06.05.1981
Neðri deild: 88. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 4025 í B-deild Alþingistíðinda. (4110)

123. mál, hollustuhættir

Páll Pétursson:

Herra forseti. Ég á stutt erindi í ræðustólinn að þessu sinni, en ég vil vekja athygli á orðalagi sem við vorum að samþykkja hér um daginn við 2. umr. málsins. Það er í brtt. við 36. gr. Eftir að við samþykktum þessa brtt. er greinin orðin nokkuð einkennileg. Þar segir, með leyfi forseta, að 36. gr. skuli orðast svo:

„Lög þessi öðlast gildi 1. ágúst 1982. Með lögum þessum eru felld úr gildi lög nr. 12/1969, um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit, lög nr. 74/1977, um matvælarannsóknir ríkisins, svo og ósamrýmanleg ákvæði annarra laga.“

Þetta orðalag finnst mér ekki vera nógu markvisst og ég hef orð á þessu hér í þeirri von að hv. Ed. bæti um betur og geri skrá yfir það, hver þessi ósamrýmanlegu lög eru. Í frv. sjálfu er talað um lög um hundahald og varnir gegn sullaveiki — það er nefnt sérstaklega — svo og ákvæði annarra laga sem ganga í berhögg við þessi lög. En mér finnst að löggjafarstarfið eigi að mótast af því að menn viti, hvaða lög þeir eru þá jafnframt að nema úr gildi, og þess vegna hef ég orð á þessu. Ég vonast til þess, að hv. Ed. taki þetta sérstaka atriði til skoðunar og geri skrá yfir þau lög sem ósamrýmanleg eru þeim lögum sem hér eru í smíðum.