10.11.1980
Neðri deild: 14. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 593 í B-deild Alþingistíðinda. (414)

33. mál, málefni Flugleiða hf.

Fjmrh. (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Ég leyfi mér að mæla fyrir frv. til l. um málefni Flugleiða hf. Frv. þetta hefur verið afgreitt frá hv. Ed.

Eins og kunnugt er er hér um að ræða að samandregin eru í eitt frv. ýmis atriði sem varða fyrirgreiðslu við Flugleiðir hf. vegna þeirra erfiðleika sem félagið stendur nú frammi fyrir. Eins og mönnum er kunnugt er hér um ýmsar tegundir fyrirgreiðslu að ræða sem ekki eru allar sama eðlis. Má segja að fyrirgreiðsla þessi sé fyrst og fremst í þrennu lagi.

Í fyrsta lagi — og má segja að það sé aðalatriði málsins — er lagt til í 3. gr. frv. að ríkisstj. sé heimilt, gegn þeim tryggingum sem hún metur gildar, að veita Flugleiðum sjálfskuldarábyrgð á lánum, sem nema allt að 12 millj. Bandaríkjadala, til að bæta rekstrarfjárstöðu fyrirtækisins. Þetta er stærsta og mesta fyrirgreiðslan sem fólgin er í þessu frv. Hér er lagt til að það verði komið undir mati ríkisstj., eftir að upplýsingar liggja fyrir um veðhæfni eigna fyrirtækisins, hvort þessi fyrirgreiðsla verður veitt að öllu leyti eða að hluta til. Þessi athugun er nú langt á veg komin og niðurstaða hennar ætti að geta legið fyrir innan tíðar. Ég tel því líklegt að þegar hv. deild hefur lokið athugun sinni á þessu frv. og afgreitt málið ætti ekki að líða langur tími þar til endanleg afstaða verður tekin til þess, hvað hægt er að réttlæta að gengið sé í ábyrgðir fyrir háum fjárhæðum í þessu sambandi.

Í öðru lagi er um það að ræða, að ríkisstj. veiti Flugleiðum sjálfskuldarábyrgð á láni sem nemur allt að 3 millj. Bandaríkjadala eða jafnvirði þeirrar fjárhæðar í íslenskum krónum, en þetta er fyrirgreiðsla sem er í takt við þá fyrirgreiðslu sem stjórnvöld í Lúxemborg hyggjast veita. Hér er fyrirgreiðslan þó í nokkuð öðru formi að því leyti, að gert er ráð fyrir að tekið sé lán í þessu skyni og það greitt Flugleiðum hf. á næstu mánuðum, en lánið sé gert upp, þegar þar að kemur, með tilliti til rekstrarafkomu fyrirtækisins á ofangreindu tímabili og að teknu tilliti til þess, hverju lendingargjöld, leigugjöld vegna lendingaraðstöðu á Keflavíkurvelli, tekju- og eignarskattur, launaskattur og önnur gjöld, sem félagið greiðir á réttum gjalddögum og rekja má til Norður-Atlantshafsflugsins, hafa numið á yfirstandandi ári eða á yfirstandandi rekstrartímabili.

Í þriðja lagi er tekið mið af því hvaða tekjur telja má að ríki og sveitarfélög hafi haft undanfarin ár af flugi á umræddri flugleið.

Ég hjó eftir því þegar málið var til umr. í hv. Ed., að þm. gagnrýndu að hér væri hafður nokkuð flókinn háttur á ákveðinni fyrirgreiðstu. En ég hygg að þegar menn hafa íhugað málið nánar hafi menn séð að miðað við, að þessa fyrirgreiðslu þarf að veita á næstu mánuðum og ekki er hægt að bíða eftir að viðkomandi gjöld eða skattar falli í gjalddaga, sé erfitt að hafa annan hátt á. Eftirtektarvert er, að þrátt fyrir gagnrýnina, sem kom fram í Ed., hefur hún nú afgreitt frv. án þess að nokkur breyting sé gerð á þessu ákvæði eða nokkur till. hafi komið fram um breytingu á því. Ég held satt að segja að það sé hægt og sígandi að fara mesta loftið úr mönnum í sambandi við þetta mál, að menn séu að fallast á að sú leið, sem ríkisstj. hefur valið í þessum efnum, sé sú rétta og að ástæðulaust sé að halda uppi löngum ræðum eða miklum illdeilum út af þessu, málið verði að leysast með þeim tiltekna hætti sem fólginn er í þessu frv.

