06.05.1981
Neðri deild: 88. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 4035 í B-deild Alþingistíðinda. (4128)

315. mál, Bjargráðasjóður

Matthías Bjarnason:

Herra forseti. Ég ætla að beina fsp. til hæstv. fjmrh., sem mælti fyrir frv., um leið og ég tek undir það sem hv. 2. þm. Suðurl. sagði.

Hér er lagt til að fjmrh. fái heimild til að ábyrgjast með sjálfskuldarábyrgð lán sem Bjargráðasjóður tekur, að upphæð allt að 15 millj. kr., og lánið má vera verðtryggt. Orðið „má“ er teygjanlegt þar sem sennilega er ekki mikið um möguleika á öðrum lánum en verðtryggðum.

Þá kom það fram í máli hv. 2. þm. Suðurl., að þetta frv. gerir ekki ráð fyrir að Bjargráðasjóði eða stjórn Bjargráðasjóðs sé heimilt að lána aftur út með viðráðanlegum kjörum. Þó að það komi hér fram finnst mér það mikils virði, sérstaklega í sambandi við störf í þeirri nefnd sem fær frv. til meðferðar og ég á sæti í, að fá yfirlýsingu um það hjá hæstv. ráðh., hvort hann líti svo á, þegar þessi heimild hefur verið notuð, að stjórn Bjargráðasjóðs geti lánað féð aftur út án verðtryggingar, hún hafi heimild til þess að ákveða lánstíma og lægri vexti en hæstu vexti eða verðtryggð lán þannig að þetta sé viðráðanlegt fyrir það fólk sem hefur orðið fyrir tilfinnanlegu tjóni. Er það skilningur hæstv. ráðh. að stjórn Bjargráðasjóðs geti endurlánað þetta fé með þessum hætti? Er það einnig skilningur hæstv. ráðh. að stjórn Bjargráðasjóðs geti að einhverju leyti veitt þetta sem styrk, eins og yfirleitt hefur alltaf verið gert á undanförnum árum og áratugum? Þetta skiptir verulegu máli og mundi greiða fyrir mjög skjótri afgreiðslu þessa frv.

Að öðru leyti fagna ég því, að þetta frv. er komið fram, en það er, eins og hv. 2. þm. Suðurl. sagði, með nokkuð öðrum hætti en brtt. hans og fleiri þm. gerði ráð fyrir og undirtektir hæstv. félmrh. þegar hann fór þess á leit að till. þeirra yrði tekin aftur við afgreiðslu lánsfjárlaga. Því ber ég þessa fsp. upp við hæstv. fjmrh.