06.05.1981
Neðri deild: 88. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 4029 í B-deild Alþingistíðinda. (4114)

123. mál, hollustuhættir

Frsm. (Guðrún Helgadóttir):

Herra forseti. Ég vil byrja á því að lýsa yfir stuðningi mínum við brtt. þær sem hér liggja frammi á þskj. 725. Um það mál hafði að vísu töluvert verið rætt í n. og höfðu menn misjafnar skoðanir á gagnsemi sýslunefnda, en svo langt komst málið aldrei, á meðan verið var að vinna að brtt. sem áður voru komnar fram að þessu yrði breytt. Ég fæ ekki séð annað en þetta sé e. t. v. til bóta þar sem sýslunefndarmenn eru ekki kjörnir úr hreppsnefnd, heldur skipaðir, og vil því hvetja hv. deild til að samþykkja þessar brtt.

Ég skal ekki hafa mörg orð um þetta frv. í heild. Ég vil aðeins geta þess, að í því er búið að vinna mikið. Ég vil sérstaklega þakka starfsmönnum n., þeim Ingimar Sigurðssyni deildarstjóra og Þórhalli Halldórssyni heilbrigðisfulltrúa, fyrir þá aðstoð sem þeir hafa veitt og jafnframt þakka n. fyrir ákaflega vel unnin störf og sanngjarna málsmeðferð í alla staði.

Ég vil að lokum vísa því til föðurhúsanna, að hér sé verið að gera lög þar sem hver stofnunin sé í stríði við aðra. Tilgangur þeirra er einmitt allur annar, sem sé að reyna að koma þessum málum undir sameinaða stjórn. Ég vil benda á að ákvæði til bráðabirgða er um að þessi lög skuli endurskoðuð innan fimm ára, og ég held að það sé mjög ósanngjarnt að halda fram að þessi lög verði hv. Alþingi á nokkurn hátt til vansa.

Aths. hv. þm. Friðriks Sophussonar er aths. sem ég minnist ekki að hafi komið fram fyrr. Það má vel vera að það sé eitthvað til í því hreint lögfræðilega séð að þarna hefði átt að geta hverra laga um sig. Þó man ég að um það var rætt að þetta orðalag væri nægjanlegt, og ef ég man rétt fékk ég þær upplýsingar að þar mætti kveða nánar á í reglugerð. Nú er ég ekki alveg nógu lögfróð til þess að vita hvort þetta getur staðist eða ekki, en sjálfsagt er að biðja hv. nefnd, sem fær málið nú til meðferðar, að athuga það.

Menn, eru hræddir við skörun hinna ýmsu laga um þessi efni og getur sú hræðsla átt við rök að styðjast. Nú vinnur Náttúruverndarráð t. d. að lagasmíð um náttúruverndarmál. Ég hef aðeins séð þau drög og benti á það á nýafstöðnu Náttúruverndarþingi, að þar gæti auðveldlega komið til skörunar. Við því verður auðvitað aldrei alveg gert og það þarf ekkert að vera af hinu illa þó að slík lög, sem fjalla óneitanlega um mjög skyld efni, skarist. Um það hlýtur ævinlega að vera hægt að komast að samkomulagi. En lög, sem eiga að tryggja eftirlit með svo margvíslegum atriðum í umhverfi manna, heilsufari þeirra og öryggi, hvort sem er á vinnustað eða annars staðar, held ég að geti aldrei orðið öðruvísi en þannig, að þar skarist einhver atriði.

Ég vil sem sagt að lokum þakka samnm. mínum fyrir frábær störf og vænti þess, að með þeirri breytingu, sem hér liggur frammi á þskj. 725, nái þetta mál nú fram að ganga og komist það langt að verða að lögum á þessu þingi.