaukalán. Almenna reglan þar er lánstími í 2–3 ár og vextir 45%, en nú skiptast þeir í verðbótaþátt og grunnvexti. Vaxtagreiðslur af milljón króna láni til þriggja ára fara yfir 1 millj. samtals sem skiptist á þessi 3 ár.

Í þriðja lagi eiga menn kost á vísitölulánum til 4–6 ára. Þau lán eru oftast fasteignatryggð, verðtrygging miðast við lánskjaravísitölu og vextir eru 2–2.5%. Ef maður tekur dæmi af einnar millj. kr. láni til fjögurra ára og reiknar með 40% jafnri árlegri hækkun vísitölu og 2% vöxtum er ein millj. kr. endurgreidd á þessu tímabili með samtals 2.6 millj. kr., þ.e. 1.6 millj. eru vextir og verðbætur sem dreifast á þessi 4 ár og með meiri þunga eftir því sem líður á lánstíma.

Þessi dæmi af nokkrum tegundum lána sýna þá gífurlegu vaxta- og verðtryggingarbyrði sem húsbyggjendur þurfa að taka á sig.

Menn geta sjálfir stillt þessum dæmum upp á ýmsa vegu til að reyna að finna úr vaxtabyrði hvers einstaklings. Það mun ég ekki gera hér, enda mismunandi eftir einstaklingum. Hitt vil ég fullyrða, að mjög margir fara langt upp fyrir hámarksfrádrátt lagana eins og þau eru nú. Ég nefni sem dæmi að eitt tiltölulega lítið lán eins og ég gat um áðan, sem á sínum tíma var upp á 2.6 millj. kr., er núna 2.3 millj. kr. Það ber vexti í ár upp á 874 þús. kr. — Við leggjum því til að þetta hámark sé hækkað verulega eða í 4 millj. kr. fyrir einstaklinga og 8 millj. kr. fyrir hjón.

Nú kunna einhverjir að spyrja: Er það ekki tekjuhæsta fólkið sem getur greitt svo háa vexti, og er þessi regla þá ekki fyrst og fremst sett fyrir það? Það tel ég ekki vera vegna þess íslenska fyrirbæris, að menn eru með mjög mörg skammtímalán í gangi, þeir sem standa í húsbyggingum, sem tekin eru hvert af öðru. Eitt lánið er notað til að greiða niður annað og þannig koma háar vaxtagreiðslur á hvert ár meðan þetta tímabil varir — vaxtagreiðslur sem raunverulega standa í engu sambandi við rauntekjur manna á þessum tíma.

Nú kunna menn að spyrja: Er þetta ekki of seint fram komið? Því flutti þm. ekki þessa ræðu í febrúar í fyrra þegar þessi ákvæði voru sett í lög, og því var þessi brtt. ekki flutt þá? Ég skal viðurkenna að þetta er réttmæt spurning og ég skal leitast við að svara henni og tel að svarið sé tvíþætt.

Í fyrsta lagi hefur hraði verðbólgunnar vaxið og vextir hækkað hröðum skrefum. Hin lífsnauðsynlegu lán eru að verða venjulegu fólki ofviða. Það dregur úr möguleikum alls venjulegs fólks til að eignast eigin íbúð. Það er því hætta á að megingrundvöllur íslensks efnahagslífs, eignarréttur eigin íbúða, sé að bresta, — hætta á því að fólk verði nauðugt viljugt knúið inn í kerfi svokallaðra félagslegra framkvæmda í íbúðahúsabyggingum. Þær eru góðar og góðra gjalda verðar svo langt sem þær eiga að ná, en ég tel að félagslegar byggingar eigi ekki að verða aðalreglan. Þá hefur skattabyrðin að öðru leyti aukist meira en búast mátti við þegar þessi nýja regla tekur gildi um áramót. Ef henni verður ekki breytt hækkar skattbyrðin enn meira.

Í öðru lagi tel ég að Alþ. hafi gert mistök í febrúar s.l. og þau mistök skal ég fúslega taka á mínar herðar, eins og aðrir þm. verða að gera. Ég hygg að þm. hafi almennt ekki gert sér næga grein fyrir hvað fólst í þessu ákvæði. Það er fróðlegt að huga að umr. um þetta mál hér fyrr á árinu þegar þetta var til umr. Þetta ákvæði var nánast aldrei nefnt á nafn í umræðum um skattalögin er þau voru hér til meðferðar.

Sannleikurinn er sá, að ég hygg að það sé allt of algengt á hinu háa Alþingi að menn geri sér ekki næga grein fyrir afleiðingum einstakra samþykkta sem hér eru gerðar. Þingið fær til meðferðar hin flóknustu mál.

Hvert frv. á fætur öðru um hin sérhæfðustu málefni er lagt fram á hinu háa Alþingi. Frv. þessi eru oft samin af her sérfræðinga, ráðh. setja stolt sitt í að koma viðkomandi málum fram, og þm. standa ekki nógu fast í ístaðinu. Yfir þjóðina er dengt löggjöf sem hefur fallegt yfirbragð, lætur vel í eyrum ef um er rætt og ekki síst þegar silkipappírinn er hafður utan á. Í rauninni er hér oft um mikinn óskapnað að ræða og illframkvæmanleg lög sem hlaða utan á báknið og auka útgjöld ríkis og almennings.

Ég tek sem dæmi um slíka hraðsuðulöggjöf bæði frv. um Húsnæðisstofnun ríkisins og frv. um hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum á s.l. vori, sem hefðu þurft að fá miklu betri meðferð. Reyndar var frv. um hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum samþ. hér með ákveðnum fyrirvörum því að menn sáu fyrir hversu mikill óskapnaður þetta yrði þegar til framkvæmdanna kæmi.

Ég verð að viðurkenna að ég óttast þennan hátt á starfi hins háa Alþingis og tel að einmitt það mál, sem hér er til umr., sé gott dæmi um hvernig mál fara hér raunverulega í gegn án þess að menn hugi nægilega að afleiðingunum. En þetta var útúrdúr.

Meginefni þessa máls er að reglan um vexti til frádráttar frá tekjum, áður en skattur er lagður á, verði endurbætt frá því sem er. Við gerum ráð fyrir að það sé sett ákveðið hámark til þess að menn geti ekki gegndarlaust safnað skuldum og borgað vexti sem komi þeim til góða við skattálagningu, en ég tel að hér sé um að ræða mikið hagsmunamál almennings, ekki síst ungs fólks sem stendur í því stóra átaki í sínu lífi að koma sér upp þaki yfir höfuðið.

Herra forseti. Ég legg til að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til fjh.- og viðskn. og 2. umr.