Þó er rétt að bæta því við hér, sem er ákaflega mikilvægt atriði í þessu sambandi, að í Ed. var talið nauðsynlegt að reyna að ná sem bestu samkomulagi um það, með hvaða skilyrðum fyrirgreiðslan yrði veitt. Ég tel afar gæfulegt að fullt samkomulag skyldi nást milli fulltrúa allra flokka og milli ríkisstj. og þings um í hverju þessi skilyrði yrðu fólgin. Hitt tel ég algert aukaatriði og smámál sem engu máli skiptir í raun með hvaða hætti er gengið frá þessum skilyrðum, hvort það er gert með því að taka þau öll í heilu lagi inn í lagatextann eða hvort þau eru bókfest og skjalfest í meirihlutaáliti fjh.- og viðskn. Ed. sem samkomulag milli flokka í þinginu og milli þings og ríkisstj.

Ég sé ekki ástæðu til að fjölyrða um skilyrðin vegna þess að þau eru öll greind á þskj. 94, í nál. meiri hl. fjh.og viðskn. Ed. um þetta frv. Í áliti minni hl. eru nokkurn veginn sömu skilyrði tekin upp, þó að ég skuli að vísu viðurkenna að þar mun vera eilítill munur á, en ekki stór. Ég held að efnislega séð hafi verið nokkurn veginn fullt samkomulag um hvernig afgreiða skyldi málið og hvaða skilyrðum félagið yrði að sæta til þess að það ætti að fá þá fyrirgreiðslu sem frv. greinir frá. Ég vil taka það fram, að skilyrðin, sem fulltrúi Alþfl. setti fram í brtt. á þskj. 96, voru 8, en ekki 7 eins og koma fram í nál. meiri hl. Bætt er við því skilyrði að fyrirtækið standi skil á opinberum gjöldum. Ég tel að það skilyrði sé algerlega óþarft, vegna þess að það kemur skýrt fram í 2. mgr. 1. gr. frv. og mér sýnist á öllu að hrein tvítekning væri að fara að nefna það aftur síðar í frv.

Til viðbótar þessu eru nokkur fleiri atriði í frv. sem varða fyrirgreiðslu við félagið, og ber þar einkum að nefna atriðin sem koma fram í 4. gr., að ríkisstj. sé heimilt að fella niður ógreidd lendingargjöld Flugleiða hf. á Keflavíkurflugvelli af Atlantshafsfluginu fram til 1. okt. 1980, og í öðru lagi, að heimilt sé að semja um greiðslufrest á aðflutningsgjöldum, sérstöku vörugjaldi og söluskatti af tölvubúnaði til farþegabókhalds. Enn fremur er ríkisstj. samkv. þessari grein heimilt að fella niður stimpilgjöld af lánsskjölum sem gefin voru út vegna kaupa Flugleiða hf. á flugvél af gerðinni Boeing 727-200 árið 1980.

Þeirri spurningu hefur öðru hvoru verið varpað fram í þessu máli, hvort fyrirgreiðsla íslenskra stjórnvalda sé lakari en sú fyrirgreiðsla, sem stjórnvöld í Lúxemborg hyggjast veita, og hvort ekki sé óeðlilegt að í frv. sé rætt um að fella niður ógreidd lendingargjöld Flugleiða fram til 1. okt. 1980 þegar vitað sé að stjórnvöld í Lúxemborg hyggist fella lendingargjöld frá árinu 1979 algerlega niður. Munurinn á þessu tvennu er tæpar 200 millj. kr. sem eru þannig til komnar að Flugleiðir hafa greitt sem nemur lendingargjöldum af Atlantshafsfluginu fram á mitt sumar 1979, og við höfum ekki talið rétt við afgreiðstu þessa máls að gera ráð fyrir að við færum að borga til baka það sem var greitt í ríkissjóð af lendingargjöldum fyrir rúmu einu ári. En ég vil taka fram, að ég tel að það sé auðvitað ekki neinn minnsti vafi á því, að fyrirgreiðsla íslenskra stjórnvalda í þessum efnum er miklu meiri en fyrirgreiðsla stjórnvalda í Lúxemborg. Það er ekki nóg með að við veitum þá fyrirgreiðslu sem felst í 1. gr., sem er það sama sem Lúxemborgarar gera, heldur erum við þar að auki að veita tryggingu sem getur numið allt að 6 milljörðum kr. til viðbótar við tryggingu upp á 3 milljarða sem veitt var á s.l. vori. Þar að auki erum við, eins og kom fram áðan, að fella niður stimpilgjöld á lánsskjölum, sem gefin voru út vegna kaupa Flugleiða á Boeing 727–200, og veita greiðslufrest á ýmsum gjöldum.

