06.05.1981
Neðri deild: 88. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 4044 í B-deild Alþingistíðinda. (4138)

56. mál, Framleiðsluráð landbúnaðarins

Árni Gunnarsson:

Herra forseti. Ég hef undirritað nál. hv. landbn. Nd. með fyrirvara og hyggst nú gera nokkra grein fyrir því, hvers vegna sá fyrirvari var gerður.

Rauði þráðurinn í þeim fyrirvara er sá, að hér sé í raun og veru teflt á tæpasta vaðið hvað varðar það að færa framkvæmdavaldinu heimildir til skattlagningar eða breytinga á sköttum er kynnu að brjóta í bága við 40. gr. stjórnarskrárinnar. Þetta er hins vegar mjög mikið vafaatriði og eftir vandlega íhugun og viðræður við þá lögfróðu menn, sem hér hefur verið vitnað í, og með skírskotun til dóms, sem fallið hefur í máli sem gæti verið nokkur hliðstæða þess máls sem hér um ræðir, samþykkir þingflokkur Alþfl. að styðja þetta frv. eins og það nú liggur fyrir, enda hefur flokkurinn verið því hlynntur að þessi fóðurbætisskattur kæmist á eða einhver sú aðferð notuð er dregið gæti úr offramleiðslu landbúnaðarvara. Þess ber og að geta, að það eru framleiðendur sjálfir sem leggja á sig þetta gjald og eiga raunverulega frumkvæðið að því.

Menn hafa mjög rætt um að hér sé á ferðinni skattur, en það er mikið skilgreiningaratriði hvort hér er á ferðinni verðjöfnun eða skattur. Það mál, sem ég vitna til í þessum efnum, í því féll dómur í des. 1972, fjallaði um Verðjöfnunarsjóð fiskiðnaðarins og sjútvrh. og fjmrh. fyrir hönd ríkissjóðs gegn Niðursuðu- og hraðfrystihúsi Langeyrar. Þar var um að ræða mál er fjallaði um verðjöfnunargjald á rækju og kemur mjög heim og saman að mínu mati við það gjald eða þá verðjöfnun sem hér er um að ræða.

Ég vil þó ekki láta þetta mál fram hjá þinginu fara án þess að vekja sérstaka athygli á því, að lögfróðir menn hafa af því umtalsverðar áhyggjur að Alþingi geri helst til mikið að því að afhenda framkvæmdavaldinu heimildir til álagningar skatta og heimildir til að gera sitt af hverju tagi sem ekki stenst þá skiptingu löggjafarvalds og framkvæmdavalds sem við búum við.

Í sambandi við þennan fóðurbætisskatt vildi ég láta það koma fram sérstaklega, að þótt ég sé honum hlynntur og þingflokkur Alþfl. er ekki loku fyrir það skotið að hér hafi verið tekið heldur stórt stökk, sem m. a. kemur fram í því, að samdráttur í mjólkurframleiðslu hefur orðið umtalsverður og það mikill að nú er óttast að hér verði mjólkurskortur í landinu áður en þessu ári er lokið eða það liðið og jafnvel snemma árs. Það er nú svo með okkur Íslendinga, að þegar við tökum á einhverjum málaflokkum og málum, sem við viljum breyta til batnaðar, vilja stökkin vera býsna stór, eins og dæmin sanna.

Þess ber og að geta, að þetta fóðurbætisgjald og framkvæmd innheimtu þess hefur verið óttalegt vandræðamál og þar er um að ræða framkvæmdaatriði. Það kom fram í landbn. Nd., þegar um þetta mál var fjallað, að innflytjendur og seljendur höfðu af því umtalsverðar áhyggjur hversu erfitt væri að innheimta þetta gjald og hve mikil skriffinnska fylgdi því og er sjálfsagt að nefna það hér. M. a. barst nefndinni umsögn frá fóðurvörudeild KEA og til nefndarinnar komu innflytjendur og fóðurvörusalar og lýstu skoðunum sínum á þessu máli.

En í aðalatriðum, til þess að lengja nú ekki þetta mál, gerði ég þennan fyrirvara fyrir hönd Alþfl. eða þingflokks Alþfl. vegna þeirra aths. sem komið hafa fram frá stjórnlagafræðingum og lögmönnum þess efnis, að hér væri raunverulega teflt á tæpasta vaðið hvað varðar það að setja lög sem fengju staðist. Hins vegar verður að bæta því við, og hefur það komið fram í þessari umr. í dag, að prófessor Jónatan Þórmundsson, þótt hann teldi að hér væri á ferðinni mjög vafasamt gjald, taldi það mundu standast fyrir dómstólum og það væri vegna linku dómstólanna sjálfra, eins og hann orðaði það, í málum af þessu tagi, enda munu ekki dæmi til þess að dómstólar hafi á þennan hátt hnikað til lögum.

Það er búið að segja margt um þetta mál. Hv. þm. Steinþór Gestsson rakti hér þau atriði sem komið hafa fram varðandi það að þetta mál kunni að jaðra við að vera stjórnarskrárbrot, og sjálfur fullyrti hv. þm. að svo væri. Það tel ég hins vegar ekki vera og get fært að því gild rök. M. a. hef ég þann dóm, sem ég nefndi hér áðan og féll 1. des. 1972 í mjög svipuðu máli, til hliðsjónar þegar ég met stöðu þessa máls.

Fyrirvari minn var í því fólginn, að ég vildi benda á þá hættulegu braut, sem hér er stigið út á, og að þinginu beri að forðast að ganga svo nærri stjórnarskránni að á því geti verið neinn vafi að um brot á henni kunni að vera að ræða.