06.05.1981
Neðri deild: 88. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 4048 í B-deild Alþingistíðinda. (4141)

56. mál, Framleiðsluráð landbúnaðarins

Frsm. minni hl. (Steinþór Gestsson):

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð sem ég tel mig knúinn til að hafa hér um málið í framhaldi af þeim umr. sem orðið hafa.

Það var hæstv. landbrh. sem hafði þau orð um, að í lögunum frá 1979 væri framkvæmd laganna að vísu fengin í hendur „nokkuð fjarlægum aðila“, ef ég hef tekið rétt eftir. Það er einmitt það sem bent hefur verið á að sé það varhugaverða í þessu efni. Ég sé ekki að breytingin hafi orðið mjög mikil í þessu efni. Í lögunum frá 1979 er gert ráð fyrir að Framleiðsluráði sé heimilt að breyta tilteknum atriðum að fengnum tillögum aðalfundar eða fulltrúafundar Stéttarsambands bænda og að fenginni umsögn landbrh. Þessu er snúið þannig við, að nú er það landbrh. sem er heimilt að gera þetta að fengnu samþykki Framleiðsluráðs og fulltrúa á fundum Stéttarsambandsins. Það verður að ganga í gegnum alveg nákvæmlega sama hreinsunareld í hvoru tilvikinu sem er. (Landbrh.: Að fengnum tillögum, ekki að fengnu samþykki.) Nei, veit ég það, en það verður að ganga í gegnum þennan hreinsunareld eigi að síður.

Auk þess vildi hæstv. ráðh. líkja því saman að ráðh. hefur rétt til að breyta bensíngjaldi. Það er mikið rétt hjá honum að það er nokkur líking þar með, en þó er munurinn sá, að þennan rétt hefur ráðh. aðeins til að breyta bensíngjaldinu ef breyting verður á sérstakri vísitölu, og gefur það bendingu um hvað Alþingi vill í þessu efni.

Í þessu tilviki getur ráðh. breytt fóðurskattinum, ekki eftir ákveðinni formúlu frá Alþingi, heldur: „Gjald þetta skal annaðhvort vera tiltekin fjárhæð á hverja þyngdareiningu kjarnfóðurs eða tiltekið hlutfall af tollverði kjarnfóðursins.“ Að vísu er á þessu þak, en það er það eina. — Þetta gat ég ekki komist hjá að benda á.

Hv. 2. þm. Norðurl. e. hafði þau orð um að það yrði að koma kjarnfóðurskattinum í gegn með eins rúmum hætti og hér er gerð till. um vegna þess að ef hann væri ákvarðaður og ef oft þyrfti að breyta honum færu slík lög ekki í gegnum þingið. Þetta er hans fullyrðing og það má vel vera að hann segi þetta rétt. En hvað þýðir þetta í reynd? Þýðir þetta ekki að það er ekki þingmeirihluti fyrir því sem hér er verið að gera?