07.05.1981
Efri deild: 93. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 4053 í B-deild Alþingistíðinda. (4154)

37. mál, kjarasamningar opinberra starfsmanna

Frsm. (Guðmundur Bjarnason):

Herra forseti. Fjh.- og viðskn. Ed. hefur fjallað um frv. til l. um breyt. á og viðauka við lög nr. 46 frá 25. apríl 1973, um kjarasamninga opinberra starfsmanna, sbr. lög nr. 23/1977, lög nr. 58/1977 og lög nr. 61/1977.

Frv. þetta er til staðfestingar á brbl. sem gefin voru út á s. l. hausti, undirrituð 9. sept. 1980, í tengslum við kjarasamninga við opinbera starfsmenn og til þess sett að auðvelda gerð þeirra samninga. Vildi ríkisstj. hlutast til um að stuðla að samningum með þessu móti. Frv. fjallar eingöngu um félagsleg málefni opinberra starfsmanna. Hér er um að ræða réttindi þeirra til að njóta atvinnuleysisbóta.

Í fjh.- og viðskn. Nd. var gerð breyting á frv. þar sem tekið var til og kveðið nánar á um með hvaða hætti skyldi ákvarða laun biskups Íslands. Laun hans og kjör skyldu ákveðin af Kjaradómi svo sem er með ráðherra, hæstaréttardómara, ríkissaksóknara og ráðuneytisstjóra.

Nefndin er sammála um að leggja til að frv. þetta verði samþykkt með þeim breytingum sem gerðar voru á því í Nd. Fjarverandi við afgreiðslu málsins í n. voru hæstv. forsrh. Gunnar Thoroddsen og hv. þm. Eyjólfur Konráð Jónsson og Davíð Aðalsteinsson. Nefndarálitið undirrita Ólafur Ragnar Grímsson, Kjartan Jóhannsson, Guðmundur Bjarnason og Lárus Jónsson.