07.05.1981
Efri deild: 93. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 4051 í B-deild Alþingistíðinda. (4146)

292. mál, Þróunarsamvinnustofnun Íslands

Lárus Jónsson:

Herra forseti. Ég kvaddi mér fyrst og fremst hljóðs út af þessu máli til að lýsa því yfir, að mér finnst að hér sé um gagnmerkt mál að ræða. Þetta er spor í þá átt að við Íslendingar ræðum þetta mál, þróunaraðstoð við þriðja heiminn, af raunsæi og stöndum að þessu á skipulegan hátt.

Ég held að það sé tæplega tilefni til þess að fara að ræða hér um þetta mál frá flokkspólitísku sjónarmiði! Ég held að við séum sem betur fer mjög samstíga í málum sem þessum. Það er rétt, að við höfum kannske ekki tekið nægjanlega á þessum málum að undanförnu, en það er nú svo að það hafa fleiri þjóðir gert sem kannske eru efnahagslega öflugri en við. Ýmsar þjóðir hafa látið undir höfuð leggjast að hlaupa þarna undir bagga.

Ég var fulltrúi á þingi Sameinuðu þjóðanna á s. l. hausti, þegar þessi nýja þróunaráætlun var rædd, og átti þar sæti í 2. nefnd. Og það var dálítið lærdómsríkt að sitja þetta þing og fylgjast með umræðum um þetta mál. Nú blasir það við hverju barni, sem um þetta mál hugsar og aflar sér upplýsinga um það, að erfiðleikar þróunarlanda hafa mjög aukist að undanförnu, á s. l. áratug. Og það er ekki síst vegna þess sem hefur gerst í orkumálum í heiminum. Orkuverð hefur margfaldast eins og menn vita. Það er talið að þróunarlöndin greiði núna a. m. k. fimmfalt verð í erlendum gjaldeyri — ég held ég muni rétt, það er einhvers staðar á milli fimmfalt og tífalt-verð í erlendum gjaldeyri fyrir innflutta olíu, miðað við það sem þau gerðu 1974. Og þá er ég að tala um erlendan gjaldeyri eða dollara.

Þessi hækkun á olíureikningi þróunarlandanna ein er margföld á við alla aðstoð sem þróunarlöndin fá nú frá vestrænum og austrænum ríkjum. Á þetta mál var í rauninni ekki minnst á þingi Sameinuðu þjóðanna vegna þess að þróunarlöndin eru í hópi landa sem kalla sig hóp 77 ríkja, Group 77 á enskunni, þó að þau séu nú orðin miklu fleiri, og þar eru líka olíuframleiðslulöndin innstu koppar í búri. Og það er viðkvæmt mál fyrir þróunarlöndin að minna á þessa staðreynd, hvað þessar sveiflur í orkuverðinu hafa orðið erfiðar og langþyngstar þeim í skauti, því að efnaðri löndin hafa getað brugðist við þessu. Það hefur þó orðið kreppa í sumum efnaðri ríkjunum út af þessum sveiflum í orkuverðinu, en hjá þróunarlöndunum blasir við hungursneyð af þessu efni.

Ég held að við eigum að efna til meiri umræðna á Íslandi um þessi mál, reyna að gera okkur grein fyrir hvað er að gerast á þessu sviði. Ég er ekkert að ásaka olíuframleiðslulöndin um að þau hafi ekki haft eitthvað til síns máls um að hækka verð á þessu eldsneyti sem er ekki óþrjótandi eins og menn vita. Og það er lengi hægt að deila um hvort það hafi verið rétt ákvörðun hjá þeim að hækka verð á þessum afurðum sínum eins og þau hafa gert með því að koma sér saman um verðið. En staðreyndin mun engu að síður sú, að þessi þróun hefur orðið þróunarlöndunum afskaplega þung í skauti og hefur bæst við vanda þeirra á ýmsum sviðum, m. a. vegna þurrka og hvers konar óáranar sem yfir þau hefur gengið á síðustu árum.

Ég held að það sé fullkomlega ástæða til að taka undir það sem kom hér fram hjá hv. þm. Ólafi Ragnari Grímssyni, að það er ástæða fyrir okkur Íslendinga, fulltrúa stjórnmálaflokkanna, að ræða þessi mál, kynna sér þau betur, kynna þau betur þjóðinni og taka upp skipulegri stefnu í þessum efnum en við höfum gert á undanförnum árum.