Sú hugmynd kom fram við afgreiðslu málsins í Ed., við umr. um málið í fjh.- og viðskn. Ed., að kannske kynni að vera rétt að haga fyrirgreiðslu við félagið á þann veg að hægt væri að segja að við gerðum nákvæmlega það sama gagnvart félaginu og Lúxemborgarar gera eða stjórnvöld þar í landi, þannig að við felldum niður með öllu lendingargjöldin sem hafa þegar verið greidd í ríkissjóð frá árinu 1979. Til þess að jafna metin hvað þetta snertir hefði auðvitað verið hugsanlegt að færa þarna til með einhverjum hætti. Það er út af fyrir sig ekkert sjálfgert að það eigi að fella niður stimpilgjöld af þessum lánsskjölum, eins og hér er nefnt, og væri auðvitað hugsanlegt að bókfæra þau á annan hátt þannig að það væru hreinni línur hvað þennan jöfnuð snertir, en fyrirgreiðsla stjórnvalda við fyrirtækið þó ekki aukin frá því sem gert er ráð fyrir í þessu frv. Ég tel að við eigum að standa við það sem hefur verið lofað í sambandi við þetta frv., en við eigum ekki að ganga lengra, og það sé ekki með neinum rétti hægt að halda því fram, að ríkissjóður skeri við nögl fyrirgreiðslu sína í þessu sambandi. En vissulega hefði getað komið til greina og getur komið til greina að hafa þarna annan hátt á. Það mál hefur verið í athugun og þeirri athugun er ekki að fullu lokið. Samkv. þeim upplýsingum, sem hæstv. samgrh. hefur veitt mér, hefur hann rætt þetta við forráðamenn fyrirtækisins og mér skilst á honum að þeir hafi ekki talið að skipti ýkjamiklu máti, á hvern veg fyrirgreiðslunni yrði hagað, og að þeir hafi ekki sýnt því mikinn áhuga að þarna yrði breytt um. Meðan ekki er niðurstaða fengin er að sjálfsögðu engin brtt. flutt af minni hálfu við frv., en sjálfsagt er að athuga þennan þátt málsins betur, enda var gert ráð fyrir því þegar frv. var afgreitt frá fjh.- og viðskn. Ed.

Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til að fjölyrða frekar um þetta mál hér og nú. Það mætti sannarlega halda langar ræður um þetta mál og þá ekki síst um eitt og annað furðulegt sem komið hefur fram í málflutningi stjórnarandstæðinga um þetta mál og afstöðu einstakra flokka til þess. En ég held að það liggi á að afgreiða þetta mál. Ég held að það sé mikið atriði að Alþ. komi því frá sér sem allra fyrst. Ég vil þess vegna ekki bæta neinu því við sem verður til þess að hér þurfi að fara fram einhverjar maraþonumr. um þetta mál við 1. umr. Ég held að það væri þá miklu frekar að við tækjum málið til nánari umr. við 2. umr. þegar það kemur úr nefnd.

Ég hefði talið afar æskilegt ef hægt hefði verið að vísa þessu máli til n. áður en fundi deildarinnar lýkur í dag, og einmitt þess vegna eru nú afbrigði veitt. Frv. var afgreitt fyrir nokkrum klukkustundum í Ed. og hefði að öllu venjulega ekki átt að taka það hér fyrir fyrr en að einum degi liðnum. En vegna þess að það liggur á að fara að koma þessu máli frá hafa afbrigði verið veitt, og ég vil sannarlega skora á þm. að veita þessu máli brautargengi í gegnum deildina nú og geyma sér þá frekari umr. um málið þar til það kemur til 2. umr.

Herra forseti. Ég vil leyfa mér að leggja til að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til hv. fjh.- og viðskn.