06.05.1981
Neðri deild: 88. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 4027 í B-deild Alþingistíðinda. (4113)

123. mál, hollustuhættir

Friðrik Sophusson:

Herra forseti. Það var ekki ætlun mín að taka þátt í þessum umr., en þær hafa orðið þó nokkrar um þetta frv., enda skal það fúslega viðurkennt að ég hef ekki sem best kynnt mér frv. og ekki síst eftir að gerðar hafa verið á því ýmsar breytingar. Þessi lagafrv. hafa verið til umr. í annarri nefnd en ég á sæti í, en það vill svo til að ég flutti ræðu um þau við 1. umr. málsins, einkum og sér í lagi vegna þess að um er að ræða hugsanlega skörun á milli þessa frv. og laga sem samþykkt voru s. l. vor um Vinnueftirlit ríkisins. Skal ég ekki fjalla frekar um það, en bendi á að á næstu mánuðum og árum verður auðvitað að endurskoða þessi lög, eins og gert er ráð fyrir, og slípa þau til með tilliti til þeirrar reynslu sem fæst af þeim.

Það er alveg rétt, sem hér hefur komið fram, að það voru gefin ákveðin fyrirheit þá um að leggja niður ýmsar stofnanir. Það var að vísu ekki ráðh. sem lýsti yfir að Brunaeftirlitið yrði lagt undir Vinnueftirlitið, heldur var það hagsýslustjóri sem gerði ráð fyrir því á sínum tíma að það gerðist við samþykkt lagafrv. um Vinnueftirlit ríkisins. Það vekur jafnframt athygli að það hefur verið vitað að Framleiðslueftirlit sjávarafurða hefur verið í athugun hjá nefndum, en þm. hafa ekki haft greiðan aðgang að upplýsingum um hvaða tillögur eru uppi um framtíð þeirrar stofnunar. Á þetta minnist ég hér fyrst og fremst vegna þess að ég er hræddur um að ýmsir hv. þm. átti sig ekki á því, hvernig er verið að fara með atvinnureksturinn í landinu þar sem er verið að hlaða upp stofnunum sem eiga að hafa eftirlit með hinu og þessu án þess að jafnvel sé nokkurt samráð á milli þeirra, eins og réttilega kom fram hjá hv. þm. Ólafi Þ. Þórðarsyni. Þetta verður til þess að skilningur manna og umgengni við lagabókstafinn verður með þeim hætti að menn bera heldur litla virðingu fyrir lögunum. Það er víðast þannig þar sem atvinnurekstur er frjáls, að þm. annarra þjóða a. m. k. hafi skilning á því, að það er atvinnureksturinn sem stendur undir kostnaðinum öllum við þjóðarbúið. Auðvitað á að reyna að auðvelda stjórnendum fyrirtækja starf þeirra í flóknu þjóðfélagi, en ekki reyna að leggja stein í götu þeirra, en því miður virðist það oft óviljandi koma út úr ýmissi löggjöf frá löggjafarsamkomu — ekki síst þegar um er að ræða lög sem samin eru af sérfræðingum ríkisins.

Um þetta ætla ég ekki að fjalla frekar að sinni, en ég vil, ef hæstv. félmrh. vildi vera svo góður að hlýða aðeins á það mál, skora á hann, af því að ég veit að hann er margra manna maki í sínu embætti, að hann láti í sumar fara fram ítarlega rannsókn á því af hálfu rn. síns, hvaða eftirlitsstofnanir eru starfandi samkv. lögum, og gera skrá um það, einfalda skrá, og leggja á borð,þm. í haust. Þá sjá þm. ugglaust hvernig þessum málum er háttað. Mér er kunnugt um að sumar þessar stofnanir eru hvorki undir heilbr.- og trygginga- né félmrn., heldur heyra þær undir önnur rn. En það er eðlilegt. að félmrn. gangist fyrir slíkri skoðun þannig að þm. átti sig á hvaða stofnanir í landinu það eru sem hafa eftirlit með atvinnurekstrinum. Við í fjvn. verðum varir við það á ári hverju, að ef eitthvert óhapp verður og ef um eftirlitskort er að ræða vantar fjármagn hjá þessari stofnun og hinni. Skemmst er að minnast t. d. óhappa sem hafa orðið við niðurlagningu hér á landi. Þá mætti halda að eina lausn þeirra mála væri í því fólgin að fjölga mönnum við eftirlit. Þetta er auðvitað rakalaus misskilningur því að það sem skortir er auðvitað fyrst og fremst ábyrgð framleiðenda, en hér á landi gildir það, að þeir, sem framleiða gallaða vöru, hafa í ýmsum tilvikum, ef þeir eru ekki hreinlega í ríkisrekstri, getað gengið í ríkiskassann og fengið þar fulla ábyrgð hvernig sem að framleiðslunni er staðið. Það er þarna sem pottur er brotinn, og það er á þessu sviði auðvitað sem Alþingi getur látið sig málið varða og notað beinar sektir og leyft fyrirtækjum, sem ekki standa sig og framleiða gallaða vöru, að fara bókstaflega á hausinn. En við förum aðra leið. Við förum þá leið að hlaða upp í embættismannakerfinu, í eftirlitsstofnunum ýmsum, mannskap sem síðan er þjótandi út um landið og þykist vera að hafa eftirlit með hinu og þessu. Sjálfur hef ég stundað atvinnurekstur úti á landi. Það er bókstaflega hlægilegt — ég segi það hér í ræðustól — að fá í heimsókn öðru hverju menn sem eru bendandi hér og þar og skrifandi skýrslur — og svo kemur næsti maður. Sumt, sem fram fer, er náttúrlega tvíverknaður og fyrir neðan allar hellur.

En þá kem ég að því sem ég vildi segja hér síðast, og það er um þær breytingar sem hafa verið gerðar og 14. brtt. á þskj. 680, sem hv. þm. Páll Pétursson minntist á, en þar hefur n. breytt orðalagi þannig að nú stendur, með leyfi forseta: „svo og ósamrýmanleg ákvæði annarra laga“. Varð þarna breyting á 36. gr. þar sem áður voru tiltekin lögin. Ég er hræddur um að þetta standist ekki, einfaldlega vegna þess að í 1. gr. lagafrv. í 3. tölul. segir mjög skýrt og skorinort að þessi lög séu víkjandi lög. Það kom fram hjá ráðh. og hefur komið fram hjá aðalhöfundi laganna, Ingimar Sigurðssyni, að þessi löggjöf er víkjandi. Hún er almenn og henni er ætlað að víkja þar sem sérlög ná til. Með því að hafa slíkt almennt ákvæði í 36. gr. um að fella eigi niður ósamrýmanlegan lagabókstaf er gengið þvert á tilgang laganna. Ég er hræddur um, alveg faglega talað, að þetta geti ekki gengið sem löggjöf frá Alþingi, og vil þess vegna taka undir það, sem hv. þm. Páll Pétursson sagði áðan, að ekki sé bara ósmekklegt að orða þetta svona. Þetta gæti gengið ef lögin væru fortakslaus og giltu fram yfir önnur lög. En það er tilgangur laganna að koma inn þar sem öðrum lögum sleppir. Þetta veit ég að hæstv. ráðh. staðfestir, alla vega með þögninni, ef hann vill ekki koma hér í ræðustól, og þess vegna skora ég á n. eða á þá, sem næst fá þetta frv. til meðhöndlunar, að gera bragarbót á þessu ákvæði.