06.05.1981
Neðri deild: 88. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 4033 í B-deild Alþingistíðinda. (4127)

315. mál, Bjargráðasjóður

Steinþór Gestsson:

Herra forseti. Þegar til afgreiðslu voru hér í hv. Alþingi, bæði í Ed. og eins í Nd., lánsfjárlög fyrir árið 1981 lágu fyrir brtt. frá þm. Sjálfstfl. um að tekin yrði inn heimild fyrir ríkisstj. til að taka lán til að veita Bjargráðasjóði það fjármagn að hann gæti komið til móts við þarfir þeirra sem fyrir mestum skaða hefðu orðið í fárviðrinu sem gekk yfir í vetur. Við afgreiðslu lánsfjárlaganna hér í hv. Nd. fór hæstv. félmrh. fram á það við okkur, sem fluttum brtt., að við drægjum þá till. til baka, og hét því, að hann mundi bera fram sérstakt frv. sem yrði til þess að leysa þær þarfir sem um hafði verið rætt. Við urðum við þeim tilmælum ráðh. vegna þess sérstaklega að við töldum það mikilvægt í málum sem þessum að almenn samstaða næðist um afgreiðslu. Það frv., sem hér er til umr., er ekki flutt af félmrh. Það er flutt af fjmrh. Það má segja að ef frv. á annað borð væri í lagi skipti ekki máli hver flytti það. Það, sem máli skiptir, er að það leysi þann vanda sem því er ætlað að leysa.

Ég veitti því athygli að hæstv. fjmrh. gat þess, að skýrt lægi nú fyrir hversu það tjón væri mikið sem orðið hefði, að mati dómkvaddra manna sem hefðu starfað að þessum málum. Hann nefndi ekki þá upphæð, en fyrir liggur í grg., sem alþm. var afhent síðustu vikuna í apríl, að matið næði til 616 einstaklinga, ef ég man rétt, og næmi um 16 millj. kr. Nú hef ég haft samband við framkvæmdastjóra Bjargráðasjóðs og hann hefur sagt mér að nokkuð hafi bæst við í þennan sarp og að þeir, sem orðið hefðu fyrir svo verulegu tjóni að þeir kæmust á þessa skrá, væru komnir á áttunda hundrað, upphæðin hefði að vísu ekki vaxið mjög mikið, en inn á þessa skrá var enginn tekinn sem hafði orðið fyrir minna tjóni en hálfri millj. gkr. Og það fylgir með í bréfinu frá Sambandi ísl. sveitarfélaga að gert er ráð fyrir að þegar bætur yrðu látnar af hendi, í hverju formi sem það yrði, væri þessi sama upphæð reiknuð frá hverjum manni áður en til tjónabóta kæmi.

Nú tók ég eftir því, að hæstv. fjmrh. hafði þau orð um áðan að sú fyrirgreiðsla, sem heitið er með þessu frv., mundi nægja til að standa við þá lánafyrirgreiðslu sem heitið hefði verið í sambandi við þetta mál. Ég kannast ekki við það í umr. um tjónið sem varð í vetur, að það hafi sérstaklega verið rætt um að hér kæmi einungis til lánafyrirgreiðsla til þeirra sem fyrir tjóni urðu. Ég vil leggja á það ríka áherslu, að ég tel að það sé ekki komið til móts við brýnustu þarfir manna ef þeim stæði aðeins til boða að fá verðtryggð lán með vöxtum til að mæta þessu tjóni. Samband ísl. sveitarfélaga lætur koma fram í sínu bréfi að eðlilegt sé að draga frá, áður en tjónið er gert upp, ákveðna upphæð, sem ég vil álíta að sé þá sama sem eigin áhætta og jafnist því á við það þegar menn tryggja eignir sínar. Að mínum dómi eigum við að sameinast um hér á hv. Alþingi að ganga þannig frá þessum málum að hægt sé að fara eftir eldri lögum Bjargráðasjóðs um fyrirgreiðslu vegna þess hversu þessi tjón eru stór yfirleitt og hversu þau eru almenn.

Í lögum um Bjargráðasjóð var það upphaflega svo, að ekki var um að ræða fyrirgreiðslu í þessum tilvikum öðruvísi en menn fengu styrk eða vaxtalaus lán. Með breytingu, sem gerð var á lögunum 1977, var sjóðsstjórninni heimilað að ákveða allt að 10% ársvexti af lánum sem veitt væru úr sjóðnum, en með lagabreytingu, sem samþykkt var á Alþingi 1980, 29. maí, var lögunum breytt í þá átt, að stjórn sjóðsins ákvæði kjör á lánum, þar með talinn lánstíma, vexti og hvort lán skuli bundin verðtryggingu. Þetta eru þau lög sem nú eru í gildi varðandi lánakjörin. Ég tel að þar sem í frv. er aðeins um heimild að ræða megi ekki í þessu tilviki fara að örðugustu lánakjörum sem fyrir hendi eru þegar fyrirgreiðsla er veitt í þessu tilviki. Því miður er í lagafrv., eins og það liggur fyrir, gert aðeins ráð fyrir að fjmrh. fyrir hönd ríkissjóðs sé heimilt að ábyrgjast lán sem Bjargráðasjóður tekur, en í þeim till., sem við sjálfstæðismenn fluttum á hv. Alþingi fyrr í vetur, var hvarvetna gert ráð fyrir að greinin orðaðist svo, að fjmrh. væri heimilt fyrir hönd ríkissjóðs að taka lán á árinu 1981 og veita Bjargráðasjóði það fjármagn til ráðstöfunar. Á þessu er að mínum dómi reginmunur, og ég vænti þess, að sú nefnd, sem fær þetta mál til meðferðar, taki tillit til þessa og hún hafi sömu skoðun á þessu og ég og hún breyti frv. að þessu leyti, nema hreinar yfirlýsingar séu gefnar um skilning á viðkomandi ráðh. á ákvæðum frv. og vilja þeirra á fyrirgreiðslu Bjargráðasjóðs.